Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Qupperneq 125
123
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
eða leiðsögn starfsmanna var háttað í þeim
aðstæðum sem valdar voru til upptöku og
úrvinnslu með verkefnisstjórum. Við greiningu
var byggt á eftirfarandi viðmiðum marte meo
aðferðarinnar um gæði í samskiptum:
• Að nefna nafn barns
• Að fylgja eftir frumkvæði barns
• Að staðfesta orð og athafnir barns
• Að orða eigið frumkvæði
• Að orða tilfinningar
• Að gera upphaf og endi samskipta
greinileg
• Að skapa tengsl á milli barna
• Að bíða eftir frumkvæði barns og virða
einstaklingsmun (Aarts, 2000).
Viðtöl
Tekin voru 23 viðtöl við allt starfsfólk í
deildum leikskólans. Í upphafi voru tekin sex
hópviðtöl við leiðbeinendur, eitt hópviðtal
við leikskólakennara og einstaklingsviðtal
við leikskólastjóra. Árið 2003 (um miðbik
verkefnisins) voru tekin sex hópviðtöl við
starfsfólk af hverri deild. Í lok verkefnisins,
árið 2004, voru aftur tekin sex hópviðtöl við
leiðbeinendur, eitt við leikskólakennara og
tvö einstaklingsviðtöl við leikskólastjóra. Öll
viðtölin voru hljóðrituð og afrituð. Nöfnum
einstaklinga hefur verið breytt eftir á til að
draga úr möguleikunum á því að utanað-
komandi aðilar gætu borið kennsl á þá.
Við greiningu á viðtölunum voru einstök
orð, línur og setningar greindar til að draga
fram þemu og meginþræði (Strauss og Corbin,
1998). Í þemunum heyrast raddir starfsfólksins
en orðræðan birtist í þrástefjum sem eru
endurteknar hugmyndir í umræðum. Þrástefin
falla síðan í mynstur sem liggja að baki þess
sem sagt er og birtast í þemunum (Boden,
1994; Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004;
Lemke, 1992). Niðurstöðurnar eru túlkaðar út
frá röddum þátttakenda og orðræðunni.
Vettvangsnótur
Frásagnir starfsfólks á 30 greiningarfundum
voru skráðar jafnóðum. Auk þess voru skráðar
ýmsar upplýsingar sem rannsakendur fengu
óumbeðið í óformlegum samtölum við
starfsfólk auk upplýsinga um leikskólastarfið
sem höfundar leituðu eftir meðan á verkefninu
stóð.
Spurningalisti
Spurningalisti var notaður til að varpa ljósi á
uppeldissýn starfsfólks. Listinn var fyrst lagður
fyrir í apríl árið 2002 og aftur í lok verkefnisins
2004. Fólk var beðið um að meta mikilvægi
hverrar spurningar í listanum á kvarðanum
1-7. Spurt var um viðhorf starfsfólks til marte
meo uppeldisaðferða í 37 spurningum, t.d. um
mikilvægi þess að skilja tilfinningar barna,
horfa á sterkar hliðar barna, orða athafnir,
tengjast börnum, mæta börnum þar sem þau eru
stödd, leiðbeina börnum, leiðrétta þau og aga,
kenna kurteisi, verða við óskum barna, setja sig
í spor barna, að vera börnum fyrirmynd, stjórna
verkefnum, nýta frumkvæði, vera vakandi fyrir
virkni barna og nota myndbandsupptökur til að
bæta samskipti.
Úrvinnsla á spurningalista
Fyrirmynd spurningalistans voru spurningar
sem Dinsen og Rasmussen (2000) notuðu í
sinni rannsókn. Fyrst var spurningalistinn for-
prófaður á þremur leikskólakennurum og síðan
tveimur. Hann var sleginn inn og greining
unnin í tölfræðiforritinu SPSS. Borin voru
saman meðalgildi á svörum í fyrirlögninni árið
2002 og árið 2004. Til að meta breytingarnar
sem urðu á svörum þátttakenda milli fyrirlagna
var áhrifsstærðarstuðull Cohens reiknaður út.
Venjulega er stuðullinn túlkaður þannig að d
≥ 0,8 eru miklar breytingar, d ≥ 0,5 merkir
nokkrar breytingar en d < 0,2 er litlar sem
engar breytingar (Cohen, 1988).
Niðurstöður og umræður
Hér á eftir verður greint frá niðurstöðum
rannsóknarinnar og þær settar í samhengi við
fræðilega umræðu. Fyrst verður fjallað um
Breytingar á uppeldissýn í leikskóla