Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 27
25
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Þáttabygging kennslukönnunar við Háskóla Íslands
Aðferð
Gagnasafn
Notuð eru gögn úr kennslukönnun við H.Í.
vorið 2004 úr öllum deildum skólans. Samtals
voru 12282 rafrænir spurningalistar fylltir
út í grunnnámi (nám til BA- eða BS-prófs).
Svörin eru mun fleiri en heildarfjöldi stúdenta
sem svöruðu könnuninni. Þetta stafar af því að
stúdentar gátu svarað könnuninni oftar en einu
sinni eða jafnoft og námskeiðin sem þeir voru
skráðir í voru mörg. Í sumum námskeiðum voru
tveir eða fleiri kennarar metnir og stúdentar
gátu metið tvö eða fleiri námskeið. Í grunnnámi
voru 728 kennarar metnir í kennslukönnuninni
í 614 námskeiðum.
Í grunnnámi var um 61% námskeiða metið
einu sinni, um 24% þeirra tvisvar sinnum
og um 15% þeirra þrisvar sinnum eða oftar.
Flestir kennarar í grunnnámi voru metnir einu
sinni í kennslukönnuninni, eða um 66% þeirra,
um 20% þeirra voru metnir tvisvar sinnum og
um 14% kennara voru metnir í þremur til sex
námskeiðum.
Hreinsað gagnasafn. Til að draga úr
hugsanlegri skekkju vegna endurtekinna
svara stúdenta og endurtekins mats á
einstökum kennurum var ákveðið að miða
tölfræðigreiningu gagnanna í grunnnámi
eingöngu við að hver kennari væri metinn
einu sinni í grunnnámi. Áður en úrvinnsla
gagna hófst var gagnasafnið hreinsað með
eftirfarandi hætti. Í fyrsta lagi voru þau
námskeið fjarlægð úr gagnasafninu þar sem
upplýsingar vantaði um auðkenni kennara. Í
þessum tilvikum var óljóst hvort einn eða fleiri
kennarar voru metnir í tilteknu námskeiði.
Í öðru lagi voru öll námskeið fjarlægð úr
gagnasafninu þar sem færri en fimm stúdentar
mátu kennara. Í þriðja lagi var valið eitt
námskeið af handahófi af tveimur eða fleiri
námskeiðum þegar kennari var metinn í fleiri
en einu námskeiði. Í gagnasafninu í grunnnámi
kom hver kennari því aðeins einu sinni fyrir en
ekki oftar. Þegar gagnasafnið fyrir grunnnám
hafði verið hreinsað með framangreindum
hætti stóðu eftir 9075 rafrænir spurningalistar
í 518 námskeiðum þar sem 518 kennarar
kenndu.
Kennslukönnun við H.Í.
Í gagnasafninu eru 37 breytur. Af þessum
fjölda eru 25 breytur notaðar til að meta
kennslu og námskeið, 10 vísa til sérkenna
námskeiðs og stúdents, og tvær eru skriflegar
athugasemdir stúdenta um námskeið, kennslu
og námsgögn. Í 1. töflu er yfirlit um breytur í
gagnasafninu.
Samtals eru 24 af 25 staðhæfingum
kennslukönnunar við H.Í. metnar á fimm
punkta raðkvarða. Ein staðhæfing er metin á
níu punkta raðkvarða (21. breyta í 1. töflu).
Framkvæmd
Könnunin var opnuð á vef Háskóla Íslands
þegar tæpar þrjár vikur voru eftir af vormisseri
2004. Stúdentar gátu á tæpum þremur vikum
svarað könnuninni um þau námskeið sem þeir
voru skráðir í.
Úrvinnsla gagna
Gagnasafnið var þáttagreint á tvo vegu. Annars
vegar út frá einstökum svörum stúdenta en
hins vegar út frá meðaltali staðhæfinga í
hverju námskeiði. Í fyrra tilvikinu er unnið
með breytileika sem fram kemur milli stúdenta
í mati á kennurum og námskeiðum. Í síðara
tilvikinu (meðaltal staðhæfinga) er dregið
úr þessum breytileika en breytileiki milli
kennara (eða námskeiða) hámarkaður. Þegar
svör stúdenta eru notuð sem grunneining í
þáttagreiningu (í stað meðaltals fyrir hverja
staðhæfingu í námskeiði) er ekki greint á
milli samdreifni (covariation) af tvennum
toga, þ.e.a.s. annars vegar samdreifni
innan námskeiða og hins vegar samdreifni
milli kennara (eða námskeiða). Þar sem
kennslukönnunin við H.Í. er kennaramiðuð er
eðlilegt að miða þáttagreiningar við meðaltal
staðhæfinga. Það er gert í þessari rannsókn.
Þegar gögnin eru þáttagreind með þessum
hætti eru námskeið grunneining úrvinnslunnar
og fjöldi í þáttagreiningunum jafngildir fjölda
námskeiða (N=518).
Til að geta borið niðurstöður þessarar