Són - 01.01.2008, Qupperneq 66
HELGA KRESS66
Nokkrar stökur, minnisvarðinn
Í bréfi til Theodoru Thoroddsen, dagsettu á Sauðárkróki 11. febrúar
1946, þakkar Ólína Jónasdóttir (1885–1956) henni fyrir bréf og
afsakar að hún skuli ekki hafa skrifað fyrr:
Fegin hefði ég viljað skrifa yður eitthvað sem þér hefðuð ánægju
af, en þar stendur hnífurinn í kúnni, því að ég hef ekkert að
segja nema eitthvað um sjálfa mig, og það er lítill ánægjuauki að
því.71
Það er ljóst að Theodora hefur haft frumkvæði að bréfaskiptunum, ef
til vill í því augnamiði að fá frá Ólínu stökur, en hún var á þessum
tíma orðin landsþekktur hagyrðingur, þótt lítið hefði birst eftir hana
á prenti.72 Eftir að hafa tekið fram að hún hafi ekkert að segja nema
eitthvað um sjálfa sig vitnar Ólína í bréf Theodoru sem þar hefur sagt
að sér væru „stökur kærkomnar“. Sjálf segist hún hafa yndi af þeim,
„og reyndar öllum góðum ljóðum,“ bætir hún við. Hún ætli því að
senda Theodoru nokkrar stökur sem hún hafi sett saman, en „ekki
megið þér nú samt hugsa ég sendi þær af því mér þyki þær svo ágæt-
ar, ónei, ég geri það aðeins til að láta eitthvað á blaðið.“
Kringumstæðurnar eru þær sömu og í vísnaþættinum „Að vestan“
mannsaldri fyrr: Bréfaskipti milli kvenna þar sem önnur biður hina
um stökur og fær þær með alls kyns undanslætti og semingi. „Ein er
þessi,“ skrifar Ólína og sendir stöku um sjálfa sig, minningarnar,
þögnina og skáldskapinn á frumlegu búskaparmyndmáli:73
71 Lbs 5025, 4to. Bréfasafn Theodoru Thoroddsen.
72 Í tilefni af sextugsafmæli Ólínu árið 1945 birti kvennatímaritið Embla í 1. árgangi
sínum grein um hana með vísum sem Broddi Jóhannesson hafði lesið í úvarp. Sjá
„Ólína Jónasdóttir sextug“ 1945:38–42. Má vera að þessi grein hafi vakið athygli
Theodoru á Ólínu og orðið til þess að hún skrifaði henni bréf. Í 2. árgangi Emblu
birtist kvæðið „Lækurinn“ og „Síldin“ í 3. og síðasta árgangi. Sjá Ólína Jónas-
dóttir 1946:53 og 1949:95–96. Mörgum árum áður höfðu birst nokkrar stökur
eftir Ólínu ásamt kynningu á henni í Stuðlamálum 1928:80–82. Í þessu bindi
Stuðlamála eru alls 22 skáld, þar af tvær konur, þær Herdís Andrésdóttir og Ólína
Jónasdóttir.
73 Stakan er sett hérna upp eins og gert er í bréfinu, í tveimur láréttum, löngum
línum, en þannig setur Ólína sjálf upp stökur sínar, alltaf í bréfum og stundum í
öðrum eiginhandarritum.