Tímarit Máls og menningar - 01.09.1997, Page 84
GYRÐIR ELÍASSON
í þriðja bindi íslenskrar Bókmenntasögu er sagt að sögur Jóhanns Magn-
úsar lýsi „barnslegri einfeldni“. Að vissu leyti er þetta rétt, en segir þó ekki
nema hálfan sannleikann. Meðfram eru þær einmitt vitnisburður um marg-
brotinn persónuleika. Hitt er svo annað mál að hann hefur alla tíð verið
lífstrúarmaður: haft óbilandi trú á því góða í manninum og sigri betri afla í
tilverunni. En það má lesa milli lína að þeirri trú hefur hann samt sem áður
ekki haldið baráttulaust. Hér og hvar glittir í slitfleti þar sem núningur og
átök hafa átt sér stað, en út úr því öllu kemur hann með sína heilsteyptu
lífssýn — og það er sú niðurstaða sem skiptir meginmáli, ekki það sem á
undan er gengið. Honum finnst ekki ómaksins vert að þræða aftur slóðir
sem hann er löngu kominn framhjá. Þessvegna er minna af eigindum sem
leiða hugann t.d. að trúmálum í sögum Jóhanns Magnúsar en Einars H.
Kvarans, þó skylt sé að geta þess að Jóhann dáði Einar mjög og virðist að
ýmsu leyti hafa talið sig standa í þakkarskuld við hann sem höfundur.
Halldór Laxness telur Jóhanni Magnúsi þessa fjarveru trúmálaviðhorfa til
tekna þegar hann ber þá Einar lauslega saman, og vissulega getur verið að
sögur Magnúsar endist betur fýrir vikið, að minnsta kosti virðast rit hans
standa mun nær nútímanum með sína yfirlætislausu hreinu frásögn, þar sem
persónur eru fólk en ekki málpípur. Einsog áður segir þýðir þetta þó ekki að
Jóhann Magnús hafi ekki haft skoðanir á umræddum málefnum. í dagbók
hans kemur glöggt fram að hann hefur einmitt verið mikill trúmaður, en
frábitinn löngum umræðum um slíkt, og vinur hans Jóhannes P. Pálsson
segir í fróðlegri grein um hann látinn að hann hafi verið lítið fyrir kirkju-
göngur. Guðfræðilegar þrætur eru mikill dragbítur á bókmenntir, og Jóhann
Magnús var of mikill listamaður í eðli sínu til að láta slíkt henda sig.
Þó hann hafi sjálfur talið stíl sínum ábótavant, var hann ákaflega vand-
virkur, og lét ekkert ffá sér fara nema eftir mikla yfirlegu. Hann taldi bækur
sínar hafa aðallega skemmtigildi, en gerði sér ekki háar hugmyndir um
endingu þeirra meðal eftirkomandi kynslóða. Og bækur hans eru skemmti-
legar, á því leikur enginn vafi, en þær eru meira. Þar kemur hvorttveggja til
að þær eru bornar uppi af heilbrigðri, og um margt óvenjulegri lífssýn, og
búa yfir ákveðnum „sjarma" sem er ekki á hverju strái. Hann hefur þá gáfu
sannra sögumanna að gera þá hluti sem hann fjallar um trúverðuga, hversu
ósennilegir sem þeir annars kunna að vera. Þetta á ekki síst við um smásögur
hans, sem að mörgu leyti eru heildstæðari sem listaverk en lengri sögur hans.
Þar næst eru sögur hans með ýmsu móti heimildir um líf íslenskra frum-
byggja í Vesturálfu, og veita á sinn hátt innsýn sem hefðbundin sagnfræðirit
geta tæplega gert. Nú, á dögum endurvakins áhuga á Vesturförum, ættu rit
hans að geta gengið í endurnýjun lífdaganna. En þótt það kæmi ekki til, ættu
82
TMM 1997:3