Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014
Aðalfundur Ferðaþjónustu bænda og Félags ferðaþjónustubænda á Hótel Dyrhólaey:
Árið 2013 var gott ár fyrir ferðaþjónustu bænda
– Eldá og Geitaskarði veitt heiðursviðurkenning Félags ferðaþjónustubænda
Aðalfundir Ferðaþjónustu
bænda hf. (FB) og Félags
ferðaþjónustubænda (FFB) var
haldinn á Hótel Dyrhólaey í
Mýrdal dagana 24.-25. mars. Á
aðalfundi Ferðaþjónustu bænda
kom fram að afkoma félagsins
hafi verið góð á síðasta ári
og það hafi hlotið nafnbótina
Framúrskarandi fyrirtæki ársins
2013. Heiðursviðurkenning Félags
ferðaþjónustubænda var veitt
þeim Guðrúnu Þórarinsdóttur
og Jóni Illugasyni á Eldá í
Mývatnssveit annars vegar og
einnig þeim Ásgerði Pálsdóttur og
Ágústi Sigurðssyni, Geitaskarði í
Langadal.
Framúrskarandi fyrirtæki
ársins 2013
Dagskráin hófst að morgni
mánudagsins 24. mars á aðalfundi
Ferðaþjónustu bænda hf. Mikil
stefnumótunarvinna er í gangi hjá
félaginu þar sem allt hefur verið tekið
til endurskoðunar og hefur sú vinna
verið unnin í samstarfi við Capacent.
Einn þáttur hennar er endurskoðun
á vörumerkinu og jafnvel eru
hugmyndir uppi um breytingar á
nafni félagsins. Á fundinum kom
fram að ljóst er að eitt af lykilatriðum
fyrir áframhaldandi velgengni er
mörkun skýrrar stefnu sem þarf að
endurspegla vöruframboð og þá
þjónustu sem veitt er.
FB hlaut nafnbótina Framúr-
skarandi fyrirtæki ársins 2013
að mati Creditinfo Group hf. og
er þar í hópi 462 fyrirtækja af
rúmlega 33.000 sem skráð eru í
hlutafélagaskrá. Afkoma síðasta
árs vara góð og munu félagar fá
greiddan út arð á árinu.
Útnefning heiðursfélaganna
Að loknum aðalfundi FB og
hádegisverði, voru heiðursfélagar
FFB útnefndir. Viðurkenninguna
hlutu Ásgerður Pálsdóttir og Ágúst
Sigurðsson, Geitaskarði í Langadal,
og Guðrún Þórarinsdóttir og Jón
Illugason á Eldá í Reykjahlíð.
Ásgerður og Ágúst hafa rekið
ferðaþjónustu á Geitaskarði í fjölda
ára og hafa félagsmál verið þeim
mjög hugleikin. Ágúst kom bæði
að stjórnarstörfum fyrir FFB sem
og FB. Guðrún Þórarinsdóttir og
Jón Illugason reka gistihúsið Eldá í
þremur húsum í þorpinu Reykjahlíð
við Mývatn og eiga þau sér langa
sögu í ferðaþjónustu á svæðinu. Þau
hjónin hafa verið virkir og traustir
þátttakendur á fundum FB og hafa
lagt margt til málanna.
Á aðalfundi FB kynntu þau Hildur
Fjóla Svansdóttir, vefstjóri FB, og
Sævar Skaftason, framkvæmdastjóri
FB, nýjan vef; farmholidays.is.
Er þar um að ræða svokallaðan
snjallvef – sem virkar sérstaklega
vel á spjaldtölvum og símum – býður
upp á mun betri framsetningu og er
með skilvirkari leitarmöguleikum.
Mikill uppgangur í ferðaþjónustu
í landinu
Aðalfundur Félags ferðaþjónustu-
bænda var svo haldinn daginn eftir.
Í upphafi fundar flutti Sigurlaug
Gissurardóttir, formaður Félags
ferðaþjónustubænda, ársskýrslu
stjórnar. Í árslok 2013 voru félagar
183 talsins og gistirými 5.475.
Mikill uppgangur er í ferðaþjónustu
í landinu og berast ávallt fyrirspurnir
til félagsins frá aðilum sem hyggja
á rekstur. Markaðsnefnd hefur verið
starfrækt sem heldur utan um árlega
viðburði, en endurskoða verður
markaðsmál á innanlandsmarkaði
með tilkomu þeirra möguleika
sem skapast við vefsölu með nýrri
vefsíðu. Félögum stóð til boða ýmiss
konar fræðsla á árinu og farið var í
fræðslu- og skemmtiferð til Austur-
Þýskalands á haustdögum.
Sú breyting verður á stjórn FFB að
Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, Ensku
húsunum við Langá, kemur ný inn
í stjórn í stað Marteins Njálssonar,
Suður-Bár. Aðrir í stjórn verða
Sigurlaug Gissurardóttir, Brunnhóli,
Guðmundur Helgason, Núpi, Sigrún
Valdimarsdóttir, Dæli, og Bryndís
Óskarsdóttir, Skjaldarvík. Nýir
varamenn eru Berglind Ingvarsdóttir
á Mjóeyri og Laila Ingvarsdóttir á
Hellishólum.
Ályktað var um vegamál
með tilliti til aukningar í
vetrarferðamennsku í landinu, en
styrking ferðamannaiðnaðarins upp
til sveita hlýtur að leiða til styrktrar
búsetu í sveitum og auka lífsgæði
þar. Veður geta þó verið válynd og
sett strik í reikninginn þegar kemur
að ferðalögum, einkum á veturna
og eru landshlutarnir misjafnlega
settir þegar kemur að veðrum og
snjómokstri. Þrýsta verður því á
samgönguyfirvöld um að þjónusta
landið allt og leitast við að gæta
jafnræðis, því samgöngur eru
mikilvægur þáttur í framþróun
ferðaþjónustu í dreifbýli. /smh
Á myndinni eru frá vinstri Guðrún Þórarinsdóttir, Ásgerður Pálsdóttir og Ágúst Sigurðsson með viðurkenninguna, ásamt Sigurlaugu Gissurardóttur,
formanni FFB. Jón Illugason var ekki viðstaddur afhendinguna. Myndir / smh
Góður og fjölmennur hópur ferðaþjónustubænda hittist á Hótel Dyrhólaey
í Mýrdal dagana 24. og 25. mars.
Hildur Fjóla Svansdóttir, vefstjóri Ferðaþjónustu bænda, kynnir nýjan vef,
farmholidays.is sem hefur verið tekinn í gangið. Sjá forsíðuna hér að neðan.
Sævar Skaftason er framkvæmda-
stjóri Ferðaþjónustu bænda. Góð
afkoma var á síðasta ári.
Sigurlaug Gissurardóttir er formaður
Félags ferðaþjónustubænda. Í máli
hennar kom fram að mikill uppgangur
er í ferðaþjónustu á landinu.