Tímarit Máls og menningar - 01.10.1981, Blaðsíða 53
Thor Vilhjálmsson
Guð næturklúbbar
Guð næturklúbbar, segir ung stúlka í næsta bás þegar frúrnar voru farnar
út. Ægilega væri gaman að komast á næturklúbb. Eru ekki til rússneskir
líka með balaleikum og kósakkadönsum og mönnum að gleypa sverð?
Og Donkósakkarnir hvar eru þeir?
Þeir eru á næturklúbbunum í Vesturlöndum, segir ungur maður með
gleraugu í þykkum hornspangarumgerðum.
Vitleysa, eru þeir ekki í Rússlandi annars?
Nei ekki þessir frægu frægu.
Hvað gera Donkósakkarnir?
Ætli þeir séu ekki dyraverðir á næturklúbbum Vesturlanda. Þegar þeir
fara að reskjast. Og bassasöngvarar. Þeir taka af sér kaskeitið, láta það á
pikkólóinn og syngja svo í floorshow bassa í gervi Tarras Bulba eða Boris
Godunov og deyja sjálfsagt á sviðinu á hverju kvöldi, standa svo upp
stórir og þreknir og glæsilegir, og dusta af sér rykið við lófaklappið,
meðan kastljósið færist á næstu stjörnu kvöldsins töframanninn eða
nektardansmeyna, eða hinar kraftalegu fimleikasystur með lærin ber og
pípuhatt sem standa á höndunum; og önnur styður sig á iljar hinnar, og
fara í flikkflakk og splitt einsog að opna rennilás á buxnaklauf, þá fara þeir
fram og taka kaskeitið bláa af pikkólónum og regnhlífina svörtu, fara út í
rigninguna til að taka á móti mönnum sem koma frá því að kaupa eða
selja hlutabréf í olíusamsteypunni, leiða þá til borðs. Digrir litlir og
dökkir einsog þeir hefðu alið aldur sinn í olíunni að vaða fram og aftur
um lindir auðsins.
Gasalega langar mig að drekka kampavín. Einmitt á svona stað. Með
stórum pálmum og allavega ljós i þeim, og landslagsmyndir á veggjunum
í glerkössum einsog maður sæi út um glugga þessar stóru frægu borgir
með ljósum um nótt við flóa með fjöll á bak við einsog Buenos Aires og
San Fransisco, Montevideo eða Genúa, er ekki einmitt næturklúbbur í
skýjakljúf þar, eða hvernig er með Tokyo? Eitthvað svoleiðis. Og dauf
299