Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 03.04.2014, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. apríl 2014 Fréttir Stundum virðumst við gleyma því að tíminn er takmörkuð auðlind. Enginn er maður svo máttugur að geta stöðvað tímans hjól eða fjölfaldað sjálfan sig til að nýta sama tímann oft eða að vera á mörgum stöðum í einu. Flestir upplifa að þeir hafi ekki tíma til að koma öllu í verk sem þeir óska sér hvort sem það er tengt vinnu, félagsstarfi, áhugamálum eða samskiptum við annað fólk. • Sannleikurinn er sá að eitt af því sem er alveg öruggt í tilverunni hér á þessari jörð er tíminn. Klukkustundirnar í sólarhringnum eru þekkt stærð og það sem meira er hér ríkir algjört jafnrétti, við höfum öll jafn mikinn tíma á meðan við erum á lífi. Við getum öll notið lífsins í 24 klukkustundirnar á sólarhring og 168 klukkutíma á viku. Enginn fær fleiri klukkustundir en annar. Samt segja sumir að þeir hafi engan tíma og að það sé alltaf brjálað að gera. Þeir eru sífellt að barma sér yfir tímaleysi eða mikla upp sinn eigin tímaskort. Hvað þýðir það eiginlega? Er ekki í raun kjánalegt og sjálfmiðað að kvarta sí og æ yfir tímaleysi. Við höfum jú öll sama tímann á hverjum degi, í hverri viku og hverjum mánuði. Tímaskortur verður til vegna þess að við yfirhlöðum lífsvagninn okkar, viljum engu sleppa, höfum ekki bein í nefinu til að segja nei, hvorki við okkur sjálf né aðra og ekkert svigrúm fyrir það óvænta í lífsdansinum. • Þeir sem eru að bugast af tímaskorti þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að tíminn er takmörkuð auðlind, hann er alveg þekkt stærð og hvorki umsemjanlegur né teygjanlegur. Tímastjórnun snýst í einfaldri mynd um að ná taki á eigin hugsun og hegðun þannig að við njótum tímans í stað þess að hafa sífellt áhyggjur af því að okkur vanti hann. Til þess þurfum við að setja mörk og skipuleggja okkur á skynsamlegan hátt í stað þess að bæta í tímapottinn þó þegar flæði upp úr. Höfum hugfast að ef við upplifum sífellt tímapressu veldur það viðvarandi streituástandi sem er afar óhollt bæði fyrir líkama og sál. Viðvarandi streita virkar eins og gróðrarstía fyrir önnur heilsufarsvandamál, bæði líkamleg og andleg. Ef þú upplifir að þú hafir ekki stjórn á tíma þínum og hlaupir í gegnum lífið yfirkeyrður, spenntur og stressaður er mál að staldra við og hugsa sinn gang. Sumir sækja í að vera allt í öllu eða ætla sér um of vegna þess að það þá hafa þeir á tilfinningunni að þeir séu ómissandi, mikils virði, vel metnir eða að litið sé upp til þeirra. Höfum þá í huga ljóðlínu Magnúsar Eiríkssonar, kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk. • Auðvitað er mikilvægt að leggja sitt af mörkum bæði í vinnu, einkalífi og samfélaginu en þetta er þinn tími og hver klukkustund kemur aðeins einu sinni. Núna, strax í dag er kjörið að líta aðeins á eigin tímastjórnun. Hvernig nýtur þú tímans sem þú til umráða á hverjum degi? Hvert er svigrúmið? Í hvað ertu að ráðstafa tímann í vinnunni og utan hennar? Hjá flestum taka föst störf ákveðin tíma og mörg þeirra viljum við hafa áfram á sínum stað en ef til vill ekki öll. Skoðaðu málið. Er hægt að stytta þann tíma sem þú nýtir við þau störf á búinu eða í annarri vinnu sem gefa þeir minnsta ánægju eða eru mest slítandi? Til dæmis með einhvers konar tækni, hagræðingu eða samvinnu? Er hægt að breyta einhverju í hversdeginum á heimilinu þannig að minni tími fari í endurtekna hluti sem ekki skapa þér uppbyggilega ánægju? Hvernig er með félagslíf og félagsstarf? Félagsleg heilsa er mikilvæg og þess vegna er rétt að skoða hvernig þú verð tíma þínum í félagslífi, er hann gefandi og hæfilegur? Er saumaklúbburinn, kóræfingin, fundurinn, spjallið við bóndann á næsta bæ skemmtilegt og uppbyggjandi? Er það þess virði að nýta takmörkuðu auðlindina þína, tímann í það? • Gleymum því ekki að við erum öll einstök og þurfum ekki að kjósa að nýta tíma okkar á sama hátt og fólkið á næsta bæ. Við erum frjáls og sjálfstæð og þetta er okkar líf. Skoðum daginn og verkefnin með alveg opnum huga, glöggu gestsauga. Einn af lyklum hamingjunnar er að hlaða ekki svo miklu á dagana sína að við gleymum að njóta tímans og förum eingöngu að nota hann, alveg upp til agna. Annar lykill felst í því að hafa alltaf bæði daglega og vikulega tómar stundir á dagskrá, ekki tómstundir heldur tómar stundir. Til þess bara að vera til og og eiga tímarúm til að ráðstafa í núinu. Stundir sem við getum nýtt í takt við daginn, bara þegar að honum kemur. • Staðreyndin er sú að ef við upplifum okkur með yfirfulla dagskrá, bundin í báða skó, öllum stundum er ekkert eftir til að grípa óvænta töfra dagsins. Ekkert eftir fyrir nú framtíðardagsins, þegar það kemur, viljum það? Það er sífelld áskorun að leika sér á jafnvægislínunni í dansi lífsins, ekki of mikið ekki of lítið bara mátulegt... og nú er ég bókuð hjá tannlækninum mínum eftir korter, löngu ákveðið stefnumót sem tekur sinn tíma af 24 klukkustundum þessa sólarhrings, engin fjölföldun í boði, ég verð að mæta. Heimildir: J. S. Beck og R. B. Noyes. Listin að lifa – geðheilsa Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur Tíminn Erindi um landbúnaðartengda ferðaþjónustu á Landsýn: Ferðaþjónusta þrífst best í öflugu samfélagi – segir Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands Landsýn, Vísindaþing land- búnaðarins, var haldið á Hvanneyri 7. mars síðastliðinn. Þar fluttu þær Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Arnheiður Hjörleifsdóttir, ferða- þjónustubóndi á Bjarteyjar sandi á Hvalfjarðarströnd, erindi um landbúnaðartengda ferðaþjónustu. Þær eru báðar umhverfisfræðingar og sauðfjárbændur og hafa starfað saman að nokkrum verkefnum á þessu sviði á undanförnum árum. Í erindinu fóru þær yfir stöðu landbúnaðartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi í dag, tóku innlend og erlend dæmi og horfðu til framtíðar. Ferðaþjónustan stendur frammi fyrir mörgum áskorunum Þar kom fram að ferðaþjónusta á Íslandi er vaxandi atvinnugrein og mikilvæg með tilliti til gjaldeyris- og atvinnusköpunar. Spár gera ráð fyrir enn frekari fjölgun ferðamanna til landsins næstu ár og því að mörgu að hyggja varðandi uppbyggingu innviða og þjónustu í tengslum við þennan vöxt. Ferðaþjónustan er tiltölulega ung grein á Íslandi og í raun ekki svo ýkja langt síðan Íslendingar fóru sjálfir að ferðast að einhverju ráði – hvort heldur um eigið land eða um önnur lönd. Þessi unga atvinnugrein stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum og er nærtækast í því samhengi að vísa til mikillar umræðu um þolmörk svæða og gjaldtöku á ferðamannastöðum. Ragnhildur hefur sjálf farið með hópa innlendra og erlendra gesta í sögufylgd um Snæfellsnes í mörg ár og hefur tekið þátt í mörgum verkefnum sem miða að því að efla svæðið. Þar má nefna vinnu að Svæðisgarði á Snæfellsnesi (svaedisgardur.is). Þar er um sóknaráætlun að ræða þar sem sveitarfélög, fulltrúar atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka leggjast á eitt við að efla lífsgæði og atvinnulíf. „Snæfellingar hafa um nokkurt skeið unnið að eflingu byggðar og sjálfbæru samfélagi. Heimamenn úr sveitunum á sunnanverðu Snæfellsnesi, frá Hítará að Hellnum, hittast til dæmis aðra hverja viku og vinna að verkefnum um sitt heimasvæði, safna upplýsingum og finna leiðir til að nýta þessa þekkingu til uppbyggingar og nýsköpunar í ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Ragnhildur um þetta verkefni. „Landbúnaðartengda ferða þjónustu er hægt að skilgreina einfaldlega sem „ferðaþjónustu sem tengd er landbúnaði“,“ segir Ragnhildur þegar hún er beðin um að útskýra hugtakið. „Í flestum tilfellum er um að ræða reynslu eða upplifun af því að heimsækja bóndabæ eða annað landbúnaðartengd fyrirtæki þar sem tilgangurinn er fræðsla, skemmtun, afþreying eða einhvers konar þátttaka í því sem fram fer. Það er hægt að markaðssetja frið og ró þótt það hljómi eins og þversögn. Hægt er að bjóða upp á ferskan, árstíðabundinn mat og innsýn í líf sem annars væri mörgum algerlega ókunnugt.“ Samvinna í samkeppni Í erindi þeirra stallsystra kom fram að ferðaþjónusta þrífist best í öflugu samfélagi með sterka innviði. Algengt sé að fólk fari út í ferðaþjónustu til að viðhalda ákveðnum lífsstíl, til að geta lifað af áhugamáli sínu eða til að skapa sér búsetugrundvöll á tilteknu svæði. Ferðaþjónusta hefur skapað eftirsóknarverð störf víða um land og leitt til fjölbreyttari þjónustu sem landsmenn geta nýtt sér. En hvaða framtíðarsýn hefur Ragnhildur fyrir greinina – eru til að mynda einhver tækifæri fyrir nýja þjónustu? „Með aukinni samvinnu milli ferðaþjónustuaðila og annarra atvinnugreina kæmi meiri kraftur í vöruþróun. Eftirspurn eftir landbúnaðartengdri ferðaþjónustu er til staðar og ferðaskipuleggjendur eru í auknum mæli að nýta sér það sem er í boði og þróa nýjar vörur og þjónustu. Heimagisting, hestaleigur, húsdýragarðar, gönguferðir og margt fleira getur flokkast sem liður í landbúnaðartengdri ferðaþjónustu. Smalahundasýningar eru gott dæmi um spennandi nýsköpun og svo má nefna Green Care, sem er í mikilli sókn víða erlendis, en það er samstarf bænda við dvalarheimili eða sjúkrastofnanir. Það liggja mörg tækifæri í því að tvinna betur saman landbúnað og ferðaþjónustu. Nokkur íslensk dæmi og mörg erlendis frá má finna um vel heppnuð verkefni og af þeim má læra. Það verður að byggja á sjálfbærum grunni og hugmyndafræði umhverfisvænnar ferðaþjónustu, leggja áherslu á dýravelferð, sjálfbærni, fræðslu, fagmennsku og samvinnu í samkeppni. Uppbygging í ferðaþjónustu þarf líka að nýtast íbúum. Við eigum að byggja á sérstöðu Íslands og hvers svæðis. Sem dæmi má nefna náttúruna, jafnrétti, menningu og sögu og síðast en ekki síst litríku búfjárkynin sem hafa verið hér allt frá landnámi.“ Rætt hefur verið um að búa til formlegan samstarfsvettvang um landbúnaðartengda ferðaþjónustu. Ég skora hér með á stjórn Ferða- þjónustu bænda, Beint frá býli og Opins landbúnaðar að búa til ákveðinn verkramma fyrir samstarf. Skólarnir eru í fræðsluhlutverki og mikilvægt að virkja bæði Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum enn betur á þessu sviði.“ /smhRagnhildur fræðir hóp á Búðum árið 2011. Ragnhildur Sigurðardóttir Fréttabréf Sláturfélags Suðurlands: Góð afkoma SS skilar bændum 2,7 prósenta viðbót Í nýútkomnu fréttabréfi Slátur- félags Suðurlands (SS) er fjallað um afkomu félagsins á liðnu ári. Samstæða SS skilaði 572 m.kr. hagnaði fyrir skatta sem er besta afkoma í 107 ára sögu félagsins og 22 m.kr. betri afkoma en fyrra ár. Vegna hinnar góðu afkomu verður bændum greitt 2,7 prósenta viðbót á afurðaverð liðins árs. Stjórn félagsins samþykkti í fyrra svokallaða viðbótarstefnu sem felur í sér að 30 prósent af afkomu félagsins verður greitt til eigenda og innleggjenda. Þetta er gert með þeim hætti að fyrst er greitt í lögbundna sjóði auk vaxta á A deild stofnsjóðs og verðbóta og arðs á B deild. Það sem umfram er upp í 30 prósent af hagnaði er greitt til bænda, sem viðbót á innlegg liðins árs. Félagið hefur undanfarin þrjú ár skilað mjög góðri afkomu. Efnahagur félagsins er traustur, með yfir 50 prósent eiginfjárhlutfall, og mjög sterka greiðslustöðu. Eldi nauta – tilraunasamstarf við danskt fóðurfyrirtæki SS hefur hrundið af stað tilrauna- verkefni í samvinnu við danska fóðurfyrirtækið Dlg, til að komast að niðurstöðu um það hvort og þá hver ávinningurinn sé af kraftmeiri fóðrun á íslenskum nautkálfum. Ástæða þess að ráðist er í verkefnið er knappt framboð á nautakjöti undanfarin ár. Er kjötskorturinn einkum rakinn til þess að skortur hefur verið á mjólk sem leiðir af sér að bændur halda kúm tímabundið lengur. Þá er ekki næg arðsemi af eldi, eins og það er stundað, og hefur það líka haft áhrif á kjötframboðið. Samkvæmt gögnum frá danska fóðurfyrirtækinu Dlg, sem SS vinnur með, þá eru danskir holdagripir að skila að jafnaði 300 kg fallþyngd á 12 mánaða elditíma með þrískiptri fóðrun. Það er svipuð fallþyngd og meðalþyngdin er í úrvalsflokki holdablendinga úr 24 mánaða eldi. Óskað er eftir fimm bændum sem vilja taka þátt í þessari rannsókn. Rannsóknin verður með þeim hætti að hver bóndi þarf að geta haft aðskilda hópa með fimm til tíu kálfum sem eru fæddir á svipuðum tíma. Öllum gripunum verður slátrað að loknu 12 til 14 mánaða eldi. Með þessum hætti má fá samanburð og reikna ávinning af kjarnfóðurgjöf ef ávinningur kemur fram. Jafnframt sést hvernig íslenskir nautkálfar vaxa í samanburði við erlend holdakyn. Bændum sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari tilraun er bent á að senda tölvupóst til Elíasar Hartmanns Hreinssonar deildarstjóra búvörudeildar SS í netfangið elias@ ss.is. /smh

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.