Gripla - 20.12.2012, Page 129
127uPPHAf MÁLDAGABókA oG stjóRnsÝsLu BIskuPA
hönd í samningu þeirra flestra, og eftir því sem leið á þrettándu öld verður
meira samræmi á innihaldi þeirra og uppsetningu sem gæti bent til að
ritarar biskupa hafi í vaxandi mæli mótað hefðir um hvernig máldagar
ættu að vera og haft forsögn um það þegar þeir voru samdir. Hins vegar
bendir fátt til að biskupar hafi safnað þeim máldögum sem samdir voru
í yfirreiðum þeirra með skipulögðum hætti fyrr en á fjórtándu öld.
eflaust hafa afrit og frumrit safnast í skjalakistur biskupa fram til þess, en
vitnisburð um eiginlega máldagabók – heildstætt safn máldaga á einni bók
úr öllu biskupsdæminu eða hlutum þess – er ekki að fá fyrr en eftir 1320.
í þessu er margt órannsakað, bæði um skriftarhefðir máldagaritaranna
og stjórnsýslu biskupanna, sem varpað getur frekara ljósi á þessa þróun,
en ótvírætt er að umskipti verða á fyrri hluta fjórtándu aldar. Þau sjást
best á vaxandi fjölda varðveittra máldaga, en frá tólftu og þrettándu öld
eru til tæplega hundrað máldagar samanborið við tæplega tvö hundruð
frá fjórtándu öld sem telja má eldri en elsta varðveitta máldagasafnið, frá
um 1370.3 Aukning stafar ekki af því að fleiri máldagar hafi verið samdir
eftir því sem á leið, a.m.k. ekki fyrst og fremst, heldur að fleiri urðu eftir
í skálholti, enda lunginn af varðveittum máldögum ættaður úr skjalasafni
stólsins en ekki einstökum kirkjum. Hún er því vitnisburður um að
skálholtsbiskupar hafi ekki aðeins farið að safna máldögum í auknum
mæli heldur einnig að þeir hafi varðveitt þá betur, m.a. með því að fella
þá í máldagabækur. Máldagar verða greinilega virk tæki í stjórnsýslu
biskupa á fjórtándu öld. Þeir eru teknir með í yfirreiðir og við þá bætt
upplýsingum um gjafir sem kirkjurnar hafa fengið frá síðustu yfirreið og
portio reikningar gerðir upp. Máldagabækur biskupa urðu þannig betri
og ítarlegri heimildir um eignir, réttindi og skyldur kirknanna en þau
skjöl sem lágu við kirkjurnar sjálfar, enda sjást þess lítil merki eftir miðja
fjórtándu öld að sjálfstæðir máldagar séu skrifaðir á kirkjubækur líkt og
tíðkast hafði á þrettándu öld. skjalasöfn biskupanna urðu því frumheimildir
um kirkjur landsins og í krafti þeirrar þekkingar, sem biskuparnir bjuggu
þannig yfir, jukust völd þeirra og áhrif.
3 Þessar talningar byggja á endurmati mínu á aldri máldaganna og koma því ekki að fullu
heim og saman við ársetningar í íslensku fornbréfasafni, en talning byggð á þeim myndi
engu að síður gefa áþekka niðurstöðu.