Gripla - 20.12.2012, Side 142
GRIPLA140
upp tekin hafa menn snúið sér að öðru, nefnilega skráningu áheitasagna og
ritun lífssögunnar. Á alþingi 1199 lét Páll lesa úr því riti fyrir þingheim.
Helgisagnaritun varðaði snemma æðstu stjórn kirkjunnar, kallaði
eins og hver önnur helgiathöfn á kaþólsk viðmið sem viðurkennd voru í
gjörvallri rómverskri kristni. Aðgerð sem þessi, þótt hún væri framkvæmd
á hjara veraldar, varðaði kirkjuna alla enda dýrlingar alþjóðlegt, raunar
alheimslegt, fyrirbæri og mælikvarðinn á mátt þeirra frammi fyrir Guði
hve langt út fyrir landamæri heimalanda sinna heilagleiki þeirra staðfest-
ist með jarteinum. Að taka Þorlák í dýrlingatölu var þar að auki álita-
mál vegna undangenginna deilna biskupsins sáluga við íslenska höfðingja,
einkum oddaverjann jón Loftsson, sem svo vildi til að var faðir Páls
skálholtsbiskups sem bréf Brands áttu einmitt að sannfæra. Málið var
auk þess hið fyrsta sinnar tegundar á íslandi, eins og heimildir ítreka. Að
flytja það án þess að færa sér í nyt bókmál Rómakirkju, hinn rétta miðil
fyrir slíkan boðskap, hefði beinlínis grafið undan trúverðugleika boðskap-
arins.19
Handritaleifðin bendir til hins sama. elsti varðveitti texti um Þorlák
helga frá því um 1200 er á latínu, ekki norrænu. Þetta er handritsbrotið
AM 386 4to I, sem samanstendur af þremur aðskildum skinnblöðum
og hafa bersýnlega verið rifin úr bókinni og notuð í bókband. Brotið
geymir latneskan sögutexta úr Vita S. Thorlaci ásamt pörtum úr latneskum
jarteinum. Allar latnesku jarteinirnar sem varðveist hafa í þessu og öðrum
brotum segja frá atburðum sem gerðust sumarið 1198. sýnir það svo ekki
verður um villst að frá elstu tíð var latína notuð við helgun Þorláks, á
meðan engar vísbendingar eru um að norrænir helgisögutextar um Þorlák
hafi verið til svo snemma. Ég hef áður sýnt að Þorláks saga á norrænu er
einfaldlega þýðing á latneskum texta Vita S. Thorlaci, og að allar þekktar
gerðir sögunnar, A, B og C (og væntanlega líka brotin D og e), eigi upp-
runa í einni og sömu þýðingu, enda nógu líkar til þess að hægt er að prenta
þær sem einn texta með lesbrigðum.20 Þessi þýðing getur ekki verið eldri en
19 Líf- og jarteinasögur dýrlinga mátti auðvitað þýða síðar á þjóðtungu, bæði jafnóðum við
upplestur latínutextans á messudegi dýrlingsins og skriflega í rituðum lestrarbókum, eins
og dæmin sanna. en það voru þýðingar fyrir ólærða sem að mati klerka og kirkjuyfirvalda
voru aðeins hjálpartæki og gátu aldrei komið í stað hinna sönnu texta.
20 sbr. jón Helgason 1978, 177ff.