Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 45

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 45
45Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Bændablaðið Smáauglýsingar 56-30-300 Hafa áhrif um land allt! Lesendabás Við lifum nú miklar breytingar á atvinnuháttum landsmanna. Í kjölfar velheppnaðs markaðsstarfs og utanaðkomandi áhrifa hefur vöxtur í ferðaþjónustu verið með nokkrum ólíkindum síðustu ár. Ekki einasta hefur gestum sem sækja landið heim fjölgað verulega frá ári til árs heldur er að takast að jafna árstíðasveiflu umtalsvert. Enn sem komið er á það einkum við um suðvestur hluta landsins en breytingar í þessa átt eru einnig umtalsverðar annars staðar. Fátt bendir til annars en þessi þróun haldi áfram. Það að ferðaþjónustan hefur vaxið frá því að vera þriðja stærsta greinin, hvað varðar öflun gjaldeyris, fyrir fimm til tíu árum í það að vera stærsta greinin á síðasta ári bendir ekki til annars en innan 10 ára verði hún langstærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsmanna. Vaxandi fjöldi heilsársstarfa í ferðaþjónustu á landsbyggðinni mun styrkja mjög mannlíf og treysta byggð. Var stofnun hlutafélagsins mistök? Fyrir rúmum fjörutíu árum var Ferðaþjónusta bænda stofnuð. Félagsskapurinn mótaðist á næstu árum líkt og greinin sjálf, menn voru að læra og urðu að aðlaga starfsemina breyttum tímum hverju sinni. Vafalaust var ekki allt rétt gert en engin ástæða til að efast um góðan hug stjórnar og starfsmanna hverju sinni. 1990 var tekin ákvörðun um að gera rekstur söluskrifstofunnar að sérstöku hlutafélagi (FB hf) í eigu einstakra ferðaþjónustubænda, lykilstarfsmanna og Félags ferðaþjónustubænda (FFB) sem stofnað var tíu árum fyrr sem hreint hagsmunafélag sbr. önnur búgreinafélög. Í stað þess að virkir ferðaþjónustubændur væru aðaleigendur hlutafjár í félaginu hefur reyndin orðið sú að drjúgur hluti hlutabréfa félagsins er nú í eigu fyrrverandi starfsmanna og fyrrverandi ferðaþjónustubænda og stærstur hluti virkra ferðaþjónustubænda er utan hluthafahópsins. Lög um hlutafélög gera einfaldlega ekki ráð fyrir að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að var stefnt í upphafi, þ.e. um dreifða aðild virkra ferðaþjónustubænda, með þessu félagsformi. Til þess hentar samvinnufélagsformið fullkomlega en það var víst að detta úr tísku þegar ráðist var í þessar breytingar fyrir 15-20 árum. Við stöndum því frammi fyrir þeirri óyndis staðreynd að tugir og sennilega hundruð milljóna hafa safnast í eigið fé hlutafélagsins um rekstur skrifstofunnar. Arður af þessu fé rennur að minnstum hluta í vasa virkra ferðaþjónustubænda þó tilkoma arðsins sé væntanlega að mestu leyti tilkomin með því að hafa sem mesta mun milli innkeyptrar og útseldrar vöru þ.e. gistinátta ferðaþjónustubænda. Lengi hefur verið rekinn áróður fyrir því að þetta sé allt gott og blessað vegna þess að Félag ferðaþjónustubænda, og þar með allir virkir ferðaþjónustubændur, eigi allt að þriðjungs hlut í rekstrarfélaginu og fái þannig þriðjung arðsins. Þó ég kysi sjálfur að þessum arði væri ráðstafað til baka til ferðaþjónustubænda í hlutfalli við viðskipti (eins og auðvelt væri að gera í samvinnufélagi) þá má færa rök fyrir því að æskilegt geti verið að verja sameiginlegu fé til styrktar starfseminni. Það hefur vissulega verið gert með margvíslegum hætti en þó eru allar fasteignir, og ekki síst Gistibókin sem er bókunarforrit sem margir ferðaþjónustubændur nota, alfarið í eigu skrifstofunnar. FFB á hins vegar vörumerkið. Breyttir tímar kalla á breytingar Mörkin milli FFB og FB hf varðandi þátttöku í markaðsstarfi hafa löngum verið fremur óljós. En í ljósi þess að eigið fé hlutafélagsins hefur vaxið verulega á síðustu árum og svo þess að ekki verður séð að fjöldi seldra gistinátta í gegnum skrifstofu FB hf hafi aukist í neinu samræmi við aukningu ferðamanna undanfarin misseri, vaknar spurningin um tilgang og gildi félagsskapar ferðaþjónustubænda. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bókanir einstaklinga hafa í mjög auknum mæli færst inn á bókunarsíður á netinu. Fáar heimsþekktar síður virðast ráðandi á þessum markaði og e.t.v. þess vegna hefur vefsala FB hf reynst nær algjörlega misheppnuð. Gera verður ráð fyrir að þróun í bókun gistingar verði áfram með þessum hætti. Því vaknar spurningin hver verði í framtíðinni aðalávinningur af samstarfi okkar ferðaþjónustubænda. Ég og fleiri höfum talið að afþreying og upplifun gesta af landi og þjóð verði helsta sameiginlega söluvara okkar dreifbýlinga, fremur en sala á gistingu og veitingum, þegar til lengri tíma er litið. Ég er hins vegar ekki endilega sannfærður um að samvinna ferðaþjónustubænda í dreifbýli sé hinni eini og sanni samstarfsgrundvöllur. Nú þegar hefur fjöldi manna í bæjum og þorpum allt í kringum landið atvinnu af ferðaþjónustu og vel má vera að aukin samvinna eftir svæðum eða tegundum afþreyingar vegi þyngra en búseta í dreifbýli ein og sér. En vilji ferðaþjónustubændur á annað borð halda samstarfi sínu áfram tel ég einsýnt að breyta verði um áherslur. Ekki einasta tel ég nauðsynlegt að algjörlega verði skilið á milli hlutafélagsins og Félags ferðaþjónustubænda heldur verði ferðaþjónustubændur að ráða til sín markaðsfólk til að þróa vörur og efla heilsársferðamennsku. Núverandi stjórnir FFB og FB hf virðast ekki deila þessari framtíðarsýn með mér. Spurningin er hins vegar hvað hinn almenni félagsmaður sér fyrir sér og sættir sig við. Stefán Tryggvason, Hótel Natur, Þórisstöðum, Eyjafirði Datt það í hug er hér kom með póstinum Umburðarbréf til ræktenda landnámshænsna að við ættum ekki að ákveða þetta svo, að hér væru aðeins norræn víkingahænsn. Á árunum 1965 til 1971 og svo aftur 1980 til 1984 starfaði ég mikið í syðstu hreppum Suður- Múlasýslu og stundum alla leið vestur í Öræfi. Í hverri sveit voru húsfreyjur sem héldu þessi fallegu hænsn sem voru bæjarprýði. Ekki voru hænsnin mörg á bæ, yfirleitt mjög gæf og forvitin en ekki minnir mig til að hafa séð hana með blöðrukamba heldur voru þeir bísperrtir með fallegan stóran kamb og manndrápsspora. Þeir gátu ógnað manni ef maður ætlaði að góma hænu úr hópnum og stundum fékk maður góða sögu um að hanar hefðu hjólað í nágrannann eða hundinn og sumar þar sem þeir hefðu slasað og þá einkum börn. Á þessum tíma og fyrr var verið að leita að Gullskipinu svokallaða á söndunum. Þetta voru stórar galleónur á leiðinni frá Suður-Ameríku til Spánar eða Portúgals. Um borð í þessum skipum voru hænsnabú með allt upp í 200 hænur er sáu áhöfninni fyrir nýmeti. Svo má leiða líkur að því að einhver skip hafi farist við suðurströndina og að hænsn af þeim hafi komist í land lifandi og búalið hirt þau sem og annað rekagóss og fært heim á bú sitt. Því tel ég að í þessum fallegu hænsnum okkar sé líklega suður- amerískt bardagahænsnablóð og gaman væri að fá upplýsingar úr genabanka frá S-Ameríku og bera saman. Af hverju varðveittust þessi hænsn svo vel í Suður-Múlasýslu og A-Skaftafellssýslu? Allavega var það ekki samgönguleysið! Örn Þorleifsson, fyrrverandi héraðsráðunautur hjá BSA. http://www.visindi.is/grein/ fornleifafraedingar_i_fjarsjodsleit Á Ferðaþjónusta bænda framtíð fyrir sér? Spænsk bardagahænsn! Horft út Eyjafjörð frá Hótel Natur og gömul landbúnaðartæki til sýnis. Mynd/HKr. Sigríður Aðalsteins- dóttir á Strandseljum við Ísafjarðardjúp sendi Bændablaðinu þessar vísur síðla á síðasta ári. Sigríður ólst upp á Laugabóli í Laugardal og eru vísurnar frá sjónarhóli hennar á Strandseljum þar sem hún lýsir ævi sinni í hnotskurn. Bændablaðið þakkar henni sendinguna og biður hana velvirðingar á því að ljóðið hafi beðið birtingar svo lengi. Við mér blasir bærinn minn, svo bjartur dals í skjóli. Héðan leitar hugurinn, heim að Laugabóli. Örlaganna blær mig bar burt og vanga strýkur, En ég veit að sálin sveimar þar, seinna er ævi lýkur. Nú á ég hér heima á illviðra strönd, þar sem æðandi stormurinn þýtur um lönd Hér leiðir mig almættis algóða hönd, uns að endingu rofna mín jarðsambönd. Hugurinn leitar heim að Laugabóli Íbúðarhúsið á Laugabóli í Laugardal við Ísafjarðardjúp fyrr á árum, en þar ólst vísnahöfundur upp. Þessi mynd var tekin af Laugabóli í ágúst 2012. Þar býr Ragna Aðalsteinsdóttir. Mynd/HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.