Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 40

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Utan úr heimi Býflugnadauði í Evrópu skilgreindur sem „samfélagahrunsóregla“ býflugnasamfélaga á stórum svæðum: Gríðarleg notkun meindýraeiturs í ríkjum ESB veldur verulegum áhyggjum – Á Íslandi beita bændur einkum lífrænum vörnum og notkun eiturefna í landbúnaði hérlendis er vart mælanleg Þrátt fyrir að á undanförnum árum hafi Evrópusambandið verið að herða reglur um notkun meindýra- eða skordýraeiturs í landbúnaði er notkun slíkra efna þar enn gríðarleg. Ef litið er til Evrópu í heild er staða íslensks landbúnaðar æði sérstök í þessu tilliti hvað litla notkun varðar, líkt og varðandi litla notkun fúkkalyfja, sem vakið hefur mikla athygli erlendis. Í Evrópu sem og í Bandaríkjunum og víðar eru heilu akrarnir úðaðir með margvíslegum „varnarefnum“ með flugvélum og öflugum landbúnaðartækjum, en slíkt þekkist ekki hér á landi. Þá eru eiturefni líka mjög mikið notuð í gróðurhúsum og annarri garðyrkju í Evrópu, en íslenskir ylræktarbændur hafa í mörg ár farið þá leið að beita lífrænum vörnum náttúrunnar sjálfrar. Þá hefur ört dregið úr innflutningi slíkra efna, þar með talið gróðureyðingarefna hingað til lands á undanförnum árum. Býflugur eru lífríkinu nauðsynlegar Matvælaöryggisyfirvöld Evrópu, European Food Safety Authority (EFSA), hafa mikið fjallað um málið. Þá sendi Evrópunefndin frá sér skammarbréf til aðildarríkjanna í apríl 2013 fyrir að hafa ekki staðið við tilmæli um að grípa til ráðstafana til að vernda býflugur sem væru nauðsynlegar lífkerfi Evrópu. Bent hefur verið á að ef býflugur hverfi af sjónarsviðinu geti um 80% plantna drepist í kjölfarið. Um leið og fjölbreyttar plöntutegundir hverfi þá þurrkist líka út margar fiðrildategundir sem hafa sérhæft sig í að nýta einstaka plöntur. Þetta sé ekki bara skelfilegt fyrir náttúruna heldur einnig fyrir mannfólkið, þar sem ekki verði lengur hægt að bjóða upp á fjölbreyttar grænmetis- og ávaxtategundir. „Samfélagahrunsóregla“ býflugnasamfélaga Talið er að meindýraeitur, svokallaðir neóníkótínóíðar og fenýlpýrasólefni, hafi átt sinn þátt í að útrýma býflugum á stórum svæðum á síðustu tíu til fimmtán árum, en þær eru nauðsynlegar við frjóvgun margvíslegar nytjajurta í landbúnaði. Er talað um hrun á býflugnastofninum í þessu samhengi og var fyrirbærinu meira að segja gefið sérstakt heiti eða „samfélagahrunsóregla“ (Colony Collapse Disorder – CCD). Samt er sagt í reglum ESB að ekkert meindýraeitur megi nota nema það sé vísindalega sannað að það skaði ekki fólk og hafi engin áhrif á umhverfið. Gallinn er bara sá að regluverk ESB virðist ekki hafa dugað. Á sama hátt og eiturefnin hafa áhrif á viðgang skordýra, þá berast þessi efni í matvæli sem væntanlega eru líka seld til Íslands. Á undanförnum árum hafa einnig borist fréttir af stórauknum ólöglegum viðskiptum í Evrópu með meindýraeitur. Er jafnvel talað um að 25% af notkuninni komi af svarta markaðnum og komi því ekki fram í samanburðarrannsóknum eins og fréttaþjónusta MercoPress á Spáni greindi frá. 140 þúsund tonn af eiturefnum á ári Í rannsókn [Potential developmental neurotoxicity of pesticides used in Europe] sem vísindamennirnir Marina Bjørling-Poulsen, Helle Raun Andersen og Philippe Grandjean gerðu árið 2008 um notkun meindýraeiturs í landbúnaði í Evrópusambandinu, kom fram að þar væru notuð árlega um 140.000 tonn eiturs af um 300 tegundum. Það samsvaraði um 280 grömmum á hvern einasta íbúa ESB-ríkjanna. Skelfilegar afleiðingar Skordýraeitri hefur verið beitt óspart til að tryggja að uppskeran skemmist ekki. Vandinn sem menn horfa fram á í dag er hins vegar sá að við stórfellda fækkun býflugna og annarra skordýra geti uppskeran dregist saman um allt að 75% sem mun hafa stórkostlegar afleiðingar fyrir alla landbúnaðarframleiðslu í Evrópu. Bann sett á notkun þriggja efnasambanda í tvö ár Í atkvæðagreiðslu um tilmæli Evrópunefndarinnar um að grípa til aðgerða í apríl 2013 var það aðeins samþykkt af fimmtán ríkjum en átta voru á móti og fjögur sátu hjá. Evrópunefndin tók málið upp aftur til að bregðast við niðurstöðum vísindamanna EFSA um neikvæð áhrif viðkomandi efna á býflugur og um leið á æxlun ýmissa jurta. Krafðist EFSA tafarlausra aðgerða vegna mjög bráðrar hættu (e. high acute risk). Evrópunefnd þingsins samþykkti í kjölfarið tímabundið bann til tveggja ára á þrem tegundum meindýraeiturs sem drepa býflugur. Það eru klóþíanidín, imídaklópríð og þíametoxam. Er aðildarríkjum ESB ætlað að upplýsa almenning um notkun slíkra efna og skrá eitrunartilfelli. Þá gaf EFSA það út hinn 13. mars síðastliðinn að nauðsynlegt væri að ESB ríkin tækju líka upp nána samvinnu um að rannsaka áhrif efnanotkunar á mannfólkið. Skolast í miklu magni í grunnvatn Samkvæmt hollenskri rannsókn sem gerð var á 700 stöðum í Hollandi á árunum 1998 til 2009, rennur skordýraeitur í stórum stíl út í grunnvatnið og hefur þannig keðjuverkandi áhrif á allt lífríkið. Bent er á að þó tímabundið bann sé set á þá sé gríðarlega mikið framleitt af meindýraeitri sem falli ekki undir þetta bann. Þannig séu um 20.000 tonn af eitrinu imídaklópríð framleidd árlega til berjast við flugur og meindýr sem sækja í nautgripi, hunda og ketti. Það er eiturefni sem hannað var af Bayer CropScience, dótturfélagi Bayer AG, og er ætlað að lama miðtaugakerfi skordýra. Þetta er jafnframt talið mest notaða eiturefnið í landbúnaði á heimsvísu í dag og selt undir ýmsum nöfnum. Í hollensku rannsókninni er talið að allt það eitur endi í yfirborðsvatni, mengi jarðveg og drepi um leið skordýr sem nauðsynleg séu lífríkinu. 25.000-falt yfir leyfilegum mörkum Vísindamenn komust að því að mjög oft mældist imídaklópríð í vatni vera hundraðfalt yfir leyfilegum mörkum. Í mörgu tilfellum var mengun af völdum imídaklópríðs jafnvel 25-þúsundfalt yfir leyfilegum mörkum samkvæmt hollenskum reglum (13 nanógrömm í lítra). Sagt var að býflugur sem drykkju slíkt vatn myndu ekki lifa í einn dag. Reglur Evrópusambandsins leyfa hins vegar fimm sinnum meira af þessu eitri í umhverfinu en gert er í Hollandi, eða 67 nanógrömm í lítra. Þessi öfgafullu mengunardæmi voru öll sögð vera í nágrenni við gróðurhús sem blanda imídaklópríð í vatnið sem þau vökva jurtirnar með. Vitnað er í dr. Jeroen van der Sluijs hjá Utrecht-háskólanum, sem segir að þrátt fyrir boð og bönn ESB um notkun slíkra efna sé kerfisvilla í reglugerðunum varðandi skilgreiningu á heimildum í notkun meindýraeiturs sem gerðu þær gagnslausar. Vandinn jafnvel enn stærri í Bandaríkjunum Í Bandaríkjunum er vandinn jafnvel enn meiri og þar eru vísindamenn jafnvel að tala í alvöru um að þróa vélbý til að sinna hlutverki lifandi býflugna. Frá 2006 er talið að um 30-40% af hunangsflugustofninum í Bandaríkjunum hafi drepist. Dánartíðni í Evrópu hefur verið talin að meðaltali 20% en yfir 53% í sumum löndum. Í fyrrasumar var talað um að ástandið hafi aldrei verið verra síðastliðin 50 ár. Strangari reglur um notkun meindýraeiturs í Evrópu geta haft gríðarleg áhrif á innflutning á korni, sojabaunum, trjáhnetum, jarðhnetum og á vöxtum frá Bandaríkjunum. Á vefsíðu CropLife America (CLA) í nóvember á síðasta ári er áhyggjum Bandaríkjamanna lýst í málinu. Það er sagt að þessar hertu reglur, sem er uppfærsla á reglum frá 2009, muni loka fyrir um 40% af útflutningi fyrrnefndra landbúnaðarafurða til Evrópu. Þar sé verið að tala um landbúnaðarvörur að verðmæti um fjórir milljarða dollara. Þetta komi til viðbótar ströngum verndarreglum ESB gagnvart sínum landbúnaði. /HKr. Mynd / euobserver.com

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.