Tímarit Máls og menningar - 01.03.1991, Blaðsíða 41
grannt skoðað kemur í ljós að ofbeldið er
hvarvetna til staðar í samtímamenningu
okkar; það hefur tekið á sig sífellt fjöl-
breytilegri myndir og lagt undir sig æ fleiri
svið mannlegs lífs — opinskátt eða grímu-
klætt. Segja má að það sé mótbragð við
kennd veikleika; menn virðast ekki lengur
hafa trú á mætti eigin hugsunar, gildi at-
hafnar sinnar — öflugt frelsi hefur vikið
fyrir kennd vanmáttar og ófrelsis. Þessi til-
finning nær ekki aðeins til ytra umhverfis.
Hún setur einnig mark sitt á kynferði manna
og sálarlíf. Það er einkar glöggt í hryll-
ingskvikmyndum samtímans sem snúast að
miklu leyti um kynferðislegt öngþveiti:
maðurinn skelfist óáreiðanleika sjálfs sín,
það sem í sjálfi hans leynist, ófreskjuna í
Öfreskja í vígahug í kvikmyndinni Alienirá 1979.
Leikstjóri: Ridley Scott.
eigin brjósti. Áður fyrr skar skrímslið sig úr
fjöldanum — menn vissu hvað var á seyði
og þekktu andstæðing sinn. Nú á tímum er
voðinn alls staðar; jafnvel ættingjar og vinir
geta breyst á svipstundu í nauðgara og
morðingja. Það er eins og mörkin milli hins
eðlilega og óeðlilega hafí með öllu rofnað.
Segja má að Jack the Ripper hafi aldrei
lifað fjölbreytilegra lífi en seinni árin. Ein-
hvem veginn tákngerir hann betur ótta sam-
tímans en hrollhetjur fyrri tíma — varúlf-
urinn, blóðsugan og draugurinn. Áður fyrr
var sálsýkin staðsett fyrir utan samfélagið.
Hún hafði leikrænt og litsterkt yfirbragð:
geðsjúklingurinn lifði í heimi sem var frá-
brugðinn heimi venjulegs fólks, heimi öfl-
ugri skynjana og stórfelldari hugsana. Oft á
tíðum bjó hann í afskekktu húsi og var
óhugnanlegur útlits, stundum líkari dýri en
manni. Með því móti var áhorfendum sýnd
geðveikin, hún var þeim óviðkomandi í
sjálfu sér. f kvikmyndum samtímans er ann-
að uppi á teningnum; brjálæðingurinn býr í
sama rými og aðrir — sturlunin brýst út úr
hversdagslífinu sjálfu. Geðveikin er hvorki
afleiðing þekkingarþorsta né metnaðar, né
heldur áfalls í æsku eða fötlunar; hún stafar
öllu heldur af djúpsettri og óskýranlegri
illfýsi, blindri eyðileggingarástríðu. Þessar
kvikmyndir byggjast á því að mannlegt
sjálf sé ófyrirsjáanlegt; fleygt er lyklum að
sálarlífi annarra sem menningin hefur búið
okkur í hendur.
Sálsýkisþemað tók á sig framangreinda
mynd með tveimur hrollvekjum, Psycho og
Peeping Tom, en þær voru frumsýndar með
fárra mánaða millibili árið 1960. Báðar
þóttu einkar nýstárlegar á sínum tíma.
Þannig er söguhetja Peeping Tom ósköp
venjulegur piltur við fyrstu sýn, feiminn og
óframfærinn þótt hann sé haldinn morð-
TMM 1991:1
31