Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Qupperneq 77
75
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
um hæfni kennara í mannlegum samskiptum
og þekkingu til að miðla þeirri hæfni. Þegar
kennsluskrár Kennaraháskóla Íslands og
kennaradeildar Háskólans á Akureyri eru
skoðaðar kemur í ljós að þar er ekki nægilegt
svigrúm til að þjálfa, kenna og ígrunda
markvisst þá hæfni í mannlegum samskiptum
sem alþjóðlegar yfirlýsingar (Delors, 1996) og
Aðalnámskrá grunnskóla (1999) gera ráð fyrir
að væntanlegir kennarar verði færir um að
beita og kenna. Rannsóknir sýna nauðsyn þess
að kennaranemar eigi kost á góðri menntun um
mikilvægi samskipta, ígrundun eigin hugsana
og annarra og að þeir fái stuðning við
mótun eigin sjálfsvitundar, bæði faglega og
persónulega, svo þeir megi eflast og verða færari
um að sinna þessum mannlegu þáttum (Hafþór
Guðjónsson, 2004; Kristín Aðalsteinsdóttir,
2000 og 2002; María Steingrímsdóttir, 2005;
Ragnhildur Bjarnadóttir, 2005).
Rannsóknir Kristínar Aðalsteinsdóttur (2000
og 2002) gefa vísbendingar um að viðmót
kennara og skilningur þeirra á eigin viðmóti
geti haft áhrif á nám nemenda, samskiptin í
skólastofunni, samstarf við aðra kennara og
foreldra. Ætla má af niðurstöðum hennar að
of margir kennarar (35%) hafi ekki nægilegan
skilning á eigin viðmóti og samskiptum sínum
við nemendur. Erfitt getur verið að leita skýringa
á slakri sjálfsvitund kennara eða litlum skilningi
þeirra á mikilvægi samskipta. Ein skýringin
getur legið í því að kennaramenntunin hér á
landi tryggi ekki nægilega markvissa þjálfun
þeirra í mannlegum samskiptum. Hart (2000)
hefur sýnt fram á að stigbundið ferli vísvitandi
íhugunar auðveldi kennurum að átta sig á eigin
hegðun eða viðmóti. Með því að leggja sig
fram og ígrunda eigin hugsun segir Hart að
kennarar geti eflt innsæi sitt og dómgreind.
Staða kennaramenntunar nú um stundir er
árangur margra ára þróunar. Á síðustu árum
virðist framvindan hafa verið kerfisbundin og
samvinna sem áður var ekki fyrir hendi hefur
náðst milli stjórnvalda og kennaramenntunar-
stofnana. Fagna má þeirri samvinnu og
væntanlegri endurskipulagningu kennara-
námsins í landinu, en meginmarkmið þeirra
breytinga sem framundan eru er að efla
starfsmenntunina sem háskólarnir veita,
en jafnframt að bæta aðgang ungs fólks
að framhaldsnámi. Markmið þessi falla að
Bologna-samþykktinni sem miðar að því
að prófgráður við háskóla í Evrópu verði
samræmdar og innleitt verði námsskipulag
sem í meginatriðum byggist á tveimur þrepum,
grunnnámi og framhaldsnámi. Vænlegasta
leiðin til að efla starfsmenntunina er talin
felast í því að nemendum gefist kostur á að
ljúka meistaragráðu (M.Ed.) áður en þeir hefja
störf. Stefnt er að því að grunnnámið taki
áfram þrjú ár en námi til starfsréttinda ljúki
eftir fimm ára nám (Stefna Kennaraháskóla
Íslands, 2005–2010; Háskólinn á Akureyri,
2005). Vegna samræmingar gefur Bologna-
samþykktin einnig möguleika á að fylgst
sé með inntaki náms og kennslu í heild í
háskólum.
Breytingar á skipulagi kennaramenntunar
krefjast fjármagns, þekkingar, samvinnu og
næms skilnings stjórnmálamanna, annarra
ráðamanna og fagfólks á ferli breytinga. Sagan
sýnir svo ekki verður um villst að oft hafa
ráðamenn haft lítinn skilning á mikilvægi
kennaramenntunar. Á allra síðustu áratugum
hefur, fyrir forystu Kennaraháskólans í
samvinnu við Menntamálaráðuneytið, skapast
vettvangur fyrir breytt skipulag og leiðir
opnast til að raungera hugmyndafræði sem
þarf að vera grundvöllur kennarastarfsins.
Kennarastarfið þarf að vera starf sérfræðings
í uppeldi og kennslu. Beina þarf athyglinni
að hæfni kennaranema og kennara í uppeldis-
og kennslufræðum; að þeir skilji námslegar,
félagslegar og tilfinningalegar þarfir og
hæfni nemenda og búi almennt yfir þeirri
dómgreind sem til þarf til að sinna þessu
mikilvæga starfi, – hæfni sem er í samræmi
við niðurstöður rannsókna og yfirlýsingar um
skilyrði menntunar.
Að styrkja haldreipi skólastarfsins