Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar erlendis á mjaltatíðni kúa en á sí vaxandi hluta kúabúa eru kýrnar nú mjólkaðar þrisvar á dag en með því að mjólka kýrnar þrisvar á dag má vænta tölu- verðrar framleiðsluaukningar með sömu kúm og sömu aðstöðu. Þá verður júgurheilbrigði oftast betra í fjósum þar sem mjöltum er fjölgað í þrjár í stað tveggja. En það er þó ýmislegt sem þarf að hafa í huga áður en ákvörðun er tekin um að fjölga mjöltunum og ákvörðunin um breyttar mjaltavenjur er ekki endilega alveg einföld og ráðlegt að leita til fagfólks á sviði mjalta áður en ákvörðunin er tekin. Hér verður dregin upp einföld mynd af kostum og göllum þess að mjólka þrisvar á dag. Aukin nyt Í dag finnast ótal rannsóknir á nytaukningu kúa sem mjólkaðar eru oftar en tvisvar á dag og í því sambandi má einnig nefna að meðalnyt kúa í mjaltaþjónafjósum hér á landi er mun hærri en kúa sem mjólkaðar eru með annars konar mjaltatækni. Nytaukningin er reyndar misjöfn eftir nythæð kúnna og virðast afurðahærri kýr skila í raun meiri aukningu en þær sem lægri eru enda eru slíkar kýr yfirleitt með minna spennt júgur en hinar nythærri sé einungis mjólkað tvisvar á dag. Þrátt fyrir mun á meðalafurðum þá má ætíð vænta nytaukningar við það að mjólka þrisvar á dag og má áætla að aukningin gæti legið á bilinu 10-15% og jafnvel hærra á einstaka búum. Þrátt fyrir að fitu- og próteinhlutfall mjólkurinnar frá kúnum lækki venjulega nokkuð við að vera mjólkaðar þrisvar daglega eykst heildarframleiðsla þeirra á verðefnunum í kílóum talið. Kýrnar framleiða s.s. með öðrum orðum meiri fitu og prótein. Lægri tíðni júgurbólgu Ein af ástæðum þess að kýr sem eru mjólkaðar þrisvar á dag fá síður júgurbólgu er talin felast í því að mjólkurvefurinn er tæmdur oftar og um leið skolast oftar út möguleg smitefni júgurbólgunnar. Enn fremur er talið að minni innri þrýstingur júgra, og þá síður lekar kýr, hafi góð áhrif á hringvöðvann í spenaendanum sem þá getur betur lokað á mögulega uppgöngu smitefna. Þá sýna sumar rannsóknir að frjósemi er einnig heldur betri í hjörðum þar sem er mjólkað þrisvar á dag en flestir tengja það við aukna umferð í fjósunum og því bætt eftirlit í fjósum. Bætt nýting mjaltatækja Byggingarkostnaður á Íslandi er mjög hár og trúlega óvíða hærri í Evrópu. Því skiptir sköpum að framleiða sem mesta mjólk á hvern bás í fjósinu og nýta mjaltaaðstöðuna sem allra best. Með því að mjólka þrisvar á dag má sennilega ná þessu takmarki best. Aukin vinna En það eru ekki eingöngu kostir við að mjólka þrisvar á dag. Þegar kýr eru mjólkaðar oftar krefst það nánast alltaf afleysingafólks enda endast ekki margir í því að mjólka á átta tíma fresti allt árið um kring. Margir byrja á þessu í 3-4 mánuði til þess að fá fram áhrif mjaltanna á viðkomandi búi og geta í framhaldi þess reiknað út hve mikið má greiða fyrir vinnuna við að ná í þessa viðbótar lítra með auka mjöltum. Aðrir kostnaðarþættir haldast nokkuð í hendur við aukna framleiðslu eða mjaltatíðnina s.s. át kúnna, rafmagnsnotkun og slit á búnaði. Krefst góðs fóðurs Að bæta við mjöltum er tilgangslítið séu kýrnar ekki tilbúnar í aukna framleiðslu. Eigi svo að vera þarf að fóðra þær vel og með góðu gróffóðri auk kjarnfóðurs. Þá er ekki mælt með því að nota stuttan fóðurgang í fjósum þar sem er mjólkað þrisvar á dag. Þetta er vegna samkeppni kúnna um átplássið en í stað þess að það líði 10-14 klst. á milli mjalta líða 8 klst. sem gerir það að verkum að kýrnar eru oftar „uppteknar“ á sama tíma. Því getur það hæglega gerst að kýr og kvígur sem eru lágt settar fái takmarkað aðgengi að fóðri þegar þær vilja það og getur því bitnað á afurðasemi þeirra. Gæta þarf að vinnubrögðum Reynslan frá dönskum kúabúum sýnir að oft gleymist að breyta um vinnubrögð þegar skipt er úr tveimur mjöltum á dag í þrjár. Eitt af því algengasta sem gerist er að það fer að bera á seigmjólka eða hægmjólka kúm en skýringin er sú að kýr sem eru mjólkaðar oftar en tvisvar á dag þurfa mun meiri örvun til þess að selja frá sér mjólkina. Því þarf að breyta vinnubrögðunum og gefa kúnum bæði meiri þvott og snertingu og gefa þeim heldur meiri tíma þar til mjaltatækin eru sett á en ef mjólkað væri tvisvar á dag. Taka fyrr af kúnum Þegar kýrnar eru mjólkaðar þrisvar á dag eru hverjar mjaltir mun styttri en venjulega þar sem minna er í kúnum við mjaltirnar. Enn fremur er lögð áhersla á það að tæma ekki kýrnar að fullu heldur skilja eftir meiri mjólk í þeim en við mjaltir tvisvar á dag. Þetta er gert til þess að draga úr líkum á því að tómmjaltir fari fram en við tíðar mjaltir valda tómmjaltir miklu meiri skaða en þegar mjólkað er sjaldnar. Það er fyrst og fremst spenaendinn og slímhúðin í spenanum sem geta orðið fyrir skaða vegna þessa og getur afleiðingin verið aukin tíðni júgurbólgu. Til þess að draga úr þessum líkum þarf því að stilla aftakara þannig að þeir dragi tækin fyrr af kúnum en í Danmörku, fyrir Holstein kýr, er miðað við 500 ml flæði. Nota spenadýfu Aukin tíðni á þvotti á spenum áhrif á húðina og spenaendann og sé ekki notuð mýkjandi spenadýfa þá er hætt við að húðin þorni of mikið og í hana og spenaendann geta komið fínar sprungur sem hentar vel fyrir júgurbólgusmitefni að leynast í. Tekur tíma Sé tekin ákvörðun um að breyta um mjaltatíðni þarf fyrst að velja heppilegan tíma. Flestir danskir kúabændur fara í fjós kl. 6 á morgnana, svo kl. 14 og láta svo afleysingafólk sjá um síðustu mjaltirnar kl. 22. Þetta er auðvitað breytilegt á milli búa en þó all algengt viðmið. Þá nýta sumir starfsfólkið í fyrstu tvær mjaltirnar en sjá sjálfir um kvöldmjaltir o.s.frv. Þegar gott tímaflæði er komið á krefst verkefnið allgóðs úthalds. Erlendar viðmiðanir gera ráð fyrir að ekki sé farið í svona breytingar fyrir minna en 6 mánuði. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktardeild Þekkingarsetur landbúnaðarins í Danmörku Mjaltir þrisvar á dag Utan úr heimi Ný skýrsla frá sérfræðihópi IPCC um loftslagsmál: Uppskera á heimsvísu mun dragast saman – Gæti valdið gríðarlegu efnahagstjóni Hlýnun loftslags mun draga úr uppskeru í heiminum um 2% á hverjum áratug og mun valda 1,45 billjóna dollara efnahagstapi við lok þessarar aldar samkvæmt nýrri skýrslu fjölþjóðlegs hóps vísindamanna sem birt var á mánudag. Þetta samsvarar rúmum 163 milljón milljónum íslenskra króna. Skýrslan sem um ræðir er þriggja binda rit Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC), sem er hópur vísindamanna sem allir hafa hlotið Nóbelsverðlaun fyrir sín verk. Þetta rit er fyrsta stóra úttektin sem gerð er frá árinu 2007 um ástæður hlýnunar jarðar og afleiðingar hennar jafnframt því að skoða hvernig eigi að bregðast við. Skýrslan var opinberuð 31. mars, eftir 5 daga fund IPCC sem haldin var í Yokohama í Japan. Fram kemur að hlýnun loftslags muni hafa áhrif á lífríkið um allan heim. 163 billjóna króna tap fyrir efnahagskerfi heimsins Samkvæmt japanska miðlinum Japan today mun í skýrsludrögunum vera tekið dæmi um að ef hitastigið á jörðinni hækki að meðaltali um 2,5 gráður á Celsíus muni afleiðingarnar verða samanlagður samdráttur á uppskeru sem nemur á bilinu 0,2 til 2%. Það muni valda nærri 1,45 billjóna dollara efnahagstapi (1,45 US trillion) miðað við verðmæti brúttó heimsframleiðslu (e. world gross domestic product, GDP) árið 2012. Til að reyna að útskýra þessa tölu samsvarar þetta rúmum 163 milljón milljónum íslenskra króna miðað við gengi dollarans í byrjun síðustu viku (163 billjónum). Land mun tapast vegna hækkunar sjávar og þurrka Þá er sagt að uppskera muni minnka um allt að 2% á hverjum áratug í kjölfar breytinga á regni og aukinna þurrka á ræktarlandi. Þetta gerist þrátt fyrir að eftirspurn aukist um 14%. Hækkandi sjávarstaða vegna bráðnunar jökla er einnig sögð valda því að það flæði yfir ræktarland sem muni neyða hundruð milljóna manna til að hörfa frá strandsvæðum og lengra inn í land. Mest hætta sé á slíku í Austur-, Suður- og Suðaustur-Asíu. Sagt er að skýrsluhöfundar kalli eftir viðbrögðum til að draga úr áhrifum af hlýnun jarðar. Er þar m.a. talað um að gera flóðaspár og hefja rannsóknir á því hvernig eigi að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma. Tíðari hitabylgjur Í fyrstu útgáfu skýrslu IPCC var sagt að meiri vissa væri fyrir því en áður að hlýnun jarðar stafaði af mannavöldum. Einnig að hitastigið muni hækka á bilinu 0,3 til 4,8 °C á þessari öld. Á fundi sem haldinn var í Stokkhólmi í september 2013 var því líka spáð að hitabylgjur og þurrkar yrðu tíðari sem og flóðbylgjur vegna hækkandi sjávarstöðu. Japanski fréttamiðillinn vitnar í Christiana Figueres, sem er yfirmaður málefna loftslags mála hjá Sameinuðu þjóðunum, sem segir að þessi niðurstaða Stokkhólsfundarins væri viðvörunarbjalla fyrir heimsbyggðina. „Til að forða mannkyninu frá hættunni, verða ríkisstjórnir að grípa til tafarlausra aðgerða og gera samning á árinu 2015 um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.“ Á 25 ára starfstíma sínum hefur IPCC-nefndin fjórum sinnum birt aðvaranir sem hafa verið með sífellt harðari tón. /HKr. Með núgildandi lögum í Noregi nýtur þarlent ræktunarland lítillar lagaverndar. Norsku bændasamtökin (Norges Bondelag) hafa áhyggjur af þeirri stöðu mála. Jarðvegur er undirstaða fram- leiðslu flestra matvæla og fóðurs úr jurtaríkinu, hvort sem er til matargerðar eða fóðurs fyrir búfé. Aðeins um 3% af flatarmáli Noregs er nú ræktað og einungis þriðjungur af því er hæfur til kornræktar til manneldis. Möguleikar til nýræktar eru því litlir í landinu. Veðurfarsráð Sameinuðu þjóðanna spáir því að veðurfar fari nú hlýnandi á Jörðinni. Þurr landsvæði víða um heim mega vænta enn meiri þurrka, en í Noregi aftur á móti aukinnar og kröftugri úrkomu. Þessi þróun mun gera stórauknar kröfur til matvælaframleiðslu á heimsvísu. Þar er Noregur ekki undanskilinn. Um þessar mundir framleiða Norðmenn um helming af fæðuþörf þjóðarinnar, þar með talið fiskmeti. Þjóðinni fjölgar nú hraðast allra Evrópuþjóða, en veikar reglur um vernd ræktunarlands draga úr hlut innlendra matvæla í fæðuþörf hennar. Mikilvægt atriði í því sambandi er að ræktunarland í Noregi fer nú minnkandi. Frá árinu 1993 hafa 1.000 ha af ræktunarlandi og 600 ha af ræktanlegu landi verið teknir til annarra nota. Einn hektari af matkorni (10.000 fermetrar) skilar hráefni til að bökunar á 10 þúsund brauðum. Þessi samdráttur gerist á sama tíma og Norska Stórþingið lýsir því yfir að samstaða sé í landinu um að auka matvælaframleiðslu til eigin þarfa. Eitt af þeim málum, sem kallar á úrlausn varðandi nýtingu ræktunarlands, er að besta ræktunarlandið er að finna í grennd við þéttbýli, þar sem jarðvegur er frjósamur og land vel fallið til ræktunar. Þar er hins vegar mest eftirspurn eftir landi til annarra nota, svo sem íbúðabygginga og atvinnustarfsemi. Sveitarstjórnir þurfa þarna að gæta ýmissa hagsmuna en þar vill útkoman ósjaldan verða sú að hagsmunir ræktunar verða undir í samkeppni við aðrar þarfir samfélagsins. Samtökin leggja því áherslu á að ræktunarland, skuli njóta víðtækrar réttarverndar og meginreglan verði sú að bannað sé að taka ræktunarland undir aðra notkun. /Nationen, 27. febr. 2014/ME Slök jarðvegsvernd dregur úr matvælaöryggi

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.