Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 27

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 27
27Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 einkavæddur. Sérð þú það fyrir þér? Myndi staða fyrirtækisins breytast með einhverjum hætti ef að því yrði? „Í sjálfu sér sé ég það alveg fyrir mér. Íslandspóstur er hlutafélag og hefur verið rekið sem slíkt og byggir á nákvæmlega sömu grunnreglum og önnur slík félög, þó að ríkissjóður sé eini hluthafinn. Eini munurinn er sá að við erum með þennan einkarétt á bréfadreifingu og þjónustuskyldu varðandi alþjónustu. Þegar búið verður að aflétta því er það pólitísk ákvörðun hvort fólk telji að ríkið eigi að eiga fyrirtæki sem þetta. Eftir sem áður myndi ríkið vera skuldbundið til að uppfylla pósttilskipun og það mætti hugsa sér að semja við Íslandspóst sem hlutafélag í almannaeigu, nú eða eitthvað annað fyrirtæki, um þá þjónustu.“ – Veist þú til þess að slíkt sé til umræðu af hálfu stjórnvalda? „Nei. Við getum hins vegar horft til Evrópu. Þar hafa menn selt ríkispóstþjónustur, svo sem hollenska póstinn TNT og maltneska póstinn. Ég held ég fari rétt með að portúgalski pósturinn sé líka í söluferli um þessar mundir og einnig Royal Mail í Bretlandi. Svo má líka velta fyrir sér hvort ríkið myndi selja hluta af fyrirtækinu og hugsanlega halda eftir þeim hluta sem ekki stendur undir sér á markaðslegum forsendum. Við höfum fyrst og fremst hvatt til þess hér að þessi umræða yrði tekin, án þess að hafa sérstaka skoðun á því hvað eigi að gera.“ Áframhaldandi lokanir á pósthúsum – Frá árinu 2008 hefur 13 pósthúsum á landsbyggðinni verið lokað, við áköf mótmæli og lítinn fögnuð heimamanna á hverjum stað. Voru þetta nauðsynlegar aðgerðir? Getur þú fullyrt að þjónusta landpósta geti og hafi komið í staðinn fyrir pósthúsin? „Ég tel að þjónusta landpósta hafi komið að fullu leyti í staðinn fyrir pósthúsin já, og ég hef ekki heyrt kvartað yfir þessari þjónustu eftir að hún komst á. Þvert á móti heyri ég að menn telji að þjónustan hafi batnað. Þegar við höfum tekið upp þjónustu póstbíla við lokun pósthúsa, í þéttbýli, afhenda þeir póstsendingar heim til fólks eða á vinnustaði eftir því sem hver og einn óskar. Á sama hátt taka þeir sendingar sem fólk vill koma frá sér. Ef ekki væri fyrir þetta þyrfti fólk að gera sér ferð á póstafgreiðslu á tilgreindum opnunartíma. Opnunartímar þar hafa vissulega verið rýmri en í póstbílum. En sé tekið tillit til þess að póstbíllinn kemur til viðkomandi á þetta að vera betri kostur. Sé fólk ekki viðlátið er böggullinn bara í bílnum og er afhentur næsta dag.“ – Stendur til að loka fleiri pósthúsum á landsbyggðinni á næstunni? „Það er búið að tilkynna lokun á tveimur pósthúsum á Vestfjörðum, á Suðureyri og Þingeyri. Það er það sem er í pípunum núna en það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um aðrar lokanir. Hins vegar má alveg gera ráð fyrir því að það verði að draga saman þjónustu póstafgreiðslna víðar á landinu, með minnkandi magni pósts. Á móti kemur að við erum að reyna að byggja upp aukningu á öðrum sendingum, við höfum til dæmis verið að gera okkur gildandi í flutningum fyrir netverslanir og þar hefur orðið töluverð aukning. Ef framhald verður á því styrkir það auðvitað starfsumhverfi okkar frekar en hitt. Ég sé þó ekki fyrir mér að sú aukning verði svo mikil að það verði þörf á að opna pósthús aftur, þar sem þeim hefur verið lokað.“ Nauðsynlegt að fækka dreifingardögum – Á undanförnum árum hefur verið dregið úr póstþjónustu víða og farið úr fimm daga dreifingu í þriggja daga dreifingu. Samkvæmt fjárhagsáætlun síðasta árs vildi fyrirtækið draga enn frekar úr dreifingardögum en fékk ekki. Hyggst fyrirtækið sækja um slíkan samdrátt að nýju? „Það myndi kalla á reglugerðarbreytingu, sem ekki hefur verið samþykkt ennþá. Okkar tillaga var sú að dregið yrði úr tíðni póstdreifinga í dreifbýli þannig að dreift yrði annan hvern dag. Þega við hófum að bjóða upp á svonefndan b-póst árið 2012 leiddi það til þess að við gátum komið á slíku dreifikerfi í þéttbýli. Rétt tæplega 70 prósent af bréfapósti er b-póstur sem við dreifum annan hvern dag. Þessu kerfi erum við búin að koma á meira og minna í þéttbýli um allt land. Við höfum hins vegar ekki náð að koma þessari hagræðingu á í sveitum þar sem skylt er að dreifa pósti alla virka daga vikunnar. Á móti skil ég svo sem auðvitað að það er gríðarlega mikilsvert fyrir bændur sérstaklega að geta hringt í verslun, pantað varahlut fyrir hádegi og verið svo vissir um að fá hann í hendurnar næsta dag, eins og staðan er nú.“ – Kæmi til greina, ef að dregið yrði úr tíðni dreifingardaga, að Íslandspóstur byði upp á þjónustu sem gæti leyst þessi vandamál? „Já, væntanlega væri það hægt. Við höfum ekki farið ofan í það í smáatriðum hvernig það yrði útfært en við skilgreinum okkur sem markaðssinnað fyrirtæki og leggjum okkur fram við að þjónusta kúnna, hvar sem er á landinu. Grundvallaratriðið er aftur á móti það að einhver þarf að vera tilbúinn til að greiða fyrir þjónustuna. Ég svara þessu afdráttarlaust játandi, að við myndum leggja okkur fram um að veita slíka þjónustu.“ Áframhaldandi tap nema gripið verði til aðgerða – Íslandspóstur var rekinn með 119 milljóna króna tapi á síðasta ári. Hvað olli því? Til hvaða aðgerða hyggist þið grípa til að snúa þessum taprekstri við? „Það er alveg borðleggjandi að það verður að gera umtalsverðar breytingar á póstþjónustu. Hún stendur ekki undir sér eins og hún er, og því síður með áframhaldandi minnkandi bréfamagni. Það var tvennt sem þarna hafði áhrif, annars vegar að ekki fékkst leyfi til að hækka verðlagningu á einkaréttarhlutanum eins og við töldum þörf á og hins vegar að ekki fékkst leyfi til að fækka dreifingardögum. Allar aðrar áætlanir okkar gengu eftir.“ – Þetta hefur væntanlega þýtt að það þurfti að ganga á eigið fé fyrirtækisins? „Já, það þýddi það. Við teljum að rekstur fyrirtækisins eigi að skila um 250 milljónum króna í hagnað á ári, til að hann sé ásættanlegur fyrir eigandann. Það er því ljóst að þetta er ekki ásættanleg niðurstaða.“ – Íslandspóstur greiddi ekki arð út úr fyrirtækinu af þessum sökum. Er eðlilegt að fyrirtæki sem Íslandspóstur greiði eigendum sínum arð yfirhöfuð? Ætti ekki fremur að nýta fjármuni til að bæta þjónustu og/eða lækka verð á henni? „Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem leggja stofnfé til hlutafélaga þurfi að fá eðlilegan arð af sínum fjárfestingum, sem samsvari að minnsta kosti því sem þeir hefðu fengið í markaðsvexti. Við horfum í meginatriðum á þrjá hagsmunaaðila í öllum fyrirtækjum. Það eru eigendur, starfsmenn og viðskiptavinir. Öll okkar umsýsla snýr að því að reyna að uppfylla kröfur allra þessara aðila, og þá ekki síst viðskiptavinanna. Þeir eru grundvöllur þess að hægt sé að reka fyrirtækið. Menn þurfa að horfast í augu við það hvernig á að fjármagna lögboðna alþjónustu í póstrekstri. Einhver verður að greiða fyrir þá þjónustu, sem lögin gera ráð fyrir, og það leysist ekki með því að afnema einkarétt af bréfadreifingu. Þetta er lykilspurningin, sem nú þarf að svara, þegar ákvörðun verður tekin um afnám einkaréttar.“ – Hvernig lítur rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár út? Verður áfram gert ráð fyrir hækkun á póstburðargjöldum og fækkun útburðardaga í dreifbýli? „Rekstraráætlunin fyrir árið í ár gerir ráð fyrir að hækka verð, bæði á einkaréttarhlutnum og á samkeppnisvörum. Hún gerir líka ráð fyrir að fækka dreifingardögum. Það sýnist mér ekki geta gengið eftir og því mun fylgja umtalsverður kostnaður. Ef verðbreytingar ganga svo heldur ekki eftir þá verður enn meira tap á rekstrinum á þessu ári en á því síðasta, það eitt er víst. Þar í ofanálag er útlit fyrir að magnminnkun verði enn meiri í ár heldur en í fyrra.“ Starfsfólki fækkað um 500 – Hvers vegna mun ekki ganga eftir að fækka dreifingardögum? „Samkvæmt reglugerðardrögum sem búið var að semja um slíka fækkun átti að taka sex til níu mánuði að koma breytingunni á. Miðað við að það að nú eru liðnir þrír mánuðir af árinu sé ég ekki fram á að slíkt gæti komið til framkvæmda á þessu ári. Ég finn ekki fyrir öðru en að fólk skilji nauðsyn þess að breyta þessu með því að draga úr dreifingu, en það vantar bara að gengið sé í breytingarnar. Sama er um verðlagningu, ég tel að fólk geri sér grein fyrir að hækkanir séu nauðsynlegar til að mæta kostnaðarhækkunum og fækkun bréfa. Ég held að menn horfi til þess að rekstur Íslandspósts hafi gengið býsna vel á undanförnum árum, enda hefur þrátt fyrir þennan gríðarlega samdrátt í bréfasendingum tekist að hagræða og mæta því. Menn hafa ekki þurft að glíma við vanda póstsins fram að þessu. Við höfum varað við því að þessi staða væri að koma upp síðan árið 2009. Evrópulönd eru búin að ganga í gegnum þetta. Við höfum fækkað úr 1.300 starfsmönnum niður í 800 á þessari öld og við höfum aldrei þurft að grípa til meiriháttar uppsagna. Danski pósturinn tilkynnti nokkur þúsund manna uppsögn árið 2010 svo dæmi sé tekið. Þetta er kannski partur af vandamálinu, menn trúa að við getum leyst þetta með liprum hætti, sem fáir verða varir við. Nú erum við ekki lengur í þeirri stöðu. Við erum komin að krossgötum.“ – Pósturinn hefur sótt um að hætta dreifingu á ákveðna bæi en oftast verið hafnað af Póst- og fjarskiptastofnun. Þó hefur oftar en ekki verið fallist á varakröfur fyrirtækisins, þ.e. að lengja þá leið sem ábúendur þurfa að sækja póstinn sinn. Sem dæmi má nefna að árið 2010 voru teknar slíkar ákvarðanir varðandi þrjá bæi á Vestfjörðum, sem nú þurfa að sækja sinn póst um 10 kílómetra vegalengd. Hyggst fyrirtækið halda áfram á þessari braut, að draga úr eða hætta póstdreifingu á bæi sem eru taldir vera utan alfaraleiða? „Þetta er í raun af þrenns konar meiði. Í fyrsta lagi höfum við sótt það mjög stíft að fella niður dreifingu á bæi þar sem ekki er búseta allt árið um kring. Við höfum þurft að greiða fyrir akstur á leiðum sem aldrei eru farnar og það er bara að kasta peningum að mínu mati. Annað er þegar bæir eru langt utan alfaraleiðar. Það er nú orðið mjög fátítt og í flestum tilfellum er búið að staðsetja póstkassa á réttum stöðum þar sem þetta á við. Við höfum horft til þess hver kostnaðurinn er við dreifingu á hverjum stað. Það getur legið á bilinu 1,5 til 1,8 milljón krónur sem við höfum verið að borga fyrir dreifingu á bæi sem eru á miklum jaðarsvæðum og í sumum tilfellum höfum við verið að borga ábúendum fyrir að sækja póstinn sinn. Þriðja er að við höfum reynt að framfylgja því að póstkassar séu staðsettir á stöðum sem að lög og reglur kveða á um. Það eru um 6.000 póstkassar í dreifbýli og fyrir tveimur árum síðan voru um 5.400 þeirra rétt staðsettir. Við fórum í átak til að gera bót á þessu og nú eru á milli 100 og 200 kassar sem enn á eftir að laga staðsetningu á. Við höfum einsett okkur að klára þetta verkefni vegna þess að við teljum að það sé ekki skylda Íslandspósts að útvega póstkassa. Það hefur hins vegar skapast um það hefð. Þegar einkarétturinn fellur niður þá er tilefni til þess að Íslandspóstur hætti þessari umsýslu á póstkössum og dragi þannig úr útgjöldum.“ Ákvarðanir teknar hjá Póst- og fjarskiptastofnun – Í lögum um póstþjónustu kemur fram, í 6. grein, að „Íslenska ríkið skal tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, alþjónustu, með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði“. Hvernig samrýmist það sem nefnt er hér að framan þessum ákvæðum? „Aðgengi að póstþjónustunni, sem þú ert að vísa til, er bundið við það að "hagkvæmt þyki." Slíkur fyrirvari er túlkunaratriði og það er Póst- og fjarskiptastofnunar að taka afstöðu til þess þegar við höfum óskað eftir því að leggja niður pósthús, draga úr dreifingu og svo framvegis. Stofnunin úrskurðar um þessar óskir og þeir sem telja að verið sé að mismuna þeim hafa möguleika á að leita réttar síns hjá stofnuninni. Við förum svo eftir þeim úrskurðum.“ – Hver er almenn framtíðarsýn þín á fyrirkomulag póstþjónustu og rekstur Íslandspósts? „Við verðum mjög vör við það, starfsfólk póstsins, að þetta er þjónusta sem skiptir fólk gríðarlega miklu máli. Ekki síst úti um land. Það þarf að horfa á póstþjónustuna á þessum tímamótum við afnám einkaréttar og ákveða hvernig á að haga henni til frambúðar. Lögum samkvæmt ber að halda þeirri þjónustu uppi og nú er tilvalið tækifæri til þess að endurmeta alla þætti hennar og tryggja það að hún verði veitt í samræmi við þarfir og óskir viðskiptavina.“ /fr Ingimundur segist ekki vita til þess að til standi að einkavæða Íslandspóst. Hann segir að í sjálfu sér standi ekkert í vegi fyrir því, fyrirtækið sé rekið sem hlutafélag og byggi á nákvæmlega sömu grunnreglum og önnur slík félög. Slíkt sé bara pólitísk ákvörðun. Einkaréttur ríkisins Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 50 grömmum að þyngd. Póst- og fjarskiptastofnun veitir rekstrarleyfishafa leyfi til að annast einkarétt ríkisins og skal tryggja að veitt verði fullnægjandi þjónusta um land allt. Íslandspóstur sinnir þessu hlutverki í dag. Boðað hefur verið að einkaleyfi ríkisins falli niður á næstunni vegna ESB-tilskipunar um póstþjónustu. Alþjónusta í pósti Íslenska ríkið skal tryggja öllum landsmönnum aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu á jafnræðisgrundvelli, með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta innifelur aðgang að að póstafgreiðslu og póstþjónustu vegna bréfa, markpósts og dagblaða, vikublaða, tímarita, ábyrgðarsendinga, tryggðra sendinga, fjármunasendinga og blindrasendinga allt að tveimur kílóum og bögglasendinga allt að tuttugu kílóum auk annarra þátta. Við úthlutun rekstrarleyfa fyrir póstþjónustu getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á rekstrarleyfishafa um að þeir veiti alþjónustu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.