Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. maí 2014
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600.
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is
Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is
Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Ísland er auðugt land á margan
hátt og þá ekki síst þegar kemur
að möguleikum á framleiðslu á
vistvænni orku. Því er hreint með
ólíkindum að við skulum ekki bera
gæfu til að nýta þá orku til að
stórefla framleiðslu á vistvænum
afurðum á borð við tómata. Þess
í stað er hafin stórsókn í að eyða
dýrmætum gjaldeyri í að flytja
inn tómata til að anna sívaxandi
eftirspurn.
Höfum við virkilega ekkert lært
af efnahagshruninu? Erum við
virkilega svo vitlaus að halda að
verðmætin verði til í bönkunum og
að það kosti ekkert að nota erlendan
gjaldeyri sem að mestu er tekinn að
láni?
Eins og Bjarni Jónsson,
framkvæmdastjóri Sambands
garðyrkjubænda, hefur margsinnis
bent á stendur slagurinn um
það að stórnotendur á raforku á
borð við ylræktarbændur njóti
stærðarhagkvæmni í innkaupum á
raforku. Þrátt fyrir áralanga baráttu
íslenskra garðyrkjubænda eru þeir
enn að greiða orkuverð sem er
langt frá því að vera viðunandi. Þó
er alls ekki verið að fara fram á að
ylræktin njóti sömu hlunninda og
erlend stóriðjufyrirtæki sem hér
starfa. Þegar útlendir stóriðjufurstar
koma að borðinu leggjast íslenskir
stjórnmálamenn hins vegar marflatir
og bjóða fram ómælda meðgjöf.
Nýverið greindi Bjarni frá þeirri
ótrúlegu staðreynd að innflutningur
á tómötum jókst um heil 75% á árinu
2013. Á sama tíma minnkaði innlend
tómataframleiðsla um 9% vegna
þess hversu orkuverðið er hátt.
Það samsvarar nú um 20-30% af
rekstrarkostnaði við framleiðsluna.
Finnst Íslendingum þetta í alvöru
vera í lagi?
Á meðan ekki er skilningur
á að efla íslenska framleiðslu á
matvælum þrátt fyrir fallegar ræður
þar um á tyllidögum verða menn
líka að átta sig á því að án aukinnar
innanlandsframleiðslu stefnum
við þjóðfélaginu enn á ný lóðbeint
fram af hengiflugi. Við kaupum ekki
endalaust vörur frá útlöndum fyrir
peninga sem við eigum ekki til.
Peningar eru ekkert annað en
ávísun á framleiðsluverðmæti og
það er alveg ljóst að þau verðmæti
eru ekki búin til í bönkunum þó
að annað mætti ætla af nýjustu
fréttum. Þar voga menn sér að
varpa fram hugmyndum um að
byggja nýjan loftkastala yfir
starfsemi Landsbankans! Samt er
sagt að Íslendingar hafi ekki efni á
að reisa nýjan Landspítala. Allt er
þetta þó reiknað upp úr sömu vösum
almennings. Getur verið að menn
telji þetta eðlilegt? /HKr.
Með ólíkindum
LOKAORÐIN
Tími þess nýja
Nú hefur veturinn látið undan síga fyrir vorinu.
Það er alltaf skemmtilegur tími í sveitum þegar
grænkar á ný. Vorverkin felast meðal annars í
því að huga að girðingum ástandi túna, vinnslu
og sáningu í flög og fleira. Hjá sauðfjárbændum
er sauðburður víðast hvar hafinn eða að hefjast
með tilheyrandi vökunóttum. Sauðburðurinn
er mesti álagstími í sauðfjárræktinni en samt
líka einn sá ánægjulegasti að flestra mati, þó
dagarnir séu langir.
Mikilvægt að hafa áfallasjóð
Í fyrravor varð mikið kal í túnum norðan- og
austanlands. Margir bændur urðu þá fyrir verulegu
tjóni og þurftu að endurrækta tún og afla sér fóðurs
annars staðar. Bjargráðasjóði voru þá tryggðir
fjármunir til að greiða bætur og fyrir það ber að
þakka. Það skiptir verulegu máli að fyrir hendi sé
sjóður til að mæta áföllum sem þessum og öðrum
náttúruhamförum, hvort sem þau bitna sérstaklega
á bændum eða öðrum. Nú er í smíðum frumvarp í
forsætisráðuneytinu um svokallaðan Hamfarasjóð
sem m.a. er ætlað að endurskipuleggja tjónabætur
vegna náttúruhamfara. Miklu máli skiptir að
þar verði hugað að því sem upp getur komið í
landbúnaðinum.
Sem betur fer eru vísbendingar um það núna
að þessi áföll muni ekki endurtaka sig nú í vor.
Það er auðvitað ekki fyllilega ljóst ennþá, þar sem
tún eru enn víða undir snjó, en það sem þegar
liggur fyrir bendir ekki til þess að tún komi illa
undan vetri. Helstu kalskemmdir sem komnar
eru ljós núna virðast vera á knattspyrnuvöllum
á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi gengur vel að
koma því í samt lag þó að þar verði líklega að
nota önnur ráð en við endurræktun túna.
Tjón af völdum álfta og gæsa
Búnaðarþing 2014 ályktaði meðal annars um
tjón sem álftir og gæsir valda á ræktarlöndum
bænda. Í ályktuninni er meðal annars farið
fram á að safnað verði frekari upplýsingum
um tjónið og á grundvelli þeirra gagna verði
ákveðið hvort heimildarákvæði verði sett í
lög um tímabundna skotveiði á álft og gæs í
tilraunaskyni á ræktarlöndum bænda.
Þetta mál sem ítrekað hefur verið til umræðu
á búnaðarþingi er nú komið í fastari farveg
en áður og samráðshópur Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytis, Umhverfisráðuneytis,
Umhverfisstofnunar og Bændasamtaka Íslands
hefur ákveðið að þegar í vor skuli safnað með
skipulegum hætti upplýsingum frá bændum um
tjón af völdum þessara fugla. Samstaða hefur
náðst um að nýta Bændatorgið, rafræna gátt
bænda til þess að safna þessum upplýsingum
og að þær verði greinanlegar með sama hætti og
aðrar upplýsingar um ræktun og tjón.
Nú er afar mikilvægt að bændur skrái
skipulega hjá sér það tjón sem þeir verða fyrir
og komi þeim upplýsingum inn á Bændatorgið
þegar opnað hefur verið fyrir skráningu þar, sem
vonandi verður í júní. Skráning bænda á þessu
tjóni er alger forsenda fyrir þeim aðgerðum sem
stjórnvöld kynnu að ráðast í, í framhaldinu,
hugsanlegum bótum, eða sérstöku leyfi til
fælingar.
Landbúnaðarfjölskyldan
Að undanförnu hefur verið unnið að því að
stofna samtökin „Landbúnaðarklasann“. Hvað
felst í því kann einhver að spyrja. Verkefnið á sér
fyrirmynd í Sjávarklasanum sem starfað hefur
um nokkurra ára skeið og markmið þess er að ná
saman fyrirtækjum og félögum sem starfa beint
og óbeint við landbúnað. Auk bænda sjálfra er
afar fjölbreytt starfsemi tengd landbúnaði. Fyrst
má þar auðvitað telja afurðafyrirtækin sem taka
á móti afurðum bænda, vinna úr þeim og dreifa
þeim á markaði heima og erlendis í framhaldinu.
Fjölmargir þjónustuaðilar byggja jafnframt
starfsemi sína á landbúnaði að meira eða minna
leyti. Þar má til dæmis nefna vélasala, fóðursala,
áburðarsala og aðra sem annast sölu og dreifingu
aðfanga í landbúnaði. Þá eru ótaldir fjölmargir
þjónustuaðilar sem tengjast greininni beint
eða óbeint, svo sem dýralæknar, iðnaðarmenn,
fyrirtæki í matvælarannsóknum og margt fleira.
Til viðbótar starfa margskonar félög í greininni,
búgreinafélög, svæðisfélög eða ræktunarfélög.
Tilgangur klasans er að draga fram þá
fjölbreyttu starfsemi sem tengist landbúnaðinum
og vinna að sameiginlegum hagsmunum
greinarinnar. Verkefnisstjórn undir forystu
Haraldar Benediktssonar, fyrrverandi formanns
BÍ, hefur starfað frá því í haust að undirbúningi.
Verkefnisstjórnin hefur þegar haft samband við
nokkurn fjölda fyrirtækja og samtaka. Undirtektir
voru góðar og þessum aðilum var meðal annars
boðið að vera við setningu Búnaðarþings í Hörpu
í mars síðastliðnum. Það var ákaflega vel heppnað
enda komu 21.000 manns í Hörpuna þennan dag
í tengslum við setninguna, kokkakeppni Food
and Fun og matarmarkað Búrsins sem fram fór
á sama tíma.
Nú hefur verið ákveðið að boða til formlegs
stofnfundar klasans föstudaginn 6. júní
næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Hótel
Sögu og hefst klukkan 15. Þar verður gerð nánari
grein fyrir verkefninu og lagðar fram tillögur að
starfsháttum klasans. Samtökin verða opin öllum
fyrirtækjum og félögum sem tengjast landbúnaði
og vilja vinna að sameiginlegum hagsmunum
greinarinnar. Forsvarsmenn fyrirtækja og
samtaka sem vilja tengjast þessu verkefni eru
hvattir til að taka þennan dag frá en fundurinn
verður nánar boðaður síðar.
Það er mikilvægt fyrir landbúnaðinn að
eiga vettvang þar sem að allir þeir sem byggja
starfsemi sína á greininni geta rætt sameiginleg
mál og ekki síst til að draga alla þá fjölbreyttu
starfsemi fram í dagsljósið. Hún er meiri en
margan grunar. Fyrirmyndin er eins fram kemur
að framan fengin frá Sjávarklasanum, sem hefur
unnið merkilegt starf í þeim geira. /SSS
Föstudaginn 25. apríl fékk
Hvolsskóli í Rangárþingi eystra
viðurkenningu Umhverfis- og
auðlindaráðuneytisins, Varðliðar
umhverfisins. Er það fyrir
verkefnið Jökulmælingar, en
undanfarin haust hefur 7. bekkur
farið að Sólheimajökli og mælt
hversu mikið hann hafi hopað á
árinu.
Fyrsti árgangurinn sem tók þátt
í þessu verkefni er að ljúka 10.
bekk í vor. „Frá fyrstu mælingu að
þeirri næstu hopaði jökullinn um 43
metra, það næsta um 39 metra en
í haust hafði hann einungis hopað
um 8 metra. Mikil ævintýraferð
var farin í haust til að mæla en þá
fór Björgunarsveitin Dagrenning
með hópnum því stórt stöðuvatn
hefur myndast framan við jökulinn
og þurfti að fara á bát til að
merkja næsta GPS-punkt,“, segir
Jón Stefánsson, verkefnisstjóra
Grænfánans hjá Hvolsskóla.“Það
er frábært fyrir skólann, bæði þá
nemendur og kennara sem tekið
hafa þátt í verkefninu að hljóta
þessa viðurkenningu og óskar
sveitarfélagið Hvolsskóla innilega til
hamingju með þennan árangur,“ segir
Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs-
og kynningarfulltrúi Rangárþings
eystra.
/MHH
Umferðin á Hringveginum
í apríl jókst verulega mikið,
um ríflega 12 prósent, sem
er mesta aukning frá því að
skráning hófst árið 2005. Þessu
var reyndar spáð og skýrist að
einhverju leyti af tímasetningu
páskanna.
Fram kemur í frétt á vef
Vegagerðarinnar að þessi mikla
aukning komi ekki á óvart, þar
sem gert hafi verið ráð fyrir
henni. Mest eykst umferðin um
Norður- og Austurland, um rétt
rúm 30%, en minnst í grennd við
höfuðborgarsvæðið, um rúm 6%.
Samdráttur fyrir austan
Nú hefur umferð aukist um 4,1%
frá áramótum miðað við sama
tímabil á síðasta ári. Ef frá er
talið síðasta ár þarf að leita aftur
til ársins 2007 til að finna meiri
aukningu miðað við árstíma.
Umferðin hefur aukist mest um
Suðurland frá áramótum, um
6,3%. Minnst hefur umferðin
aukist um Austurland, en um
mælipunkt á því svæði er 1,2%
samdráttur. Austurland er eina
svæðið sem sýnir samdrátt frá
áramótum en taka verður tillit
til þess að umferð er almennt
ekki mikil yfir þau mælisnið
samanborið við hin svæðin.
Nú sýna fjórir fyrstu mánuður
ársins að líkur eru til þess að
umferðin um 16 lykilsnið á
Hringvegi verði u.þ.b. 1,5% meiri
en hún var á síðasta ári. Verði
þetta raunin er það heldur minni
aukning en var á milli áranna 2012
og 2013. Komandi sumarmánuðir
munu þó ráða mestu um það hver
aukningin verður.
Umferð á Þjóðvegi 1 jókst
um ríflega 12% í apríl
Varðliðar umhverfisins
Nokkrir nemendur Hvolsskóla við mælingar við Sólheimajökul,
ásamt Jóni Stefánssyni, verkefnisstjóra Grænfánans.