Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Qupperneq 153
151
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
eru forsendur til að byggja tungumálanámið
á veikar. Áberandi óvissa einkenndi svör
íslensku kennaranna um það hvernig færni
nemenda í tungumálinu væri metin eða til
hvaða úrræða hægt væri að grípa. Athyglisvert
er að íslensku kennararnir virðast ekki skynja
ábyrgð sína á málakunnáttu barnanna og
ákveðið tengslaleysi er á milli bekkjarkennara
og annarra kennara. Námið, námsreynslan
og þekking sem af skapast tengist orðum og
orðaforða sterkum böndum og því er mikilvægt
að vinna markvisst og af ábyrgð að eflingu
tungumálsins. Þekking er að mestu bundin
orðum svo markviss efling orðaforða er lykill
að námi (Marzano, 2004).
Mikill munur virtist á sýn kennaranna í
löndunum þremur á mikilvægi samskipta
við foreldra. Í Manitoba (Kanada) virtust
samskiptin áreynslulaus en óformleg, án
samskipta við foreldra gengi skólastarfið
ekki. Kennararnir töldu vinnu með foreldrum
grundvöll þess að barni liði vel í skóla. Í Noregi
er formlegt samstarf við foreldra til staðar,
tæki eins og samskiptabók og fastir fundir eru
hluti af skólastarfinu. Hins vegar virtist sem
norsku kennararnir héldu ákveðinni fjarlægð
frá foreldrum og þeir báru því m.a. við að
þeir næðu „hvort sem er ekki sambandi vegna
tungumálaerfiðleika“. Í íslensku skólunum kom
fram greinilegt ábyrgðarleysi í samskiptum við
foreldra. Fjórir kennaranna sögðust aldrei hafa
samband við foreldra umræddra barna og þrír
þeirra höfðu engin svör um slíkt samstarf.
Þeir vissu ekki hvort foreldrar hefðu áhyggjur,
hvernig foreldrar héldu að börnunum liði í
skólanum eða hvaða væntingar þeir hefðu til
skólans. Þetta er í mótsögn við það sem
fræðimenn hafa fundið út og segja eina af
forsendum fjölmenningarlegrar kennslu. Þeir
segja að kennurum beri að hafa frumkvæði
að tengslum skóla og heimilis (Davidman og
Davidman, 2001). Epstein (1995) hefur sýnt
fram á að gott samstarf heimilis og skóla leiði
til betri tengsla þar á milli, veiti heimilunum
stuðning og styðji auk þess við starf kennarans.
Skólinn er hluti samfélagsins og tenging skóla
við heimilin getur opnað foreldrunum vissan
aðgang að samfélaginu. Tengingin getur að
minnsta kosti aukið gagnkvæman skilning
kennara og foreldra.
Fram kom í viðtölunum í Manitoba (Kanada)
og í Noregi að kennararnir telja mæður
barnanna einangraðar á heimilunum, þær ráði
ekki við tungumálið og hafi ekki fengið störf
við hæfi. Þetta sjónarmið kom fram í öðrum
rýnihópnum sem rætt var við hér á landi. Þrjár
mæðranna fjögurra virtust hafa áhyggjur af
þessum þætti. Þá töluðu þær allar um að þær
ættu í erfiðleikum með að aðstoða börn sín við
heimanám, einnig þær tvær sem áttu að baki
háskólanám. Þessi skoðun kom ekki fram í
rýnihópi með kennurum. Epstein og Janshorn
(2004) segja rannsóknir sýna að foreldrar vilji
taka þátt í námi barna sinna en kunni það
ekki. Því sé það hlutverk kennarans að skýra
markmið heimanáms, ræða við foreldra um
hlutverk þeirra og aðstoða þá við að rækja
það.
Reynsla kennaranna í löndunum þremur
af heimanámi var svipuð. Heimanámið
strandar gjarnan á eftirfylgni heima fyrir og
því erfitt að koma á skipulögðu heimanámi.
Þetta virðist leyst að nokkru leyti með því að
færa heimanámið í skólann, t.d. í skólavistun
eða með aukatímum, jafnvel með aðstoð frá
skólanum inn á heimili. Í samanburði skera
íslensku kennararnir sig úr að því leyti að þeir
virðast ekki eins meðvitaðir og kennararnir
í hinum löndunum um aðstæður heima fyrir.
Íslensku kennararnir hafa ekki ræktað tengsl
við heimilin og þar skortir á gagnvirk samskipti
milli heimilis og kennara.
Segja má að rannsóknin gefi til kynna
að enn skorti á að faglegur undirbúningur
þátttakenda í rannsókninni til að sinna
fjölmenningarlegri kennslu sé nægilegur,
því enginn þeirra sagðist hafa hlotið
fjölmenningarlega menntun í grunnnámi
sínu. Hins vegar felst grundvallarmunurinn á
undirbúningi kennaranna í löndunum þremur
í því að kanadísku kennararnir hafa búið
í rótgrónu fjölmenningarsamfélagi þar sem
réttindi og þarfir innflytjenda voru lögleidd
fyrr en í Noregi og á Íslandi. Slík lög telur
Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi