Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Page 148
146
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
barnalegt og spyrði óviðeigandi spurninga.
Kennarinn taldi nemandann skorta eðlilega
sjálfsstjórn til að „loka munninum“.
Greinilegur munur var á viðhorfum
kennaranna í löndunum þremur. Kennararnir
í Manitoba virtust bæði í viðtölunum og í
vettvangsathugunum meðvitaðir um stöðu
nemenda og vinna markvisst að því að jafna
hana sem best. Ekki er með því ætlast til
að allir séu eins eða lagi sig að tiltekinni
menningu heldur að allir geti gefið og þegið,
verið stoltir af sér og uppruna sínum og lagt
þannig sitt til nýrrar kanadískrar menningar.
Í Noregi og á Íslandi bar annars vegar á að
lagt væri kapp á að laga börnin að háttum
skólastarfs og samfélags og hins vegar virtist
sem aðgerðaleysi ríkti varðandi stöðu þeirra.
Einstaklingsþarfir nemenda
Í Manitoba útbjuggu kennararnir yfirleitt ekki
einstaklingsnámskrá vegna tungumálaerfið-
leika barnanna. Hins vegar fá nemendur
stuðning sem fer yfirleitt fram inni í bekk.
Kennararnir töldu að vegna tungumálsins og
erfiðleika við að læra það hefðu nemendur
af erlendum uppruna öðruvísi þarfir en aðrir
nemendur í bekknum. Þeir þyrftu t.d. aðstoð
við að læra um ríkjandi venjur og siði og
best væri að aðstoða nemendur með ýmiss
konar samvinnuverkefnum og fjölbreyttu vali.
Fram kom að nemendur með takmarkaða
enskukunnáttu fengju einstaka sinnum sérstaka
tungumálakennslu í upphafi skólagöngu og
færu þá stundum út úr bekk í sérkennslu en
það væru mótsagnakennd skilaboð í skóla án
aðgreiningar þar sem áhersla er á samkennd og
virðingu fyrir einstaklingsmun.
Mikil áhersla er lögð á að nemendur af
erlendum uppruna í Noregi læri norsku.
Kennslan fer oftast fram innan bekkjarins
en stundum eru nemendur teknir úr bekk
í sérkennslu. Skiptar skoðanir voru meðal
kennaranna á því hvort væri betra fyrir
nemandann. Tveir kennaranna sögðu að gerð
væri einstaklingsnámskrá fyrir nemendurna og
þeir sögðust gera minni námslegar kröfur til
barna af erlendum uppruna til að byrja með og
aðlaga viðfangsefni og kröfur. Það sýndi sig
í vettvangsathugunum að nemendur unnu oft
saman í hópum þó ekki væru þeim beinlínis
kennd vinnubrögð samvinnunáms. Einn
kennaranna taldi betra fyrir nemanda sinn að
vinna einn meðan hann hefði ekki náð tökum
á málinu en í ljós kom að nemandinn dró sig í
hlé félagslega. Allir norsku kennararnir sögðu
að sjálfsmynd nemenda af erlendum uppruna
væri léleg, þeim fyndist þeir ekkert geta og
væru hræddir um að gera vitleysu. Ekkert kom
fram sem benti til að markvisst væri tekið á
þessum vanda.
Íslensku kennararnir sögðust yfirleitt ekki
gera einstaklingsnámskrá fyrir nemendur
af erlendum uppruna en þegar þeir væru í
sérstakri málþjálfun hjá sérkennara væru þeir
með séráætlun þar. Kennararnir virtust ekki
þekkja vel til þeirra áætlana. Einn kennari
gerði einstaklingsnámskrá í samvinnu við
annan kennara með áherslu á tungumálið.
Flestir kennaranna sögðust oft aðlaga verkefni
jafnóðum og gera minni kröfur til þessara
nemenda. Einn kennari hafði ekki upplýsingar
um gengi nemanda síns í öðrum greinum en
þeim sem hann kenndi sjálfur og hafði ekki
upplýsingar frá foreldrum þó vandræði væru
með heimanámið. Kennarar virtust oft ekki
átta sig á því að þessir nemendur hefðu aðrar
þarfir en hinn almenni nemandi. Einn kennari
sagði að það væri hans skoðun að það væri
gott fyrir börn af erlendum uppruna að taka
þátt í samvinnunámi, það væri leið til tjáningar
og þannig lærðist tungumálið. Þessir kennarar
kváðust flestir nota fjölbreyttar kennsluaðferðir
og hópvinnu en oft væri vandasamt að velja í
hópa. Ekki kom fram af hverju svo væri. Fram
kom sú skoðun hjá aðeins einum kennara að
hann teldi að gott væri fyrir nemandann að vera
í mikilli samvinnu og samskiptum, tengjast
öðrum og læra málið. Vettvangsathuganirnar í
Noregi og á Íslandi sýndu að það sem í fljótu
bragði leit út fyrir að vera samvinnunám (því
nemendur sátu saman í hópum) var í raun
einstaklingsvinna og hver og einn vann út af
fyrir sig.
Tungumál
Í skólunum sem heimsóttir voru í Manitoba
Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi