Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Side 140
138
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
það búnir að kenna nemendum af erlendum
uppruna. Einnig var spurt um menningarlegan
breytileika innan bekkjar, jöfn tækifæri
nemenda og einstaklingsþarfir þeirra, tungu-
mál, tengsl kennara við fjölskyldu nemenda
og heimanám. Að auki voru gerðar athuganir
í bekk (vettvangsnótur), þar sem aðferðir og
viðhorf kennara, atburðir í bekknum og virkni
nemenda var skoðuð með tilliti til nemenda af
erlendum uppruna.
Þrátt fyrir að löndin þrjú sem rannsóknin
tekur til séu ólík eru þau öll vestræn lönd
á norðurslóðum. Í Kanada hefur lengi ríkt
margbreytileg menning og þar búa margar
þjóðir sem tala fjölbreytileg tungumál. Þar
er Manitoba engin undantekning. Þegar
Evrópubúar flykktust til Kanada á átjándu
öld bjuggu þegar 56 þjóðir frumbyggja í
landinu (Canadian Heritage, 2007) og varð
Kanada fyrst þjóða, árið 1971, til að samþykkja
opinbera stefnu um fjölmenningu, þar sem
forsendan er að allir Kanadamenn tilheyri einu
samfélagi (McLeod, 1981).
Frá því um 1970 hefur norskt samfélag
verið á hraðri leið til fjölmenningar. Þar hafa
stjórnvöld markað skýra stefnu í málefnum
innflytjenda sem felst m.a. í því að tryggja
jafnvægi í hagkerfinu og félagslega þróun
(NOU, 2006).
Á síðustu árum hefur innflytjendum fjölgað
verulega á Íslandi og haustið 2005 var stofnað
innflytjendaráð, sem fjallaði um aðlögun
útlendinga að íslensku samfélagi. Það setti
fram tillögur um aðgerðir og forgangsröðun
framkvæmda. Stefna íslenskra yfirvalda í
málefnum innflytjenda var birt í ársbyrjun
2007 (Stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun
innflytjenda, 2007).
Í löndunum þremur sem rannsóknin tók til
er misjafnlega löng reynsla af opinberri stefnu
um málefni innflytjenda og því áhugavert að
skoða fjölmenningarlega kennslu í þessum
löndum og bera saman eftir því sem kostur er.
Áður en gerð verður grein fyrir rannsókninni
og niðurstöðum hennar verður hér gerð nokkur
grein fyrir fjölmenningarlegri stöðu í hverju
þessara landa fyrir sig, þ.e. stefnu stjórnvalda
í málefnum innflytjenda og hvernig stofnanir
sem mennta kennara búa nema undir fjölmenn-
ingarlega kennslu. Þá verða fræðilegum hug-
myndum um nám án aðgreiningar gerð nokkur
skil, fjallað um hugmyndir um nám og kennslu
í fjölmenningarlegu samhengi og loks um
tengsl foreldra og skóla.
Kanada
Í Kanada búa ríflega 33 milljónir manna.
Innflytjendur í Kanada komu áður fyrr flestir
frá Evrópu en nú koma þeir fæstir þaðan, heldur
hafa þeir á síðustu áratugum flust víða annars
staðar að úr heiminum. Fyrsta þriðjung ársins
2005 fékk 75.951 innflytjandi ríkisborgararétt
í Kanada, sem er 16% fjölgun frá sama tíma
árið áður. Flestir þessara innflytjenda komu
frá Kína (11.161), frá Indlandi komu 9.142,
þar á eftir fylgja Filippseyingar (5.353), og
loks Pakistanar (4.188) (Citizenship and
Immigration Canada, 2006).
Árið 1971 var fjölmenning kanadísku
þjóðarinnar fyrst viðurkennd í reynd þegar
Trudeau forsætisráðherra gerði kunna þá stefnu
stjórnar sinnar að aðskilnaði þjóðarbrota væri
afdráttarlaust hafnað. Þótt íbúar Kanada væru
skyldugir til að búa við tvö opinber tungumál
(ensku og frönsku) var það sjónarmið stjórnar
Trudeau að ekki skyldi ríkja ein ákveðin
menning í landinu. Kanada ætti að verða tví-
tyngt fjölmenningarríki og öll þjóðarbrot skyldu
eiga kost á að leita stuðnings stjórnarinnar vegna
menningar sinnar og málefna (McRoberts,
2000).
Þá hefur það löngum verið viðurkennt
sjónarmið stjórnmálamanna í Kanada að
fjölmenning sé dýrmæt og hún auðgi líf
þjóðarinnar (Mallea, 1990). Jonathan Young
(2006a) segir að viðurkenna þurfi enn betur
aðstæður ýmissa þjóðarbrota, sérstaklega þeirra
sem augljóslega tilheyra minnihlutahópum,
þ.e. þeirra sem ekki eru „hvítir“. Hann heldur
því fram að staða frumbyggja sé erfið og
sérstaða þeirra ekki enn viðurkennd. Þeir búi
við samkomulag eða málamiðlun sem ríkjandi
meirihluti gnæfi yfir og hugsjónin um hina
fullkomnu fjölmenningu hafi því ekki ræst.
Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi