Dagblaðið Vísir - DV - 11.03.2011, Qupperneq 20
20 | Fréttir 11.–13. mars 2011 Helgarblað
Ég trúði ekki að sonur
minn gæti gert þetta
„Ég veit ekki hversu oft ég hef grátið
yfir þessu, fyrir framan hann, ein og
á fundum með foreldrum annarra
barna. Ég er viðkvæm og tók það allt-
af rosalega nærri mér hvað hann var
að gera öðrum,“ segir Jóhanna Ósk
Gunnarsdóttir, móðir Garðars Inga
Guðmundssonar, 14 ára drengs sem
lagði skólasystkini sín í einelti í sex
ár. „Að eiga barn sem er gerandi er
ekki auðvelt. Mér leið mjög illa.“
Berst enn við púkann
Eftir nokkra umhugsun urðu þau
mæðgin ásátt um að deila sinni
reynslu með öðrum því eins og hún
segir eru gerendur í eineltismálum
líka börn sem þurfa að fá hjálp. „Oft
er skuldinni skellt á foreldra barnsins
en þetta er ekki alltaf svona einfalt,“
segir Jóhanna Ósk. Sjálf reyndi hún
allt og var á stundum við það að bug-
ast út af ástandinu. Hún var því guð-
slifandi fegin þegar hann áttaði sig
sjálfur á því í sjötta bekk hvað hann
var að gera og hætti því.
„Sumt get ég ekki rifjað upp því
það var of skelfilegt. Ég er bara feg-
in því að hann hefur þroskast upp
úr þessu. Honum líður ekki vel með
þetta. En hann er enn að berjast við
þessa hlið á sér og þarf að passa sig.
Þegar hann reiðist lætur hann stund-
um ljót orð út úr sér en áttar sig strax,
iðrast og biðst afsökunar. Hann vill
ekki vera svona en er alltaf að berjast
við þennan púka sem er í honum. En
hann er hættur að leggja aðra í ein-
elti.“
Sex ára stríðnispúki
Sonur hennar var sex ára þegar hún
var fyrst kölluð til skólastjóra út af
einelti. „Þá tók hann bekkjarsystur
sína fyrir og ég talaði við kennarann,
foreldra og skólastjórann. En hann
man ekki eftir því lengur. Ég man
þetta óljóst sjálf, það hefur svo margt
gengið á. Frá upphafi skólagöngunn-
ar hefur verið vesen á honum. Síðan
hætti hann að stríða þessari stelpu
og það liðu nokkrir mánuðir þar til
hann byrjaði aftur. Þetta var allt-
af sama sagan. Stundum liðu alveg
tveir mánuðir án þess að nokkur yrði
var við neitt. Því fylgdi alltaf léttir og í
hvert skipti vonaðist ég til þess að nú
væri þetta komið, að nú hefði okk-
ur tekist að ná til hans. En það kom
alltaf eitthvað upp aftur. Ég fékk því
í magann í hvert skipti sem skólinn
hringdi.“
Fór aldrei í afneitun
Á tveggja ára tímabili fór Jóhanna
Ósk um þrisvar í viku á fund í skól-
anum út af þessari hegðun hans. „Ég
reyndi allt til þess að ná til hans, leit-
aði til fagaðila og fékk systur mína
sem lenti í slæmu einelti í æsku til
þess að segja sína sögu. Ég reyndi
virkilega að opna augu hans fyrir því
hvað þetta var ljótt. Hann uppnefndi
börn og beitti þau andlegu ofbeldi og
stríðni.
Ég veit að barnið mitt hefur gott
hjartalag og ég átti auðvitað erfitt
með því að trúa því að hann gerði
svona. Aldrei fór ég samt í afneitun
heldur reyndi ég alltaf að taka eins
vel á þessu og ég gat. Það skiptir öllu
máli að foreldrar takist á við vandann
með opnum hug og við gerðum það.
Ástæðan fyrir því að hann er hætt-
ur þessu í dag er sennilega sú að við
pabbi hans gerðum það. Foreldrar
sem loka augunum fyrir þessu taka
ekki á vandanum og senda barninu
þau skilaboð að það sé í lagi að koma
svona fram.“
Með bullandi sektarkennd
Sjálfur varð hann fyrir smá einelti
í fyrsta bekk þegar eldribekkingar
stríddu honum. „Ég veit ekki hvort
það getur verið ástæðan fyrir því
að hann fór að haga sér svona. Öll
þessi ár hef ég séð að honum hefur
liðið illa og það brýst út í skapsveifl-
um. Hann var rosalega kvíðinn. Ég
var lengi ein með hann og vann þá
mikið. Það er bara staðreynd að þeg-
ar maður þarf að vinna svona mikið
getur maður ekki sinnt börnunum
eins vel og annars, en ég hef ekki haft
neitt val. Það voru líka leiðindi á milli
mín og föður hans sem höfðu áhrif á
hann. Þú sérð að ég er enn að leita að
ástæðunni fyrir því að hann hagaði
sér svona og er með bullandi sektar-
kennd.
Ég stend í þeirri trú að börn sem
koma svona fram eigi við einhvern
vanda að stríða. Þú ert ekki svona
vondur nema þér líði illa og þurfir
að upphefja sjálfan þig með því að
láta öðrum líða illa. Eins ljótt og það
hljómar, þá held ég að það sé eitt-
hvað að gerandanum, en ég gat ekki
fundið út hvað var að hjá syni mín-
um.“
Gengur ekki í erfðir
Hún bendir samt á að hún eigi þrjú
börn sem hún hafi alið upp með
sama hætti. Elsta dóttir hennar lenti
í einelti, miðdrengurinn lagði í ein-
elti en sá yngsti slapp alveg. „Þannig
að mér finnst það einum of auðvelt
að ætla að skrifa þetta allt á foreldr-
ana og segja að ef krakkinn er til
vandræða hljóti foreldrarnir að vera
það líka. Eins og þetta gangi í erfð-
ir, við séum bara svona. Það er bara
kjaftæði. Ég hef aldrei lagt nokkurn
mann í einelti og hef frekar staðið
með minnimáttar í gegnum tíðina.
Þetta er ekki til í mínum genum. Ekk-
ert af systkinum mínum og enginn í
mínu nánasta umhverfi gerir svona.
Karakter barnsins hefur náttúrulega
mikið um það að segja hvernig það
hegðar sér.“
Erfiðara að eiga geranda
Þar sem Jóhanna Ósk hefur bæði
fylgst með barni sínu lenda í ein-
elti og leggja í einelti getur hún með
sanni sagt að það er ekkert betra að
barnið sé gerandi en fórnarlamb.
„Mér fannst það erfiðara. Stelpan
fékk alla þá samúð sem hún átti skil-
ið. Eineltið var verst þegar hún var í
sjötta bekk og enn í dag, þegar hún
er orðin átján ára gömul, þykir henni
sárt að hugsa til baka. Hún þolir ekki
stelpurnar sem lögðu hana í ein-
elti og beittu hana andlegu ofbeldi.
Ég fylgdist með þessu og sá hvern-
ig henni leið. Eftir að hafa gengið í
gegnum þetta með henni og systur
minni á sínum tíma trúði ég því ekki
að sonur minn gæti gert þetta við
önnur börn. Það var rosalega erfitt
að kyngja því.“
Vantar stuðning
Hún segir að sonur sinn sé í mjög
góðum skóla þar sem vel sé hald-
ið utan um eineltismál. „Það er allt
gert til þess að hjálpa börnum sem
lenda í einelti. Það líkar ekki öllum
við alla, það er bara þannig, en það
þarf enginn að leggja aðra í einelti
vegna þess. Í bekknum hans er sæt-
um til dæmis róterað á nokkurra
vikna fresti svo allir nái að kynnast.
Það hefur gengið mjög vel.
Ég verð samt að segja að mér
finnst vanta meiri stuðning fyrir
gerendur. Oft eru þessir krakkar af-
greiddir sem vondir og þeim útskúf-
að. Þegar hann reyndi að taka sig á,
sem hann vissulega gerði inni á milli,
var honum enn kennt um allt sem
fór úrskeiðis. Skammir á skammir
ofan eru það eina sem hann hefur
fengið alla sína skólagöngu. Ég hefði
óskað þess að það hefði verið reynt
meira að finna ástæðuna fyrir því að
hann hagaði sér svona og honum
verið hjálpað við að brjótast út úr
þessu mynstri. Ég reyndi að fá hjálp
en ekkert gekk.“
„Hann er ekkert skrímsli“
Í gær trúði hann móður sinni fyr-
ir því af hverju hann hefði loksins
hætt að stríða þegar hann var í sjötta
bekk. „Hann sagðist alltaf muna eft-
ir svipnum á bekkjarsystur sinni sem
hann lagði í einelti. Þegar hann sá
sorgina sem hann olli henni rann
það allt í einu upp fyrir honum hvað
hann hafði gert. Hann fékk sting í
hjartað og hætti þessu. Hann hefur
ekki gert þetta síðan. Hann vill ekki
stríða,“ segir hún klökk.
„Ég er alveg með kökkinn í háls-
inum yfir því að vera að tala um
þetta í blöðunum. Mér finnst það
mjög erfitt og ég óttast það hvað ég
sé að gera honum. Ég óttast viðbrögð
fólks, að fólk muni dæma okkur og
að hann verði útmálaður sem eitt-
hvert skrímsli. Sonur minn er ekk-
ert skrímsli. Öll börnin mín eru með
gott hjartalag, hvert eitt og einasta.“
Hún tekur dæmi af því þegar son-
ur hennar sá gamla konu skafa bíl-
inn og hljóp yfir götuna til þess að
hjálpa henni. „Þetta gerði hann á
sama tíma og hann stríddi krökk-
um í skólanum. Kannski skorti hann
bara samkennd og þroska til að geta
sett sig í spor annarra. Þetta er góð-
ur strákur þannig að ég skildi aldrei
hvernig hann gat gert þetta. Það er
svo langt frá því að hann sé vondur
strákur.“
Skipti um umhverfi
Að lokum ákvað sonur hennar að
flytja til föður síns. „Það var stórt
skref fyrir hann því hann vildi ekki
fara frá mér en hann varð að fara í
annan skóla. Honum var farið að
líða verulega illa í skólanum og
fannst hann ekki fá tækifæri til að
byrja upp á nýtt hér. Hann gat ekki
tekið sig á meðan sökinni var allt-
af klínt á hann þegar eitthvað kom
upp. Ég reyndi að útskýra það fyr-
ir honum að hann væri búinn að
vinna sér þetta inn og yrði að taka
því en innst inni varð ég reið yfir því
að honum var aldrei gefið tækifæri.
Hann þurfti að komast héðan, út
úr þessu umhverfi. Um leið og hann
skipti um skóla fór allt að ganga bet-
ur. Þar gat hann byrjað upp á nýtt.
Síðan hefur gengið rosalega vel þótt
hann hafi svo komið aftur í skólann
okkar.“
Þetta eru líka börn
Kennararnir hafa reynt að fá hann
til þess að nýta leiðtogahæfileika
sína með jákvæðum hætti. „Hann
var beðinn um að hjálpa krökkum
sem lenda í stríðni og hann hefur
gert það. Aðrir fylgja honum í því
líka. En það er allt of mikið af þessu
einelti og eftir allt sem á undan er
gengið tek ég það mjög nærri mér.
Ég grét yfir fréttunum um eineltið í
Hveragerði. Krakkar geta verið svo
grimmir. En það má ekki gleyma
þessum börnum. Þau eru börn líka
og þótt þau séu gerendur þurfa þau
líka hjálp. Það er enginn stoltur af
þessari hegðun. Þess vegna vildi
ég opna þessa umræðu. Eins og
yngsti sonur minn sagði um daginn
er hann heppinn. Þá hafði kennar-
inn hans sagt honum að hann væri
heppinn því hann er aldrei vondur
við fólk. Ég gat ekki annað en tek-
ið undir það. Það vill enginn vera
vondur við aðra manneskju. Það er
ekkert gaman að þurfa að takast á
við þetta.“
n Sonurinn lagði aðra í einelti í sex ár n Reyndi allt til að ná til hans n Var við
það að bugast n :Þjökuð af sektarkennd n „Sonur minn er ekkert skrímsli“
n Skilur ekki af hverju hann gerði þetta n „Það vill enginn vera vondur“
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
blaðamaður skrifar ingibjorg@dv.is
„ Þegar hann sá
sorgina sem hann
olli henni rann það allt
í einu upp fyrir honum
hvað hann hafði gert.
„Ég reyndi virki-
lega að opna augu
hans fyrir því hvað þetta
var ljótt. Hann uppnefndi
börn og beitti þau and-
legu ofbeldi og stríðni.
Jóhanna Ósk Gunnarsdóttir
Reyndi að fá hjálp fyrir son sinn sem var
gerandi í eineltismálum en án árangurs.