Dagblaðið Vísir - DV - 21.05.2010, Blaðsíða 38
38 FÖSTUDAGUR 21. maí 2010 VIÐTAL
„Ég hef nú meiri áhuga á uppbygg-
ingunni fram undan því hrunið er
afstaðið. En við þurfum samt að
hafa alla okkar sögu og reynslu und-
ir í þessari uppbyggingu,“ segir Pét-
ur Gunnarsson rithöfundur þegar
blaðamaður spyr hann um hvaða
skoðanir hann hafi á íslenska efna-
hagshruninu.
Pétur er nýkominn heim frá Frakk-
landi þar sem hann hefur dvalið und-
anfarið ásamt konu sinni Hrafnhildi.
Hann hefur því ekki verið hér á landi í
því fjölmiðlafári sem greip um sig við
útkomu skýrslu rannsóknarnefndar
Alþingis. Skýrslan bíður hins vegar
eftir Pétri í öllu sínu veldi á skrifborð-
inu í vinnustofu hans. „Ég hef að-
eins nasað af henni og svo hef ég séð
útdrættina í fjölmiðlum: Stærðin í
þessu botnlausa og þessu glórulausa
er meiri en fólk gat órað fyrir,“ segir
Pétur sem nýverið hlaut viðurkenn-
ingu Hagþenkis fyrir síðustu bækur
sínar, tveggja binda verk um ævi Þór-
bergs Þórðarsonar rithöfundar.
Þeir sem þekkja til Péturs sem
höfundar og samfélagsrýnis vita að
hann er djúpþenkjandi maður og
ekki gjarn á að einfalda hlutina með
yfirborðslegum skýringum. Útskýr-
ingar Péturs á íslenska efnahags-
hruninu er því ekki hægt að fanga
með einu orði eða tveimur – græðgi,
hroka, drambi eða heimsku. Að hans
mati þarf að leita dýpra en það. Leit
Péturs að orsökum hrunsins hér
heima hefst suður í Frakklandi þar
sem hann staðnæmist fyrst við hug-
myndir fólks um vinnuna.
Ofvinna er slæm
„Við áttum heima í Suður-Frakklandi
endur fyrir löngu í nokkur ár. Við eig-
um marga vini þarna og kunningja
og heimsóttum suma þeirra. Það
var fróðlegt að bera kjör og hugarfar
þessa fólks saman við viðhorf okk-
ar hér heima. Kunningjar okkar eru
nú flestir komnir á eftirlaun – Frakkar
fara á eftirlaun sextugir. Hér heima líta
menn nánast á þetta sem refsingu eða
heimsendi, eitthvað ægilegt sem beri
að forðast í lengstu lög. Frakkar aft-
ur á móti taka þessu fagnandi og eru
alla sína starfsævi að láta sig hlakka til
þessara langþráðu tímamóta: Að geta
ráðstafað tíma sínum öllum og óskipt-
um eins og þeir kjósa. En það er eins
og við Íslendingar paníkerum gagn-
vart þessu: Að öllum tímanum sé ekki
ráðstafað fyrir okkur af einhverjum
vinnudegi, einhverju striti, einhverju
streði, einhverju basli. Þetta fannst
mér umhugsunarvert og lærdómsríkt í
samhengi við það ástand sem nú ríkir
í landinu. Og í kjölfarið hef ég farið að
hugsa um viðhorf okkar Íslendinga til
vinnunnar,“ segir Pétur.
Pétur segir að það sé alþekkt hvað
Íslendingar gangist mikið upp í því að
vinna mikið og að þetta hafi oft verið
kennt við dugnað. „En ég held að það
sé nú með vinnuna eins og mörg önn-
ur fyrirbæri að það er til ofát, það er
til ofneysla, og það er til ofvinna. Og
ofát er ekki endilega gott át, ofneysla
er ekki endilega góð neysla og ofvinna
er ekki endilega góð vinna. Reyndar
eru heilu tímabilin í sögu vestrænna
manna þar sem vinnan var eins kon-
ar hornreka, eiginlega ekki frjálsum
mönnum bjóðandi. Þannig var um
Forn-Grikki. Við dáumst að þeim fyr-
ir framlag þeirra til heimspeki, lista
og vísinda sem er öldungis fáheyrt
hjá svo fámennri þjóð. En jafnvel enn
meiri furðu gegnir að jafnframt þess-
um afrekum þá fyrirlitu þeir vinnuna.
Hún var samboðin þrælum,“ segir Pét-
ur og bætir því við að Sókrates hafi til
dæmis boðað að menn ættu fyrst og
fremst að bera umhyggju fyrir sálu
sinni og þroska hennar.
Vinna sem sóun
Pétur segir að hann staðnæmist við
þessa hugsun um vinnuna eftir hrun-
ið því í kjölfar þess kalli Íslending-
ar nú eftir vinnu í stórum stíl í kjölfar
aukins atvinnuleysis. „Það eru farn-
ar Keflavíkurgöngur þar sem iðnað-
armenn og verktakar eru að kalla eft-
ir vinnu og verkefnum. Og ég spyr
mig: Verkefnum til hvers? Ætla þeir að
byggja fleiri blokkir sem standa auð-
ar? Ætla þeir að byggja fleiri íbúðar-
hverfi sem standa auð? Hvaða eigum
við við þegar við tölum um vinnu? Var
þetta vinna eða var þetta sóun? Var
það vinna að byggja þessar byggingar
og þessi hverfi út í bláinn eða var það
sóun? Var það vinna að búa til þessa
fjármálavafninga alla eða var þetta
sóun? Þetta finnst mér að við ættum
að athuga. Sjáðu til dæmis blokkina á
Reyðarfirði sem var byggð vegna Kára-
hnjúkavirkjunar. Er hún ekki hálftóm?
Það er svo margt sem við höfum kallað
vinnu sem í raun og veru hefur verið
sóun. Þessum peningum hefði líkast
til betur verið varið í annað. Turninn
í Borgartúni er líka minnisvarði um
þessa tíma og þennan hugsunarhátt,“
segir Pétur en í góðærinu sem hann
vísar til var gríðarleg þensla hér á landi
og atvinnuleysi náði óþekktu lág-
marki. Þúsundir erlendra verkamanna
komu hingað til lands til að vinna þá
vinnu sem Íslendingar vildu láta vinna
en höfðu ekki mannafla til. Byggingar
nýrra húsa og hverfa í stórum stíl voru
liður í þessari miklu þenslu og sagði
erlendur gestur sem kom hingað til
lands að hægt hefði verið að sjá hrun-
ið fyrir með því að telja byggingarkran-
ana sem bar við himin í Reykjavík fyrir
hrunið.
Mikið af þessari uppbyggingu í
góðærinu var í raun með öfugum for-
merkjum að mati Péturs og hefði lík-
ast til verið betra að sleppa henni því
hún hefði fremur verið réttnefnd sóun.
„Það sjá það held ég allir að það starf
sem er fram undan við uppbygging-
una verður ekki með sömu formerkj-
um og fyrir hrun. Það eru grundvallar-
þættir sem við þurfum að breyta út af
því að vinnan eins og við höfum skil-
ið hana hingað til er að líða undir lok.
En þetta þýðir samt sem áður ekki að
við munum ekki öll hafa tækifæri á
allsnægtum líkt og áður,“ segir Pétur
en hann telur meðal annars að hluti
af þeim breytingum sem þurfi að eiga
sér stað sé að fundið verði nýtt kerfi til
að útdeila gæðum – Pétur segist hins
vegar ekki vita hvernig þetta kerfi eigi
að vera, þetta sé aðeins hans hugboð.
Hann er orðinn tómur
Pétur segir að Íslendingar og aðrir
Vesturlandabúar gætu hæglega unn-
ið miklu minna ef þeir kærðu sig um.
„Árið 1930 spáði hagfræðigoðið John
Maynard Keynes því að við aldarlok,
það er um það bil núna, myndu þrjár
vinnustundir á dag duga til að mann-
kynið sæi fyrir þörfum sínum. En þá
erum við komin að þessari ægilegu
spurningu sem heimspekingurinn
Hannah Arendt spurði í verki sínu The
Human Condition sem út kom fyrir
rúmlega hálfri öld. Þar kemst hún að
þeirri niðurstöðu að Vesturlönd séu
fyrir löngu orðin að vinnusamfélagi
sem gangi út á að vinna án þess að
skeyta um til hvers er unnið. Jafnvel
svo að lausn undan þessu fyrirkomu-
lagi þyki ógnvænleg. Og af hverju staf-
ar það? Af því að Vesturlandabúinn er
orðinn tómur. Hann hefur ekki innra
með sér þær uppsprettur og þær lindir
sem duga honum til lífsfyllingar. Þess-
ar lindir hafa í tímans rás þornað upp,
við höfum þurrkað þær upp, eða beint
þeim í aðrar áttir. Þess vegna reyna
menn með öllum ráðum að fram-
lengja ástandið þar sem vinnudagur-
inn er eins og við þekkjum hann í dag,“
segir Pétur.
GÓÐÆRIÐ
var sóun
Pétur Gunnarsson rithöfundur segir að Íslendingar og Vesturlandabúar standi á miklum skilum eftir efna-
hagshrunið árð 2008. Hann segir að mikið af þeirri vinnu sem unnin hafi verið í góðærinu hafi verið sóun.
Pétur kallar eftir nýjum hugsunarhætti og verðmætamati í samfélaginu. Ingi F. Vilhjálmsson settist niður
með Pétri á heimili hans í Hvassaleitinu og ræddi við hann um hrunið.
Var það vinna að búa
til þessa fjármála-
vafninga alla eða
var þetta sóun?
LJÓSMYNDARI: SIGTRYGGUR ARI JÓHANNSSON