Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Í heimi íslenskra hestamanna hefur oft verið talað um tifandi tímasprengju þegar rætt er um alvarlega sjúkdóma sem borist gætu til landsins. Reglulega berast fréttir af ólöglegum innflutningi notaðra tækja, tóla, bíla, hestakerra ofl. sem geta borið með sér smitefni. Hvort sem ólöglegur innflutningur stafar af ásetningi eða gáleysi er brotið alvarlegt, hvort heldur er fyrir hestaeigendur eða aðila sem stunda útflutning hrossa og afurða þeirra. Flestir hestamenn óttast ófyrirséðar afleiðingar smit- sjúkdóma, en aðrir hafa minni áhyggjur, ekki drepist íslenskir hestar sem fluttir eru til annarra landa og tal um alvarlegar afleiðingar af smiti hingað til lands sé hræðsluáróður. Málið snýst þó ekki um að hross drepist í stórum stíl, heldur að hestamenn muni tapa frelsi til athafna og hestahaldið verði kostnaðarsamara en hingað til. Heilbrigði vart metið til fjár Fæstir gera sér grein fyrir þeim lúxus sem íslenskir hestamenn búa við hvað varðar smitvarnir við hestahald hér á landi. Dýrmætt er að geta farið með hesta milli landshluta og reiðtygi milli hesthúsa, rekið hross á afrétt með tilheyrandi tripparéttum að ógleymdum öllum hestamannamótunum og hestaferðunum án þess að óttast að hrossin sýkist. Kostnaður hesteiganda vegna smitsjúkdóma er hverfandi hér á landi, dýralæknar sinna mest meltingarsjúkdómum, meiðslum og forvörnum. Kostnaðarsamar afleiðingar smitsjúkdóma Berist alvarlegur smitsjúkdómur í hross hér á landi yrðu afleiðingarnar viðamiklar og kostnaðarsamar. Hægt er að meðhöndla eða bólusetja gegn nokkrum alvar- legum smitsjúkdómum, s.s. hestainflúensu og alvarlegum herpessýkingum (EHV-1,) en ekki er þó víst að slíkar bólusetningar gefi örugga vörn. Mest er hættan á að til landsins berist smitefni sem ekki er hægt að verjast með þeim hætti. Þar er m.a. um að ræða fleiri stofna af streptokokkum skyldum þeim sem olli smitandi hósta en fyrst og fremst er mikil hætta á að hinn alvarlegi sjúkdómur kverkeitlabólga (sem einnig er streptokokkasýking, S. equi) geti borist til landsins með notuðum reiðfatnaði, reiðtygjum, áhöldum, hestakerrum o.fl. Ekki er hægt að verjast þeim sjúkdómi með bólusetningu eins og er. Grunnbólusetning (tvær til þrjár bólusetningar), mun kosta einhverja tugi þúsunda á hvert hross og svo árlega eftir það. Kostnaður við slíkar bólusetningar í nágrannalöndum okkar gefur hestamönnum hugmyndir um eða verðmiða á beinar afleiðingar smitsjúkdóma. Erfiðara er að setja verðmiða á meðhöndlun veikra hrossa og hömlur á ferðafrelsi (reiðtúrar, mótahald, hestaferðir) á meðan unnið væri að grunnbólusetningu á landsvísu, sem tæki nokkra mánuði. Nauðsynlegt að hestamenn verjist sjálfir Stjórnvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til að varna því að smit berist til landsins og lög banna innflutning þess sem getur borið með sér smit í dýr. Á Keflavíkurflugvelli er hægt að koma notuðum reiðfatnaði í hreinsun sem uppfyllir kröfur um smitvarnir og eru menn hvattir til að nota þá þjónustu. Að öðrum kosti þarf að vera búið að þvo og sótthreinsa notaðan reiðfatnað fyrir komuna til landsins. Með öllu er óheimilt að flytja inn notuð reiðtygi og notaða reiðhanska. Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um hvað sé óhætt að flytja til landsins af notuðum reiðfatnaði, gefið út bæklinga og birt viðvaranir á heimasíðu. Skilvirkasta smitvörnin er þó hjá hestamönnunum sjálfum og þá sérstaklega þeim sem hafa regluleg samskipti við útlönd. Mesti samgangurinn við útlönd er meðal reiðkennara, þjálfara, dómara og járningamanna að ógleymdum erlendum kaup- endum og gestum hestaleiga og þjálfunarstöðva. Hver og einn verður að staldra við þegar gest ber að garði ef líklegt er að hann sé nýlega kominn frá útlöndum. Það er engin ókurteisi að spyrja gest hvort hann sé hugsanlega með eitthvað sem gæti borið smit í hestana, s.s. reiðbuxur, skó, hjálm eða hanska, það sýnir einfaldlega ábyrgð hesteigandans. Að bera smitefni í hross er jafn alvarlegt hvort sem það er gert af gáleysi eða af ásetningi, afleiðingarnar geta orðið jafn dýrkeyptar og verða ekki aftur teknar. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Tímasprengja í höndum hestamanna ...frá heilbrigði til hollustu Einar Freyr Elínarson, bóndi í Sólheimatungu í Mýrdal, var kjörinn nýr formaður Samtaka ungra bænda á aðalfundi samtakanna sem haldinn var laugardaginn 22. mars síðastliðinn í Úthlíð í Biskupstungum. Ásamt Einari voru þeir Ástvaldur Lárusson frá Núpi í Dýrafirði og Orri Jónsson frá Lundi í Lundareykjardal kosnir nýir inn í stjórn, en fyrir sátu þar þau Þórir Níelsson á Torfum og Jóna Þórunn Ragnarsdóttir á Reynivöllum. Tryggja þarf rekstur Landbúnaðarháskólans Ásamt hefbundnum aðalfundar- störfum voru tekin fyrir mál sem eru ungum bændum efst í huga um þessar mundir. Þar má nefna málefni Landbúnaðarháskóla Íslands, innflutningur erfðaefnis í íslenska kúastofninn, dýravelferð og nýliðun í landbúnaði. Fundurinn skoraði meðal annars á stjórnvöld að bæta fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskóla Ísland, tryggja að skólinn geti veitt góða kennslu í landbúnaðartengdum greinum bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi við skólann til framtíðar og tryggja öflugt rannsóknarstarf við skólann. Fyrir fundinn var ljóst að kjörinn yrði nýr formaður þar eða Jóhanna María Siigmundsdóttir frá Látrum gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu en Jóhanna situr sem kunnugt er á Alþingi og má ætla að tíma hennar sé naumt skammtað. Einar Freyr atti kappi við Loga Sigurðsson og hafði sigur. Mikil drift í starfi ungra bænda Einar Freyr segist þakklátur fyrir það traust sem honum er sýnt með kosningunni og hyggst efla starf samtakanna enn frekar. Það er ljóst að hann tekur við góðu búi en mikil drift hefur verið í samtökunum að undanförnu og hafa þau meðal annars heimsótt fjölda framhaldsskóla á landinu á liðnum vetri, auk þess að halda úti margþættu starfi í fræðslu og hagsmunamálum. Til að mynda hafa samtökin gefið út þrjú myndbönd þar sem mikilvægi landbúnaðar og ungra bænda er kynnt. „Aðalfundur leggur auðvitað línurnar hvað varðar störf samtakanna. Hvað mig sjálfan varðar eru nýliðunarmál mér hugleikinn, svo sem kannski flestum ungum bændum. Ég vinn við búskap með móður minni í Sólheimahjáleigu þannig að þetta snertir mig í raun beint. Ég er sannfærður um að það er nauðsynlegt fyrir framfarir og nýsköpun í greininni að ungt fólk geti með auðveldari hætti hafið búskap, og ekki síst ungt fólk sem ekki er í aðstöðu til að taka við búum í gegnum ættliðaskipti. Við vitum að ungt fólk sem tekur við búi af foreldrum sínum er oft á tíðum betur sett varðandi þennan þátt en það er auðvitað mjög mikilvægt að auðvelda nýliðun fyrir alla. Í því samhengi þarf að móta leiðir við fjármögnun og varðandi lánamál. Sömuleiðis er mikilvægt að horfa til þess að bújarðir sem eru í landbúnaðarnotum séu ekki teknar undir aðra starfsemi athugasemdalaust,“ segir Einar Freyr. Vanræksla nátengd félagslegum vandamálum Einar Freyr segir að hann sé einnig mikil áhugamaður um dýravelferð og hyggist leggja enn aukna áherslu á þann þátt í starfi samtakanna. „Með nýjum lögum um dýravelferð og breytingu á búfjáreftirliti hafa verið stigin ákveðin skref en ég persónulega held að ennþá sé til staðar grundvallar hugsunarvilla í kerfinu. Við þurfum að einblína mun frekar á dýravelferð í samhengi við félagsleg vandamál bænda. Þar sem er vanræksla á dýrum er í miklum meirihluta tilfella um að ræða vandamál hjá bændum. Ég held að við þurfum að horfa til þess í mun meira mæli að nýta þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa í samhengi við þessi mál öll.“ Einar Freyr tekur undir að mikil drift hafi verið í starfi ungra bænda á síðustu misserum. „Ég held að næsta verkefni sé að gera enn betur í að tryggja það að rödd ungra bænda heyrist enn betur þar sem hún skiptir máli og ég hef mikinn áhuga á að vinna að því verkefni. Þá er ég að tala um stofnanir eins og búnaðarþing, fundi afurðastöðva og víðar þar sem ákvarðanir eru teknar. Það er gríðarlega mikilvægt.“ Vonast til að kynjahlutföll verði jafnari í framtíðinni Spurður um ástæður þess hvers vegna halli svo á konur í stjórninni nú segir Einar Freyr að hann telji að karlar hafi í þetta skipti einfaldlega spýtt í lófana. „Við höfum séð að konur hafa sannarlega gefið sig út fyrir að starfa í samtökunum og hafa gegnt viðamiklum hlutverkum á undanförnum árum, eins og sést ekki síst á farsælum formannsferli Jóhönnu Maríu. Staða kvenna í félagsmálum bænda tel ég að hafi verið að styrkjast verulega á undanförnum árum og ég tel afar mikilvægt að raddir beggja kynja heyrist til jafns. Svona lenti þetta núna en ég vonast til að við berum gæfu til að hlutföllin verði jafnari í framtíðinni.“ Hyggst fjölga sauðfé Einar Freyr er 23 ára bóndi í Sólheimatungu en þar býr hann ásamt sambýliskonu sinni, Söru Lind Kristinsdóttur, og tæplega eins árs gamalli dóttur þeirra, Grétu Björk. Hann útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri síðasta vor og segir aðspurður að hann sé að velta fyrir sér möguleikum á frekara námi. Nú vilji hann hins vegar einbeita sér að því að stækka sauðfjárbúið, en hann stundar sauðfjárbúskap með móður sinni, Elínu Einarsdóttur, í Sólheimahjáleigu. Þá vinnur Einar Freyr einnig á Hjallatúni, dvalar- og hjúkrunar- heimili á Vík, sem næturvörður í hálfu starfi. Um 390 vetrarfóðraðar kindur eru í Sólheimahjáleigu og segist Einar Freyr stefna að því að fjölga þeim sem hraðast, helst upp í 600. Sara Lind er í námi og Elín móðir Einars Freys rekur ferðaþjónustu í Sólheimahjáleigu. Spurður hvort ekki sé í nægu að snúast miðað við þetta allt tekur Einar Freyr svo sem undir það en segir fjölskylduna samhenta og þar hjálpist allir að. Einar Þorsteinsson, afi og nafni Einars Freys, er fyrrverandi ráðunautur og segir Einar Freyr það ómetanlegt að hafa slíkan hafsjó af fróðleik sér til aðstoðar við búskapinn. /fr Einar Freyr Elínarson kjörinn nýr formaður Samtaka ungra bænda: Raddir ungra bænda þurfa að heyrast Einar Freyr Elínarson, bóndi í Sólheimatungu í Mýrdal, er nýr formaður Samtaka ungra bænda.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.