Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 59
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
57
Að styrkja „haldreipi skólastarfsins“
Menntun grunnskólakennara á Íslandi í 100 ár
Kristín Aðalsteinsdóttir
Háskólanum á Akureyri
Hagnýtt gildi: Grein þessi getur sérstaklega nýst nemendum er stunda kennaranám og kennurum
þeirra því hún veitir innsýn í þróun og stöðu menntunar grunnskólakennara á Íslandi frá upphafi.
Ljóst er af því sem hér er ritað hve baráttan fyrir skilningi á kennarastarfinu hefur verið vandasöm
og þunglamaleg, langt fram eftir síðustu öld. Á þeirri þróun varð að verða breyting og samvinna
fagfólks og ráðamana var nauðsynleg. Úttekt sú sem hér er gerð á samvinnu stjórnvalda,
stjórnenda menntastofnana og fagfólks og tenging við nýlegar menntarannsóknir hefur ekki áður
birst á þann hátt sem hér er gert.
Á árinu 2008 eru 100 ár liðin frá því að kennaramenntun hófst hér á landi. Í þessari grein er rakin
þróun og staða kennaramenntunar á Íslandi og athyglinni beint að þeim menntastofnunum sem
menntað hafa grunnskólakennara sérstaklega, þ. e. Kennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands
og kennaradeild Háskólans á Akureyri. Þótt fræðimenn hafi skrifað sögu alþýðumenntunar hér á
landi hefur saga kennaramenntunar ekki enn verið rituð og lítil umræða hefur verið um efnið. Í
upphafi síðustu aldar og fram eftir öldinni var skilningur ráðamanna á mikilvægi kennarastarfsins
og þörf fyrir menntun kennara lítill. Átök áttu sér tíðum stað á milli stjórnvalda, stjórnenda
menntastofnana og fagfólks um skipulag og markmið kennaramenntunar. Margar hugmyndir og
viðhorf litu dagsins ljós. Í greininni er fjallað um þá glímu og þá þróun sem sagan leiðir í ljós.
Fjallað er um baráttuna fyrir formlegri menntun kennara, átökin við flutning kennaramenntunar
á háskólastig og glímuna við að fá kennaranámið lengt úr þremur árum í fjögur. Greint er
frá heildarmati því er fram fór á kennaramenntuninni á árunum 1997–98, áhrifum þess á
kennaramenntunina og ábendingar skoðaðar í ljósi menntarannsókna. Að lokum er dregin upp
mynd af stöðu kennaramenntunar um þessar mundir.
Menntun er meginstoð lýðræðis, hún er undir-
staða menningar og almennrar velferðar. Í
skýrslu UNESCO um nám á 21. öldinni kemur
fram að menntamál margra landa sæta auknum
þrýstingi og gagnrýni. Menntun verður að
vera árangursrík enda grundvöllur allrar færni
og möguleika fólks á að geta haft áhrif á
umhverfið á komandi tímum. Markmiðið er að
þroska hvern mann og bæta samfélög manna,
læra að lifa í sátt og samlyndi og geta starfað
með öðrum. Þannig þarf menntun að miða að
því að hver og einn verði betri maður (Delors,
1996). Í slíkri framtíðarsýn er ekki rúm fyrir
hefðbundin svör við menntunarkröfum, þ.e. að
menntun snúist fyrst og fremst um magn og
þekkingaröflun. Það nægir ekki að búa hvert
barn snemma á ævinni út með þekkingarforða
sem það getur síðan nærst á það sem það á eftir
ólifað. Hver og einn þarf að eiga kost á námi
allt sitt líf; til að efla þekkingu sína, hæfni og
viðhorf, og enn fremur til að geta aðlagast
flóknum heimi í samskiptum við annað fólk
(Delors, 1996). Delors heldur því fram að
menntun vegi þungt í persónu- og félagsþroska
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007, 57–82