Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014
Á dögunum fékk ég bók að gjöf.
Bókin heitir Smyglari Guðs og
er óvenjuleg saga um kristinn
trúboða, Bróður Andrew,
sem flutti guðsorð til allra
kommúnistalanda og smyglaði
Biblíunni til trúaðs fólks handan
járntjaldsins.
Nú hvá kannski þeir sem þekkja
mig, því trauðla er hægt að finna
trúlausari mann. Hví skyldi þá
nokkrum hafa dottið í hug að færa
mér bók sem þessa að gjöf?
Smyglari Guðs er í mínum
huga mjög merkileg bók, ekki
vegna innihaldsins heldur þeirrar
tengingar sem ég hef við bókina.
Þetta eintak sem Hrafnkell vinur
minn færði mér er nefnilega
annað eintakið sem ég eignast.
Hið fyrra hafði frændi hans, Hlífar
Erlingsson frá Þorgrímsstöðum í
Breiðdal, fært mér að gjöf fyrir um
átta árum en mér til mikillar mæðu
glataði ég bókinni einhvers staðar á
lífsleiðinni. Það var mér því mikil
sárabót að eignast annað eintak.
Hlífar var einstakur maður.
Þegar ég hóf að fara í smalamennsku
í Breiðdal haustið 2003 kynntist ég
þessum ljúfa og þægilega manni.
Hlífar bjó þá á Þorgrímsstöðum,
innst í Suðurdal í Breiðdal ásamt
Guðrúnu systur þeirra en Gunnar
bróðir þeirra hafði kvatt þennan
heim þá um sumarið. Þeir bræður
höfðu þá um áratugaskeið staðið
fyrir búskap á Þorgrímsstöðum.
Mikil samvinna var milli þeirra
bræðra og frændfólks þeirra á
Gilsá, en þangað kom ég til að
aðstoða Hrafnkel vin minn og
foreldra hans, Lárus og Helgu, við
smalamennsku þetta haust og flest
haust síðan.
Hlífar og Guðrún brugðu búi
haustið 2003 en eftir sem áður
var Hlífar jafnan boðinn og búinn
að aðstoða frændfólk sitt á Gilsá
við ýmis störf og ekki síst fjárrag
og smalamennsku. Það var hrein
unun að fylgjast með honum við
smalmennsku. Hann sagði enda
að maður yrði að geta hugsað eins
og sauður. Oft man ég eftir því að
hafa staðið og horft á hann eiga við
óþekkar kindur, sannfærður um að
nú myndi hann ekki ná að komast
fyrir þær. Nálega alltaf hafði ég
á röngu að standa. Hlífar þekkti
háttalag skepnanna og landslagið
eins og lófann á sér og nýtti sér
það óspart.
Hlífar var trúaður maður og
hafði starfað með Hvítasunnu-
söfnuðinum sem ungur maður.
Fyrsta haustið sem ég smalaði
í Breiðdal aðstoðuðum við
Hlífar við smalamennsku í
Þorgrímsstaðalandi. Eitthvað
hitnaði mér í hamsi við erfiðleika
sem ég trúi að hafi verið af
misgáningi smalamanna sem með
mér voru. Fór ég ófögrum orðum í
talstöðina um hvers konar lyddur
væru að smala með okkur. Eftir
að smalamennsku var lokið sá
Hrafnkell ástæðu til að skýra út
fyrir mér að Hlífar frændi hans
væri mikill trúmaður og varla
hrifinn af munnsöfnuðinum.
Lárus sagðist bara hafa slökkt á
talstöðinni.
En þrátt fyrir alla mína bresti
hafði Hlífar mætur á mér. Mér þótti
því afar vænt um það þegar hann
færði mér bókina að gjöf, hann
hefur líklega haldið að bjarga
mætti þessum guðleysingja og
gera úr honum sæmilegan mann.
Ég gleðst mjög yfir að hafa fengið
hana aftur í hendur, jafnvel þó að
um annað eintak sé að ræða.
Hlífar kvaddi þennan heim árið
2007. Ég lærði mikið af þessum
einstaka heiðursmanni sem átti
í fórum sínum hlýju, dugnað og
jákvæðni fyrir alla sem á vegi
hans urðu. Fyrir það fæ ég seint
fullþakkað.
/fr
STEKKUR
Smali Guðs
Félag starfsfólks í skólamötuneytum:
Markmiðið að efla samvinnu og
standa fyrir fræðsluþingum
Félag starfsfólks í skóla-
mötuneytum er heiti á félagi
sem stofnað var í vetur og er það
ætlað fyrir starfsfólk í eldhúsum
í skólum landsins, sama á hvað
stigi skólinn er. Aðalheiður
Kjartansdóttir, matráður í
Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit,
er formaður félagsins en með henni
í stjórn eru Hulda Einarsdóttir,
matráður í Síðuskóla á Akureyri,
sem er gjaldkeri, og Jóna Halldóra
Tryggvadóttir, matráður í
Grunnskóla Húnaþings vestra.
Meðstjórnendur eru Guðrún
Ágústa Ágústsdóttir og Anna
Arngrímsdóttir, sem báðar starfa
í mötuneyti Menntaskólans á
Akureyri.
„Við héldum fræðsluþing
fyrir áramót í Stórutjarnaskóla
og var það ætlað starfsfólki í
skólamötuneytum. Við fengum til
þess styrk frá Verkalýðsfélaginu
Framsýn á Húsavík, en
Stórutjarnaskóli lagði til húsnæði
og búnað,“ segir Aðalheiður, en
þingið var auglýst með því að senda
tölvupóst á skólastjóra á svæðinu
frá Húnavatnssýslum um Norður-
og Austurland, að Djúpavogi.
Heiða segir að ætlunin sé að reyna
að koma félagsskapnum á framfæri
við starfsmenn skólamötuneyta
um land allt og þannig fá fleiri til
liðs við félagið. Alls eru nú 24 í
félaginu.
Tveir fyrirlestrar
Tveir fyrirlesarar voru fengnir
til að flytja erindi á þinginu, þær
Anna Rósa Magnúsdóttir, næringar-
rekstrarfræðingur og forstöðumaður
eldhúss Sjúkrahússins á Akureyri,
og Borghildur Sigurbergsdóttir
næringarráðgjafi. Þær fræddu
fundargestir um rekstur stóreldhúsa,
næringu almennt og mikilvægi
þess að allir taki lýsi, „og almennt
um jákvæðni gagnvart hollum og
góðum mat,“ segir Aðalheiður.
Á þinginu kynnti Ekran ýmsar
vörur sem félagið býður upp
á og Norðlenska kynnti nýjar
framleiðsluvörur sem sérstaklega
eru framleiddar með skólamötuneyti
í huga.
Almenn ánægja með þingið
„Markmið félagsins er að
efla samvinnu og standa fyrir
fræðsluþingum á hverju hausti hér
og þar um landið. Við höfum áhuga
fyrir að ná til sem flestra starfsmanna
í skólamötuneytum hvar sem þeir
starfa á landinu því vilji okkar
stendur til þess að félagið stækki
og dafni,“ segir Aðalheiður. „Það
ríkti almenn ánægja með þingið og
greinilegt var að fólk hafði þörf fyrir
að hitta aðra í sömu atvinnugrein.
Það var mikið spjallað og fólk var að
bera saman bækur sínar. Það er alveg
sama hver grunnmenntun starfsfólks
er, það er alltaf hægt að bæta við sig
þekkingu og læra eitthvað nýtt.“
Þeir sem áhuga hafa fyrir að
ganga í félagið geta haft samband
við Aðalheiði t.d. með því að senda
tölvupóst á netfangið heida@
storutjarnaskoli.is. /MÞÞ
Aðalheiður Kjartansdóttir, formaður Félags starfsfólks í skólamötuneytum, og Guðbjörg Kristín Jónsdóttir aðstoðarkona. Myndir / MÞÞ
Nemendur í 5. og 6. bekk við morgunverðarhlaðborðið.