Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Síða 85
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
83
Sýn fimm grunnskólakennara á
nám og kennslu í náttúruvísindum1
Meyvant Þórólfsson, Allyson Macdonald og Eggert Lárusson
Kennaraháskóla Íslands
Hagnýtt gildi: Höfundar telja ástæðu til að hyggja að starfsaðstæðum kennara í kjölfar aukinnar
áherslu á náttúruvísindi í almenna skólakerfinu með tilkomu Aðalnámskrár 1999, samræmds prófs
í náttúrufræði og þátttöku í PISA 2006. Spenna eða streita virðist fylgja þessum breytingum meðal
kennara. Varpað er ljósi á fagmennsku og fagvitund kennara sem standa á mörkum þess að vera
sérfræðingar í uppeldi og menntun annars vegar og hins vegar sérfræðingar í kennslu námsgreina
á borð við náttúruvísindi. Greinin ætti að gagnast rannsakendum, stefnumótunaraðilum,
kennurum og kennaramenntunarstofnunum við að kortleggja áhrif hinnar auknu áherslu á
náttúruvísindamenntun á nám og kennslu í grunnskólum.
Ytri leiðarljós hafa orðið kennurum í náttúruvísindum sýnilegri á síðustu árum en áður var. Þar
ber hæst Aðalnámskrá grunnskóla 1999 og upptöku samræmds lokaprófs árið 2002. Á vettvangi
skólastarfs þurfa kennarar eftir sem áður að uppfylla þarfir breiðs nemendahóps. Árið 2005 var
sýn fimm náttúrufræðikennara rannsökuð með greiningu á viðtölum og vettvangs athugunum.
Tilgangurinn var að kanna hvernig þeir tengdu saman sérfræðiþekkingu sína og fagvitund til
að uppfylla þarfir og margbreytilegar forsendur breiðs nemendahóps, samhliða því að verða við
skuldbindingum sem felast í hinum ytri leiðarljósum. Niðurstöður benda til þess að spenna fylgi
því að reyna að uppfylla bæði þessi skilyrði, þ.e. hin ytri leiðarljós annars vegar og raunverulegar
kröfur í skólastofunni hins vegar. Orðræða viðmælenda beinist töluvert að því síðarnefnda en
skipulag þeirra á námi og kennslu virðist fremur taka mið af því fyrrnefnda. Yfirferð námsefnis
reynist vega þyngra nú en áður, en sveigjanleiki og tími til verklegs náms virðist að sama skapi
minni.
Það þykir í raun sjálfgefið að kennarar hafi
einhver ytri leiðarljós sem stýri því að einhverju
marki hvað þeir kenna hverju sinni, hvernig og
hvers vegna. Meðal grunnskólakennara eru
aðalnámskrár í náttúrufræði og umhverfis-
mennt (1999 og 2007) dæmi um slík ytri
leiðarljós. Kennarar lesa þó hina opinberu
námskrá og túlka með ólíkum gleraugum; sumir
lesa hana vel og fylgja henni samviskusamlega:
„Ég hef hana meira að segja á náttborðinu
hjá mér“ er haft eftir einum kennara. Aðrir
segjast vart muna hvernig námskrárheftin líta
út. Sömu sögu er að segja um námsefnið,
samræmdu prófin og önnur rituð plögg, sem
berast kennurum og nemendum. Slíkir textar
og gögn hafa vissulega áhrif á náms- og
kennsluathafnir, en með mismunandi hætti og
í mismiklum mæli.
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að
kanna hugmyndir kennara í náttúruvísindum
um nám og aðstæður nemenda og hvers kyns
fagmennska það væri sem einkenndi störf
þeirra eftir gildistöku Aðalnámskrár grunn-
skóla 1999, nánar tiltekið hvernig þeir tengdu
1 Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Kennaraháskóla Íslands.
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007, 83–99