Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 44

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Vélabásinn liklegur@internet.is Hjörtur L. Jónsson Sjö manna Peugeot 5008: Þægilegur fjölskyldubíll fyrir stórfjölskyldur Peugeot hefur á undanförnum árum sannað sig í framleiðslu á litlum, endingargóðum og sparneytnum bílum meðal smærri fólksbíla. Fyrir skemmstu frumsýndi Bernhard nýjustu árgerðina af Peugeot. Margar stærðir og gerðir voru á frumsýningunni, en mér lék forvitni á að prófa Peugeot 5008, sem er stór sjö manna bíll sem á að henta vel sem fjölskyldubíll (og eflaust sem leigubíll). Bíllinn sem ég valdi til prufuaksturs var með 1,6 lítra dísilvél, á að skila 114 hestöflum, sjálfskiptur (með rafmagnsskiptingu), á að eyða 4,8 lítrum af dísil í blönduðum akstri miðað við bestu aðstæður. Útsýni fram fyrir bílinn framúrskarandi Það var ekki laust við að mér yrði hugsað til textabrots með Bítlavinafélaginu um Auðbjörn, tvítuga töffarann á bílnum sínum með topplúguna, en þó svo að engin væri topplúgan á þessum bíl er gluggi eftir nánast öllu þakinu og mætti halda að bíllinn væri sérhannaður fyrir norðurljósaferðir á íslenskum vetrarkvöldum (sem gæti hentað vel fyrir leigubílstjóra næsta vetur). Ekki er bara útsýnið gott upp á við heldur er einstaklega gott útsýni fram fyrir bílinn, en þó skyggði baksýnisspegillinn aðeins á og stal örlítið ánægjunni. Hins vegar voru baksýnisspeglarnir tveir, en efri spegillinn er meira til að fylgjast með farþegunum fimm fyrir aftan ökumanninn. Hægt að skipta rafmagnssjálfsskiptingunni á þrjá mismunandi vegu Ég er svo sérlunda að ég vil hafa mína bíla beinskipta, en því er ekki að neita að það er þægilegt að keyra sjálfskipta bíla. Það eru ekki margar bílategundir sem bjóða upp á rafmagnssjálfsskiptingar, hvað þá í smærri bílum eins og þessum (mun algengara í stærri bílum eins og sendibílum og vörubílum). Að keyra með svona skiptingu er ekki ósvipað og að maður ímyndi sér að vera á beinskiptum bíl og að einhver annar skipti um gír fyrir ökumanninn. Hægt er að keyra bílinn eins og venjulegan sjálfskiptan bíl. Svo er hægt að skipta um gír í stýrinu, hægra megin er upp og vinstra megin niður. Síðan er hægt að færa gírstöngina að sér um eitt pall og þá er aftur upp um gír og fram niður um gír. Öftustu tvö sætin ekki fyrir mjög stóra og „skjólgóða“ Þó að bíllinn sé skráður sjö manna eru öftustu tvö sætin varla fyrir fullvaxna Íslendinga, en að ferðast í bílnum með þrjá í miðsætunum er vel rúmt um þá og mikið rými fyrir farangur aftast séu öftustu sætin niðri. Eldri sonur minn, sem er töluvert stærri en ég, settist aftur í bílinn og dásamaði plássið sem var þar, olnbogarými gott, hátt til lofts, en þó sérstaklega borðið sem hann gat sett niður og sagði þetta vera sérhannað fyrir að taka með sér fartölvuna í bíltúr. Veghljóð í fjöðrun óþægilega mikið Að keyra bílinn á malarvegi var svolítið sérstakt, þegar keyrt var í litlar holur og ójöfnur heyrðist svolítið veghljóð á stystu og minnstu fjöðruninni, en ef holurnar voru stærri heyrðist minna á hraðanum á milli fjörutíu og fimmtíu. Ef hins vegar var snúið við og sami vegkafli var ekin aftur og þá hraðar á milli 70 og 80 km heyrðist enn minna veghljóð og fannst mér við þessa litlu prófun betra að keyra hratt á holóttum malarvegi fremur en að fara varlega og greinilegt að fjöðrunin er hönnuð fyrir hraða því veggrip virtist bara batna við hraðari akstur. Ótrúlega gott aðgengi að vél Franskir bílar hafa haft það orð á sér að vont sé að komast að öllu í vélinni og helst þyrfti að vera verkfræðingur með barnsmáar hendur til að skipta um perur í þeim. Í þessum bíl virðist aðgengi að vélinni vera mjög gott og að skipta um peru virðist lítið mál í þessum bíl jafnvel fyrir klunna hendur eins og mínar. Alls ók ég bílnum tæpa 200 kílómetra og í mælingu sem ég gerði á eyðslu á síðustu 108 km var bíllinn að eyða 6,4 lítrum af dísil á hundraðið á meðalhraða upp á 45 km á klukkustund. Hægt er að fræðast meira um Peugeot á vandaðri heimasíðu á slóðinni www.peugeot.is. Peugeot 5008. Myndir / HLJ Peugeot 5008 1,6 dísil HDi 114 hestöfl 4.590.000 kr. Lengd: 4.529 mm Hæð 1.639 mm Breidd: 1.837 mm Mikið pláss í miðjusætunum og borðið hentar vel fyrir fartölvu. Óvenjugott er að komast að við ljósaperuskipti. Baksýnisspeglarnir tveir mættu vera aðeins ofar til að fá enn betra útsýni. Stórir og góðir hliðarspeglar. Þegar bílnum er læst falla hliðar- speglarnir að honum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.