Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Side 146
144
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Niðurstöður
Undirbúningur kennara
Enginn kennaranna átján í löndunum þremur
sagðist hafa fengið kennslu um fjölmenningu
eða fjölmenningarlega kennslu í kennaranámi
sínu en margir þeirra töldu sig hafa öðlast
þekkingu um málið, vegna uppruna síns, af
eigin reynslu, með annarri menntun og á
námskeiðum.
Í Manitoba höfðu tveir kennarar af sex sótt
námskeið um frumbyggja og fjölmenningu,
annars voru kanadísku kennararnir sammála
um að þeir hefðu lært mest af því að vinna
og búa í fjölmenningarlegu umhverfi. Tveir
þessara kennara voru innflytjendur og einn
var úr frumbyggjafjölskyldu. Þeir töldu allir
þrír að reynsla sín og upplifun af því að vera
í minnihlutahópi gerði þá færari um að skilja
og koma til móts við þarfir barna af hvaða
þjóðerni sem væri.
Í Noregi höfðu tveir kennaranna menntun
í sérkennslufræðum sem þeir töldu nýtast vel
við fjölmenningarlega kennslu og hafði annar
þeirra sótt námskeið um uppeldisfræði fyrir
innflytjendur. Á Íslandi höfðu tveir kennaranna
sótt námskeið sem þeir töldu að hefðu gagnast
við fjölmenningarlega kennslu. Bæði norsku
og íslensku kennararnir töldu að lífsreynsla og
reynsla af því að vinna með ólíkum börnum
hefði gagnast sér best við að koma til móts við
þarfir allra nemenda, en þeir voru sammála
um að nauðsynlegt hefði verið að fjalla um
fjölmenningu í grunnámi þeirra.
Margbreytileg menning
Í svörum kanadísku kennaranna kom fram
augljós ábyrgðartilfinning. Þeim bar yfirleitt
saman og sögðu að í Kanada mynduðu ólíkir
menningarheimar sérstaka heild. Ljóst var af
svörum þeirra að þeim þótti fjölbreytileiki
mannlífsins það mikill að það væri nánast
ekki sérstakt lengur að vera af erlendum
uppruna. Þeir greindu samt sem áður skil á
milli nemenda sem fæddir væru í Kanada og
þeirra sem nýlega hefðu flutt til landsins. Þeir
fyrrnefndu lifðu auðveldara lífi, tungumálið
væri þeim síður fjötur um fót og þeir hefðu
meira fé á milli handanna. Þeim bar saman
um að börn af erlendum uppruna hefðu
mikla aðlögunarhæfileika, væru metnaðarfull
og dugleg þrátt fyrir tungumálaerfiðleika í
upphafi. Það sem helst væri ólíkt og fram
kæmi í skólanum tengdist þjóðlegum venjum,
mat, hátíðum og klæðnaði.
Þessum kennurum bar saman um að
nauðsynlegt væri að stuðla að því að hvert og eitt
barn gæti verið stolt af uppruna sínum. Þeir töldu
að kennarar þyrftu að þekkja ólíka menningu
og skólinn þyrfti að gera ráðstafanir til að mæta
þörfum allra barna. Námskráin þyrfti að höfða
til allra og sérstaka áherslu þyrfti að leggja á
tungumálanám nemenda sem ekki hefðu náð
tökum á opinberu tungumálununum. „Börn af
ólíku þjóðerni bera sömu tilfinningar og önnur
börn og þurfa öll siðferðilegt uppeldi,“ sagði
einn kennaranna. Því þyrfti bekkjarbragurinn
að einkennast af viðurkenningu, virðingu og
hjálpsemi. Kennararnir voru sammála um að
tekið væri á siðfræðinni með ýmsu móti og
með margs konar námsefni og var það staðfest
í vettvangsathugunum.
Viðtölin við norsku kennarana sýndu ólík
viðbrögð við spurningum um margbreytilega
menningu innan skóla og fram komu
vísbendingar um að kennarar fríi sig ábyrgð
gagnvart börnum af erlendum uppruna. Nokkuð
bar á mótsögnum í svörum kennaranna en
einnig á milli kennara. Á meðan einn kennari
sagði að hann liti á það sem sjálfsagðan hlut
að nemendur kæmu frá öðrum löndum sagðist
annar ekki sjá gildi þess að fólk af ólíkum
uppruna byggi saman. Þessi síðarnefndi
kennari virtist áhugalaus um að mæta þörfum
nemenda af erlendum uppruna og sagði það
skyldu annarra innan skólans. Hann bætti
því við að þessir nemendur ættu að aðlagast
norskri menningu.
Fjórir kennarar töluðu um að skil væru á milli
„þessa fólks“ og Norðmanna. Þá var miðað við
efnahagslega stöðu, en kennararnir töluðu allir
um að fólk af erlendum uppruna byggi við verri
efnahag en Norðmenn. Kennari sem taldi börn
af erlendum uppruna hafa jákvæð áhrif á aðra
Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi