Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen þjóðfræðingur og garðyrkjufræðingur Allar plöntur þurfa næringu og án hennar myndu þær hætta að vaxa og að lokum deyja úr næringarskorti. Plöntur fá næringu úr andrúmsloftinu gegnum blöðin og úr jarðvegi í gegnum ræturnar. Næringarefnin sem eru plöntum nauðsynleg eru átján eða tuttugu eftir því hvort efni úr lofti eru talin með eða ekki. Þörfin fyrir næringarefni er breytileg eftir tegundum, en skorti eitthvert þeirra dregur úr vexti og hörguleinkenni koma fram. Næringarefnin stuðla þannig að heilbrigði plantnanna og gera þær um leið fallegri. Til að gróðurinn vaxi og dafni er gott að gefa honum áburð á hverju vori, snemma í maí, og tvisvar að auki yfir vaxtartímann, um mánaðamótin júní og júlí og minni skammt í kringum verslunarmannahelgina. Í tilbúnum áburði er að finna sum þeirra næringarefna sem plöntur þurfa á að halda. Hlutfall efnanna er mismunandi eftir vöruheitinu á umbúðunum. Alhliða garðáburður hentar flestum plöntum en einnig er gott að gefa lífrænan áburð með reglulega til að koma í veg fyrir skort á snefilefnum. Tilbúinn áburð skal bera á í þurru veðri því annars getur hann brennt plönturnar. Hæfilegt magn yfir sumarið er sex til tíu kíló á hverja hundrað fermetra. Megináburðarefni Áburðarefni skiptast í tvo meginflokka eftir mikilvægi þeirra. Þau sem plöntur þurfa mest af kallast aðal- eða meginnæringarefni en hin snefilefni. Auk súrefnis, vatns og kolefnis þurfa plöntur aðalnæringarefnin köfnunarefni/ nitur (N), fosfór (P) og kalí (K), en þar á eftir koma kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) og brennisteinn (S). Næringarefnin sem plöntur þurfa minnst af eru kopar (Cu), bór (B), mangan (Mn), molybden (Mo), klór (Cl), sink (Zn), járn (Fe), kísill (Si), natríum (Na) og kóbalt (Co). Nitur eykur fyrst og fremst blað- og stöngulvöxt. Það er því gott að bera það á snemma vors. Sé gefið of mikið nitur verða blöðin dökkgræn og slöpp og stönglarnir linir. Ennfremur dregur úr fræmyndun. Ef um niturskort er að ræða verða plönturnar ljósgrænar og síðan gular og kyrkingslegar. Fosfór eykur rótarvöxt og flýtir fyrir blómgun og aldin- og fræmyndun. Fosfórskortur lýsir sér meðal annars í að blöðin verða rauðblá á neðra borði, en síðan gul. Rótarvöxtur verður hægur og það dregur úr blómgun. Kalí er nauðsynlegt við ljóstillífun sem er undirstaðan í lífstarfsemi plantnanna. Kalí eykur frostþol og mótstöðu gegn þurrki og sveppasjúkdómum. Skortur á kalí lýsir sér meðal annars í að ung blöð verða gul og visna, einkum á blaðjöðrunum. Gott er að bera á kalíauðugan áburð í lok júlí eða byrjun ágúst til að draga úr líkum á kali. Snefilefnaskortur Skortur á kalsíum kemur fram í minni vexti eða þá að hann stöðvast, eldri blöð verða dökkgræn en yngri vansköpuð og rætur vaxa illa. Skortur á magnesíum veldur því að blaðgrænan eyðist úr plöntunni og eldri blöð verða gul út frá miðjunni. Óeðlilega smá og þykk blöð sem vaxa þétt saman benda til skorts á sinki. Séu ung blöð aftur á móti óeðlilega mjó og snúin með dökkar taugar er um bórskort að ræða. Hvítkáli, blómkáli og gulrófu er hætt við bórskorti og verða dökkar að innan sé hann alvarlegur. Skortur á mangan lýsir sér með því að blaðgræna yngstu blaðanna eyðist á blettum en blaðtungurnar haldast grænar. Séu yngstu blöðin ljósgræn getur það stafað af skorti á brennisteini eða járni. Sé aftur á móti um alvarlegan skort á járni að ræða verða blöðin hvít. Tilbúinn áburður Í tilbúnum áburði eru auðleyst næringarefni sem nýtast plöntunum fljótt eftir að hann er borinn á, enda leysist hann hratt upp. Of mikið af tilbúnum áburði getur brennt ræturnar. Varasamt er að bera meira en tíu til fimmtán grömm af tilbúnum áburði í kringum ungar trjáplöntur sem nýbúið er að gróðursetja. Þremur til fjórum árum seinna má auka skammtinn í þrjátíu til fjörutíu grömm. Áburð á ekki að setja við stofn eða stöngul plantnanna heldur á að dreifa honum að minnsta kosti fimm til tíu sentímetra frá þeim. Lífrænn áburður Notkun lífræns áburðar er jafngömul ræktunarsögunni en elstu rituðu heimildir um notkun hans eru frá um 400 f.Kr. Í Njálu er sagt frá því þegar húskarl Njáls á Bergþórshvoli ók skarni á hóla og er þar líklega átt við náttáburð, eða með öðrum orðum að hann hafi skvett úr koppnum á hólinn. Í lífrænum áburði eru öll næringarefni sem plöntur þurfa á að halda en þau eru þó sjaldnast í þeim hlutföllum sem nýtist plöntunum best. Það er því gott að líta á lífrænan áburð sem aðalréttinn en tilbúinn áburð sem vítamínið sem við tökum með morgunmatnum. Hægt er að fá mismunandi gerðir lífræns áburðar, til dæmis hrossaskít, kúamykju, sauðatað og þurrkaður hænsnaskítur eða áburð eins og þangmjöl, sveppamassa, safnhaugamold og moltu. Magn áburðarefna í mismunandi gerðum lífræns áburðar er breytilegt og það er líka breytilegt eftir því hvernig meðferð áburðurinn hefur fengið. Hæfilegt magn í garðinn getur því verið tvær til fjórar skóflur af hrossataði á fermetrann í ræktun matjurta og um hálfur lítri af hænsnaskít eða þörungamjöli. Til að fá sem besta nýtingu úr lífrænum áburði er nauðsynlegt að dreifa honum jafnt yfir svæðið sem hann á að fara á og pæla honum saman við jarðveginn eða leysa hann upp í vatni og vökva með honum. Kostir lífræns áburðar eru að hann bætir jarðvegsbygginguna og starfsemi hinna nauðsynlegu jarðvegsörvera. Hann er líka lengi að brotna niður og temprast þannig út í jarðveginn, honum skolar síður út en auðleystum tilbúnum áburði og nýtist því plöntunum yfir langan tíma. Ókosturinn er aftur á móti sá að magn áburðarefna í lífrænum áburði er sjaldnast í þeim hlutföllum sem plönturnar þurfa og því getur verið gott að nota tilbúinn áburð með. Sé lífrænum áburði blandað í holu með plöntu sem verið er að planta út hefur hún með sér gott nesti fyrstu árin. Ferskur lífrænn áburður, sérstaklega skítur, er sterkur og brennir rætur plantna komist hann í beina snertingu við þær. Þess vegna verður að blanda hann vel saman við jarðveginn áður en plantað er út. Þurrkaður hænsnaskítur, þörunga mjöl, sveppamassi, molta og safnhaugamold eru að öllu jöfnu betri kostur en ferskur búfjáráburður þegar velja skal lífrænan áburð í garðinn. Þurrkaður hænsnaskítur er laus við illgresisfræ vegna þess að við framleiðslu er hann hitaður. Í búfjáráburði og safnhaugamold geta aftur á móti leynst fræ sem spíra eftir að þau koma í garðinn. Ómeðhöndlaður búfjáráburður er líka mjög sterkur og yfirleitt þarf að láta hann standa og brjóta sig í nokkur ár fyrir notkun. Þörungamjöl, sem einnig gengur undir vöruheitinu Garðamjöl, er snautt af köfnunarefni og því gott að nota það sem lífrænan áburð í kartöflugarðinn, á grasflötina og undir þökur. Hæfilegt magn af þörungamjöli í matjurtagarðinn er fimm kíló á tuttugu og fimm fermetra en sama magn á hundrað fermetra grasflöt og beð. Lífrænn áburður er maturinn en tilbúinn vítamínið Lífrænn áburður gerir öllum gróðri gott. Góð safnhaugamold er gull betri.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.