Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Side 14
12
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Reglugerð fyrir Lærða
skólann 1877
Kennslu í stærðfræði hnignaði eftir daga
Björns Gunnlaugssonar við Lærða skólann.
Árið 1871 var lærðum skólum í Danmörku
skipt í stærðfræði- og náttúrufræðideild og
tungumála- og sögudeild. Reykjavíkurskóli
var of fámennur til að skipta honum í tvær
deildir og skólayfirvöld völdu tungumála-
og sögudeild fyrir Reykjavíkurskóla. Í stað
stærðfræði tvö síðustu árin var kennsla aukin
í dönsku og trúfræðslu. Stærðfræði varð ekki
prófgrein á stúdentsprófi fyrr en árið 1922 og
stærðfræðikennsla í skólanum varð mun minni
en áður. Um þessa ákvörðun sköpuðust miklar
umræður og bréfaskriftir meðal yfirvalda,
kennara og á Alþingi (Kristín Bjarnadóttir,
2004b). Skoðanaskiptin stóðu yfir um sex
ára skeið. Sitt sýndist hverjum um gagnsemi
stærðfræðinámsins. Rökin með ákvörðuninni
voru m.a. þau að einungis einn nemandi á
hverjum tíu árum sæktist eftir verkfræðinámi
og hann yrði að útvega sér einkakennslu. Jón
Þorkelsson, rektor Lærða skólans, sagði í bréfi
árið 1882:
Þetta kvantum [stærðfræði máladeildar]
er að minni ætlan þeim nægilegt, sem eigi
ætla að ganga á polytechniska skólann í
Kaupmannahöfn. Þeir Íslendingar, sem hingað
til hafa á hann gengið, eru mjög fáir, og ef
ályktað er af tölu þeirra, má gera ráð fyrir, að
varla muni meira enn einn Íslendingr ganga á
polytechniska skólann á hverjum tíu árum. Þeir
hinir fáu, sem á hann gengi, yrði að útvega sér
aukakenslu í stærðfræði. Ef sú stundatafla, sem
nú gengr til kenslu í stærðfræði, yrði aukin um
6 stundir (frá 19 stundum til 25) þá hlyti það að
mestu leyti að verða á kostnað málanna; enn eg
fyrir mitt leyti legg mesta áherzlu á kensluna
í þeim; enn því færri stundir sem þeim eru
ætlaðar, því ófullkomnari verðr kenslan í
þeim. Eg get því eigi lagt til, að kenslan í
stærðfræðinni verði aukin frá því sem nú er
(Þjóðskjalasafn. Íslenska stjórnardeildin).
Finnur Jónsson, sem þá var stúdent við
Hafnarháskóla, skrifaði þetta árið 1883:
Stærðafræði er kennd að eins í 4 neðri
bekkjunum; þessi fræði hefir, svo langt sem
jeg man, ekki átt neinum vinsældum að fagna
hjá hávaðanum af piltum, og optlega hafa
þeir spurt að, hvað það ætti að þýða að
kenna svona mikið í stærðafræði, og eru slíkar
spurningar vottur um sorglega kennslu og
sorglegan misskilning. Ef kennarinn getur ekki
einu sinni komið lærisveinum sínum í skilning
um gildi þeirrar fræðigreinar er hann kennir,
þá er eitthvað veilt við kennsluna alla í heild
sinni, enda veit jeg og að það hefir verið; það
sem vestu hefir gegnt, er skortur á skriflegum
æfingum; ... alla dýpri eigna skilning hefir
vantað, öll verkleg notkun hefir verið lokuð
úti, og þess vegna hafa menn verið að spyrja
um, hvers vegna allt þetta skuli lært; það er
eðlileg afleiðing fáfræðinnar (Finnur Jónsson,
1883: 115).
Skilyrði fyrir stærðfræðimenntun við Lærða
skólann virðast hafa verið léleg á níunda áratug
nítjándu aldar. Yfirvöld lands og skóla sáu ekki
þau not sem hafa mætti af stærðfræðinámi
og kennslan, sem til boða stóð, var ekki til
þess fallin að sýna fram á nytsemi hennar,
hvorki til hagnýtingar né menningarauka.
Framundan voru þó mestu framfaratímar í
sögu þjóðarinnar, en kunnátta til stærri verka,
svo sem til brúarsmíði og hafnargerðar, var
engin, enda hafði enginn Íslendingur lokið
námi í verkfræði.
Stærðfræðideild 1919 og
dr. Ólafur Daníelsson
Á næstu árum og áratugum jókst eftirspurn
eftir íslenskum verkfræðingum. Menn höfðu
áttað sig á að það var ódýrara að stuðla að
menntun íslenskra verkfræðinga en að ráða
erlenda. Þeir staðfestust á Íslandi og sættu
sig við lægri laun en erlendir menn (Sveinn
Þórðarson, 2002).
Í uppkasti Guðmundar Finnbogasonar að
reglugerð 1904 fyrir Hinn almenna menntaskóla
í Reykjavík í stað Lærða skólans var gert
ráð fyrir tveimur deildum, stærðfræðideild
og máladeild. Kennarar strikuðu það út í
breytingartillögum sínum (Þjóðskjalasafn,
Skjalasafn stiftsyfirvalda).
Nokkur tímamót í sögu stærðfræðimenntunar