Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 4

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Fréttir Segja þarf upp að minnsta kosti fimmtán starfsmönnum Landbúnaðarháskóla Íslands verði ekki af sameiningu hans við Háskóla Íslands. Þetta kom fram í máli Ágústs Sigurðssonar rektors skólans á starfsmannafundi á mánudaginn. „Þetta er alveg rétt. Við fengum bréf þess efnis frá okkar ráðuneyti um að við ættum að draga saman seglin. Við erum búin að gera áætlanir þar um, vorum í því alla síðustu viku. Þetta snertir alla okkar starfsemi þó við séum ekki búin að fara nákvæmlega yfir hvar þetta hittir fyrir. Við erum búin að senda þessa áætlun inn til ráðuneytisins en eigum eftir að fá staðfestingu á því hvort hún verði samþykkt eða ekki,“ segir Ágúst. Lengi hefur verið talað um að skólinn þyrfti að fá leyfi til að selja eignir til að bæta fjárhagsstöðuna. Að sögn Ágústs er ekki um slíkt að ræða í fjárhagsáætluninni sem send hefur verið menntamálaráðherra nú. „Þær óskir liggja fyrir og hafa legið fyrir síðustu tíu árin. Hluti af þeim hugmyndum sem lágu fyrir varðandi sameiningu skólans við Háskóla Íslands gengu út á að losa þessar eignir til að hægt yrði að fjárfesta í skólastarfinu. Það verður hins vegar ekki gert nú.“ Sameining myndi þýða mikil tækifæri Ágúst segist eindregið þeirrar skoðunar að það myndi styrkja Landbúnaðarháskólann í rekstrarlegu og faglegu tilliti að sameina hann Háskóla Íslands. „Algjörlega, ég er vita sannfærður um það. Sérstaklega á það við um faglegu hliðina og ég tala nú ekki um ef ríkisvaldið er tilbúið til, líkt og er staðreynd, að koma með aukna fjármuni inn í starfsemi skólans. Það myndi þýða heilmikil tækifæri fyrir okkur.“ Alþekkt í löndunum í kringum okkur Ágúst bendir á að það sé ekki óþekkt að skólar sameinist þó langt sé á milli þeirra. „Það má benda á Íþróttafræðasetur Háskólans á Laugarvatni. Það ber öllum saman um að þar hafi starfsemin eflst. Alls staðar í löndunum í kringum okkur hefur þetta verið að gerast. Landbúnaðarskólar hafa orðið hluti af stærri heild. Fyrir nokkrum árum var til Konunglegi danski dýralækna og landbúnaðarháskólinn. Nú er hann hluti af Kaupmannahafnarháskóla og fleiri dæmi mætti taka. Þetta er bara að gerast víða og með því er verið að efla og styrkja skólana en ekki láta hlutina koðna niður. Danir eru nú kannski einir mestu landbúnaðarmenn okkar heimshluta. Þeir gera þetta svona og við sjáum ekki annað en þetta gangi mjög vel og hafi eflt nám og rannsóknir. Hví ætti það ekki að verða svo hér á landi líka?“ Skilur afstöðu menntamálaráðherra Gagnrýnt hefur verið að ríkisvaldið hafi verið tilbúið til að auka við fjármuni til rekstrar skólans ef af sameiningu yrði en nú. Þegar búið sé að slá slíka sameiningu út af borðinu sé skólanum gert að draga verulega saman í rekstri til að greiða uppsafnaðan halla á rekstrinum. Ágúst segir að það komi sér ekki á óvart. „Hjarta mitt slær með þessari starfsemi og séu menn tilbúnir til að koma með starfsemi inn í hana þá set ég engin skilyrði fyrir því sem rektor. Hins vegar skil ég alveg hvað ríkisvaldið er að gera hér, okkar ráðuneyti. Þar á bæ segja menn: Við erum tilbúin að fjárfesta í þeirri leið að Landbúnaðarháskóli Íslands og hans fræðasvið verði hluti af stærri heild. Við erum hins vegar ekki tilbúin í að fjárfesta í óbreyttu ástandi. Það finnst mér bara mjög skiljanleg afstaða.“ Fækkað um 40 manns á níu árum Ágúst segir að niðurskurðurinn muni gera skólanum mun erfiðara um vik við að sinna hlutverki sínu. „Það er bara þannig. Ég hef mjög mikla trú á þessari starfsemi, hún er afar mikilvæg og starfsfólk skólans hefur staðið sig afar vel alla tíð. Skólinn býr að því að eiga mikinn fjársjóð í sínu starfsfólki. Þetta verður hins vegar enn erfiðara eftir því sem okkur fækkar sem störfum við skólann. Mannauðurinn skiptir öllu máli. Þegar Landbúnaðarháskólinn varð til [árið 2005] tóku um 130 manns til starfa við hann, sem komu frá stofnunum sem áður voru forverar hans. Nú starfa innan við 90 manns við skólann. Á sama tíma höfum við aukið við starfsemi skólans mjög mikið. Ég vil líka segja það að ef við hefðum þá fjármuni í dag sem voru við hendina í upphafi, og þóttu ekki nægir þá, hefðum við skilað rekstrarafgangi upp undir hundrað milljónir á síðasta ári. Okkur hefur tekist að hagræða gríðarlega á sama tíma og við höfum aukið við starfsemi skólans. Það eru takmörk fyrir því hins vegar hversu langt er hægt að ganga. Við erum undir það seld að þurfa að standast ákveðnar alþjóðlegar gæðakröfur, við höfum farið í gegnum eina slíka úttekt og komum faglega mjög sterk út úr henni, en eftir því sem fólki fækkar, þess erfiðara verður það.“ Starfsfólki ekki haldið í myrkrinu Eftir fundinn í gær sendi kennari í skólanum harðort bréf á alla starfsmenn þar sem lýst er mikill óánægju með málatilbúnað rektors og menntamálaráðherra. Í bréfinu segir að ljóst sé að rektor og yfirstjórn skólans hafi unnið að því ötullega undanfarið ár með menntamálaráðuneyti að Landbúnaðarháskólinn skyldi sameinaður HÍ án þess að starfsfólk skólans hafi verið upplýst um það. Ágúst segir að hann hafi ekki séð umrætt bréf en hann hafni þessum ávirðingum. „Það er eðlilegt að ekki séu allir sammála um málið enda myndu felast miklar breytingar í sameiningu. Hins vegar neita ég því að þetta hafi farið leynt á nokkurn hátt. Allan þann tíma sem ég hef verið rektor hef ég reynt að koma hreinskilnislega fram við starfsfólk og segja þeim frá hvað er í gangi. Manni tekst samt líkleg aldrei að gera nóg af því að upplýsa. Það er hins vegar bara ekki rétt að starfsfólki hafi á einhvern hátt verið haldið í myrkrinu. Við höfum auðvitað verið að bíða eftir því að stjórnvöld taki ákvörðun um framtíð skólans. Nú þegar sú ákvörðun virðist liggja fyrir þá er auðvitað margt eftir í því að marka stefnu til framtíðar í starfsemi skólans. Þar þurfa auðvitað starfsmenn, nemendur og fleiri að koma að málinu. Við höfum verið í lausu lofti til þessa.“ Hyggst ekki stökkva frá vandanum Ágúst segist ekki upplifa að upp sé kominn trúnaðarbrestur milli sín og starfsmanna skólans. Hann segist hafa hugsað sinn gang hvað sína stöðu varðar en ætli sér ekki að hverfa frá starfi á ólgutímum. „Jú, ég hef að sjálfsögðu hugsað um það. Það hefur hins vegar aldrei hvarflað að mér að stökkva frá vandanum. Það þarf að koma þessum málum í höfn, þannig að ljóst sé hvaða ákvörðun hafi verið tekin. Síðan líður minn tími bara, ég er ráðinn til fimm ára í senn, og minn skipunartími rennur út núna í sumar. Þá mun ég bara taka ákvörðun um hvert framhaldið kann að verða.“ /fr Breytingar boðaðar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands: Fimmtán verður sagt upp Hilmir Snær og hljómsveitirnar Brother Grass og Hundur í óskilum munu leiða saman hesta sína í Hörpu síðdegis í kvöld, fimmtudaginn 3. apríl. Boðið verður upp á nýstárlegt, tónrænt uppistand í Norðurljósasal Hörpu. Íslenski hesturinn verður skoðaður frá öllum hliðum og rifjuð upp rysjótt sambúð hans við ótamin náttúruöfl og brokkgenga þjóð. Hilmir Snær segir sögur af hestum og brestur í söng og hljómsveitin Brother Grass leikur þekkt og óþekkt íslensk hestalög með nokkrum öðrum hætti en fólk á að venjast. Þá mun hljómsveitin Hundur í óskilum leika lausum hala um sviðið og aðstoða bæði Hilmi Snæ og Brother Grass við flutninginn. Eru hestamenn og aðrir hvattir til að koma og upplifa íslenska hestinn á þessum einstaka viðburði í gegnum sögur, ljóð og söng. Miðasala á midi.is. Heimboð í hesthús á föstudag Föstudaginn 4. apríl ætla hestamannafélögin Fákur, Hörður, Sóti, Sprettur og Sörli að bjóða gestum og gangandi í félögin sín. Valin hesthús verða opin fyrir áhugasama og hestateymingar verða í boði í reiðhöllum félaganna ásamt léttum veitingum. Öll hestamannafélögin verða með sömu dagskrá á sama tíma. Klukkan 17-19 verða opin ákveðin hesthús sem merkt verða með blöðrum. Verður teymt undir börnum í reiðhöllum félaganna. Klukkan 18.00 munu börn og unglingar sýna atriði og kaffi, svali og kjötsúpa verður í boði hjá hverju félagi. Skrúðreið 5. apríl Kl. 13.00 – Skrúðreið um 150 hesta verður farin frá BSÍ klukkan 13.00 á laugardag. Riðið verður upp á Skólavörðuholt, niður Skólavörðustíg, yfir Lækjargötu, Austurstræti, Pósthússtræti, Kirkjustræti og Tjarnargötu og að Ráðhúsi. Þá verður farið áfram Tjarnargötu, í gegnum Hljómskálagarð, yfir Njarðargötu og aftur að BSÍ. Kl. 20.00 – Ístölt þeirra allra sterkustu verður svo í Skautahöllinni í Laugardal klukkan 20.00 þar sem boðið verður upp á töltandi gæðinga á ís. Sunnudagur 6. apríl Æskan & hesturinn verður í reiðhöllinni í Víðidal á sunnudag klukkan 13.00 og 16.00. Landssamband hestamannafélaga: Hestadagar 2014 Ársfundur Lífeyrissjóðs bænda: Hrein raunávöxtun árið 2013 var 5,6% Ársfundur Lífeyrissjóðs bænda (LSB) var haldinn 21. mars. Þar kom fram að hrein eign til greiðslu lífeyris nam 27,3 milljörðum króna í árslok 2013, hækkaði um 1,8 milljarða króna milli ára eða 7,0%. Hrein eign til greiðslu lífeyris hefur vaxið frá bankahrunsárinu 2008, ekki aðeins miðað við verðlag hvers árs heldur hefur orðið nokkur aukning umfram hækkun verðlags. Ávöxtun á árinu 2013 var 9,6%, sem samsvarar 5,7% raunávöxtun. Hrein raunávöxtun nam 5,6% á árinu 2013, á móti 5,5% árið 2012. Ávöxtun síðustu fjögurra ára er 4,5% að meðaltali, sem er talsvert umfram það viðmið sem stuðst er við í tryggingafræðilegri athugun lífeyrissjóðanna. Afkoma ársins 2013 var með ágætum þegar horft er til takmarkaðra fjárfestingarmöguleika með tilkomu gjaldeyrishaftanna. Eignasafn sjóðsins er traust og væntingar eru um stöðuga og góða ávöxtun á næstu árum. Aukin áhersla á greiningu á fjárhagslegri stöðu við fjárfestingar, greiðslugetu og gæðamat á skuldara fremur en að horfa eingöngu til ávöxtunar, mun styrkja sjóðinn enn frekar og afkomu hans þegar til framtíðar er litið. Lífeyrisréttindi sjóðsins eru verðtryggð og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Heildariðgjaldatekjur námu 575 m.kr., sem er 13,0% hækkun frá fyrra ári. Iðgjöld sjóðfélaga námu 195 m.kr., mótframlög 379 m.kr. og réttindaflutningar og endurgreiðslur nettó var 1,1 m.kr. Greiðandi virkir sjóðfélagar voru 2.592 á árinu 2013 samanborið við 2.657 á árinu 2012. Iðgjöld sjóðfélaga eru 4% af launum. Hjá bændum miðast iðgjöld við reiknað endurgjald í landbúnaði eða greidd laun þar sem búrekstrarformi er þannig háttað, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 12/1999. Starfsmenn LSB í árslok 2013 voru þrír auk framkvæmdastjórans, Ólafs K. Ólafs, og er Skúli Bjarnason þar stjórnarformaður. Hilmir Snær. Ágúst Sigurðsson rektor Sauðfjárbændur fjölmenna til Reykjavíkur föstudaginn 4. apríl til þess að halda aðalfund og árshátíð Landssamtaka sauðfjárbænda. Að því tilefni bjóða þeir gestum og gangandi til mannfagnaðar á KEX Hostel á Skúlagötu 28 milli klukkan 16.00 og 18.00. Þar munu þaulvanir rúningsmenn kynna verklagni sína og keppa um Gullklippurnar. Verðlaunin eru veitt þeim sem rýir með hvað mestum glæsibrag Meðal gesta verður sauðfé frá Hraðastöðum í Mosfellsdal en því verður ekið í þar til gerðum sauðfjárvagni til og frá rúningsstað og mun dýralæknir sjá um að velferð þess sé í hávegum höfð. Við sama tilefni verður eigendum fremstu hrúta landsins veittar viðurkenningar fyrir besta lambaföðurinn og mesta kynbótahrútinn. Rúið verður í portinu á KEX og mun rúningsfólk hefjast handa kl. 16.00. Sætaferðir verða frá Hótel Sögu fyrir sauðfjárbændur kl. 15.45. Viðburðurinn er samvinnuverkefni KEX Hostel, Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændablaðsins. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda fer fram á Hótel Sögu dagana 3.-4. apríl en árshátíð félagsins verður að kvöldi föstudags. Þriðja árið í röð er uppselt á hátíðina þar sem 350 sauðfjárbændur gera sér glaðan dag í Súlnasal. Sauðfé og bændur í borginni

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.