Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 42
40
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Öll námskeið verða að tengjast ákveðnu
fræðasviði og rannsóknum á því sviði. Stefnt
er að því að nemendur geti hagnýtt sér
niðurstöður rannsókna og fræðilega þekkingu
á viðkomandi sviði til að takast á við starf sitt
á fagmannlegan hátt. Leggja þarf grunn að
aðferðafræði snemma á námsferlinu. (Bls. 6,
leturbreyting mín)
Það fer varla á milli mála að markið er sett hátt.
Kennaraháskóli Íslands boðar rannsóknatengt
starfsnám. Nú skal lögð áhersla á rannsóknir og
fræðilega þekkingu. Kennarar framtíðarinnar
eiga að vera færir um að starfa í ljósi fræða
og rannsókna. Þeir sem eitthvað þekkja til
skólastarfs á Íslandi skynja að hér er boðuð
mikil breyting. Kennarar á Íslandi starfa
almennt ekki í ljósi rannsókna og fræða. Þeir,
líkt og kennarar yfirleitt í heiminum, starfa
frekar í ljósi reynslunnar og í ljósi hefða sem
mótast hafa á vettvangi skólans (Bruner, 1996;
Kennedy, 1999). Skóli er ekki svið þar sem
nýútskrifaður kennari leikur sér með fræðin
sem hann lærði í kennaraskólanum. Skóli
er samfélag þar sem ákveðin lífsform hafa
þróast, þar sem fólk gerir hlutina á ákveðna
vegu og talar um hlutina með ákveðnum
hætti, oft með allt öðrum hætti en tíðkast í
kennaraskólum. Nýútskrifaðir kennarar finna
gjarnan fyrir þessu og finna sig jafnvel knúna
til að gefa upp á bátinn „góðu hugmyndirnar“
úr kennaraskólanum, finna að þær „eiga ekki
við hér“ og vilja heldur ekki vera með einhverja
sérvisku (Putnam og Borko, 2000).
Af ofansögðu má ráða að við, kennarar við
Kennaraháskóla Íslands, eigum ekki auðvelt
verk fyrir höndum. Hvernig förum við að?
Hvernig starfshætti þurfum við að þróa til
að ná þeim markmiðum sem stefnt er að?
Hvernig getum við stuðlað að því að kennarar
framtíðarinnar verði færir um að starfa í ljósi
rannsókna og fræða?
Í framhaldinu mun ég leita svara við þessum
spurningum.
Að feta ekki í fótspor feðranna
Ein af yfirlýstum ástæðum fyrir yfirstandandi
breytingum á kennaranámi er að við búum ekki
lengur í einföldu, kyrrstæðu bændasamfélagi
heldur í flóknu og síbreytilegu þekkingar- og
fjölmenningarsamfélagi þar sem áður óþekktir
möguleikar bíða uppvaxandi kynslóðar en
líka mörg ný vandamál. Áður fetuðu börnin í
fótspor feðranna. Bóndasonurinn varð bóndi,
dóttirin húsmóðir. Allt tiltölulega einfalt.
Nú er allt galopið. Börn bændafólks fara í
framhaldsskóla, þau verða stúdentar og þau
fara í háskóla, verða B.S. eða B.A. eða M.A.
eða M.S. eða jafnvel Ph.D. Allt er mögulegt, allt
er á hreyfingu og það er kannski einmitt þess
vegna sem menntun er svo gríðarlega mikilvæg
í dag. Þetta setur skóla nútímans í alveg nýja
stöðu: að mennta fólk fyrir breytileikann, efla
hæfni þess til að takast á við ný viðfangsefni
og ný vandamál, rata í flóknum heimi.
En það er fleira sem hangir á spýtunni. Það
eru ekki einasta samfélagsaðstæður sem hafa
breyst og skapað skólum ný viðfangsefni að
glíma við. Ný viðhorf til náms og kennslu gera
nú vart við sig. Þessi nýju viðhorf eiga rætur
í umfangsmiklum rannsóknum á því hvernig
börn læra. Til marks um þetta má geta þess að
árið 1999 kom út í Bandaríkjunum á vegum
Bandaríska vísindaráðsins (National Research
Council) hefti sem ber heitið How People Learn
– Bridging Research and Practice. Í heftinu
(Donovan, Bransford og Pellegrino, 1999) eru
dregnar saman helstu niðurstöður rannsókna á
námi og útlistað hvernig þær tengjast starfinu
í skólastofunni. Hefti þetta byggir á annarri
bók sem kom út sama ár og heitir How People
Learn: Brain, Mind, Experience, and School
en sú bók er árangur af tveggja ára starfi
sérstakrar nefndar vísindamanna sem skipuð
var af Bandaríska vísindaráðinu og hafði það
hlutverk að meta hverju rannsóknir á námi hafi
í raun skilað, hver vitneskja okkar sé á þessu
sviði1. Í öðrum kafla þessa rits eru dregnar
fram lykilniðurstöður þessara rannsókna:
Að kenna í ljósi fræða og rannsókna
1 Þessa bók er að finna á netinu, slóðin er http://www.nap.edu/html/howpeople1/index.html.