Gripla - 20.12.2012, Blaðsíða 63
61
Þorvaldsson á síðustu árum þjóðveldis. sturla lagði fæð á Gissur árið 1261,
kallaði hann slægan lygara og svikara í vísu sem hann orti og líkti við óðin.28
er vafasamt að gróið hafi um heilt á milli þeirra. í Íslendingasögu gætir
sturla vissulega stillingar í frásögnum af Gissuri, hinum æðsta fulltrúa
konungs, en þó kemur þrisvar fram í verkinu að menn vissu ekki hverjum
Gissur fylgdi að málum (80. (75.), 91. (86.) og 104.(99.) kapítuli) og mun
það frá hendi sturlu. Hann vildi líklega benda á að menn vissu ekki hvar
þeir hefðu Gissur, og Pétur sigurðsson nefnir óhreinlyndi Gissurar í þessu
sambandi.29 vissulega er athyglisvert að sturla skuli klifa á þessu atriði,
Gissur gaf ekkert upp um stuðning, lét vel til beggja, lét til allra skipulega.
segja mætti að Gissur hafi verið hlutlaus, en klifunin vekur grun um undir-
hyggju af hálfu hans eða að brugðið gæti til beggja vona, hann hafi ekki
verið heill. Ályktun Péturs um óhreinlyndi er því ekki óeðlileg. í samtekt-
inni um Gissur (í 126. (121.) kapítula), sem Pétur telur vera frá safnanda,
segir hins vegar að Gissur hafi jafnan verið „afskiptalítill“ við deilur höfð-
ingja. Þar er annars mikið lof um Gissur, hann hafi verið höfðingi mikill,
vitur, vinsæll, skýrlegur, blíðmæltur og hinn drjúlegasti við ráðagerðir,
vinsæll meðal bestu bænda. Lýsing sturlu sighvatssonar á sama stað er
hins vegar heldur nöturleg, segir þar „að nær engir menn hér á landi héldu
sér réttum fyrir honum“, svo mikill hafi ofsi hans verið. safnandinn hefur
ekkert gott að segja um sturlu. vegna náinna tengsla Þórðar narfasonar
við sturlu Þórðarson er vafasamt að hann hefði dregið upp svo lofsamlega
mynd af Gissuri, þótt hann væri ömmubróðir hans, og ósennilegt að hann
hefði dregið upp svo nöturlega mynd af sturlu sighvatssyni, sem nafni
hans virðist hafa dáð svo mjög.30
Guðrún nordal fjallar um þessar andstæður í bók sinni, Ethics and Action in Thirteenth-
Century Iceland, the viking Collection, studies in northern Civilization 11 (óðinsvéum:
odense university Press, 1998), einkum 52–65.
28 Sturlunga saga 1, útg. jón jóhannesson et al., 528.
29 Pétur sigurðsson, „um íslendinga sögu sturlu Þórðarsonar,“ 43.
30 vissulega voru endalok sturlu sighvatssonar á Örlygsstöðum ömurleg, samkvæmt lýsingu
nafna hans og frænda, og líklegt að hann hafi viljað draga fram að dramb eða óhóf hafi orðið
frændanum að falli; hann gætti ekki að guði fyrr en undir andlátið og iðraðist, sbr. Helgi
Þorláksson, „sturla Þórðarson, minni og vald,“ 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002.
Ráðstefnurit 2, ritstj. erla Hulda Halldórsdóttir (Reykjavík: sagnfræðistofnun Háskóla
íslands, sagnfræðingafélag íslands, sögufélag, 2002), 319–341. í lýsingunni kemur þó
fram hluttekning og jafnvel hlýja enda voru þeir nafnar mjög nákomnir og aðdáun sturlu
Þórðarsonar ótvíræð.
STURLUNGA – tILuRÐ oG MARkMIÐ