Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. maí 2014
Fróðleiksbásinn
Vilmundur Hansen þjóðfræðingur og garðyrkjufræðingur
Vorlaukar og hnýði eru settir
niður á vorin og blómstra á
sumrin og fram á haust. Plöntur,
sem við köllum vorlauka, þurfa
ekki endilega að vera lauk- eða
hnýðisjurtir því sumar þeirra hafa
einfaldlega gildar forðarætur.
Fæstir vorlaukar eða hnýði lifa
veturinn af úti hér á landi og verður
því að forrækta þau inni áður en þau
eru sett út. Erlendis eru vorlaukar
yfirleitt kallaðir sumarlaukar vegna
þess að þeir blómstra fyrr en hér.
Forræktun
Þegar vorlaukahnýði og forðarætur
eru forræktaðar inni. Því stærri sem
þessar rætur eru, því fyrr þarf að
setja þær niður. Bestur árangur næst
með því að láta plöntuna standa í
sama pottinum allan vaxtartímann.
Halda skal moldinni rakri
allan vaxtartímann en gæta vel að
frárennsli í pottinum því laukar,
hnýði og forðarætur fúna standi þær
í blautum jarðvegi. Séu hnýðin mjög
hörð er reyndar gott að mýkja þau í
vatni í 2 til 3 klukkustundir áður en
þau eru sett í mold.
Setja skal vorlauka og hnýði
niður sem nemur tvisvar til þrisvar
sinnum þykkt þeirra og þjappa
moldinni lauslega í kring.
Eftir að laukarnir eru komnir í
pott á að setja hann á bjartan stað.
Þegar fyrstu blöðin koma í ljós á að
flytja pottinn á svalari stað en gæta
þess að birta sé nóg. Gott er að gefa
áburð þegar vöxturinn er kominn vel
af stað og plantan hefur náð vænum
10 sentímetrum á hæð.
Seinni hluta maí eða í byrjun
júní er kominn tími til að herða
jurtirnar með því að setja pottinn
út á svalir eða tröppur í 2 til 3
klukkutíma á dag. Útiverutíminn
er svo lengdur smám saman þar til
hætta á næturfrosti er liðin hjá. Eftir
það er óhætt að hafa plönturnar úti
allan sólarhringinn.
Umhirða
Vorlaukar, hnýði og forðarætur
þurfa bjartan og skjólgóðan stað í
garðinum svo að blómin fái notið
sín. Jurtir í pottum er auðvelt að
flytja í skjól, gerist þess þörf. Það
auðveldar þeim lífið og eykur
blómgunina. Klípa skal burt visnuð
blóm sem búin eru að blómstra.
Það kemur í veg fyrir tilraunir til
fræmyndunar og eykur blómgun.
Fæstar þessara plantna lifa
veturinn af úti en þeir sem vilja
rækta þær áfram eiga að láta blöðin
sölna að fullu og taka svo pottinn
inn fyrir fyrsta frost. Geyma skal
pottinn með forðarótinni eða rótina
sjálfa á þurrum og svölum stað yfir
veturinn.
Næsta vor er forðarótin sett aftur
í pott með góðri mold og þegar búið
er að vökva vaknar jurtin af dvala
sínum.
Asíusóley (Ranunculus
asiaticus). Vex af forðarót og getur
orðið um 40 sentímetra há við góð
skilyrði. Asíusóley er til í fjölda
lita, hvít, gul, bleik, appelsínugul,
rauð og blönduð. Gott að bleyta
upp í rótinni í nokkra tíma áður en
hún er sett niður. Á rótinni eru eins
konar klær sem eiga að vísa niður
í moldinni.
Heimkynni eru í Litlu-Asíu.
Viðkvæm, þarf allra besta staðinn
í garðinum, skjól og sól. Rótin
geymist best á þurrum stað við 10
til 13 ºC.
Begónía/skáblað (Begonia). Vex
af hnýði og getur orðið 40 sentímetra
há. Begonia × tuberhybrida sem er
ræktuð sem vorlaukur er ekki til sem
villt tegund í náttúrunni heldur búin
til af ræktunarmönnum. Skáblað
er til í mörgum litum, rautt, hvítt,
bleikt, appelsínugult og marglitt.
Hnýðin kúpt á þeirri hlið sem snúa
á niður. Leggja skal hnýðin í mold
og þrýsta þeim niður en ekki hylja
alveg. Þegar sprotarnir hafa náð 3 til
4 sentímetra hæð skal hylja hnýðin.
Hnýðin geymast best á þurrum
stað við 2 til 5 ºC.
Bóndarós (Paeonia ) .
Fyrirferðarmiklar og fallegar plöntur
með gildar forðarætur. Algeng hæð
er 50 til 70 sentímetrar. Blað- og
blómfallegar. Blómin stór, fyllt eða
einföld, rauð, gul, bleik og hvít. Best
er að láta bóndarósir standa lengi á
sama stað þar sem þær hafa sæmilegt
rými. Þrífast best í skjóli í djúpum
og frjósömum jarðvegi. Sólelskar
og þola hálfskugga. Gæta skal þess
að setja ræturnar ekki of djúpt og
brumin mega ekki fara dýpra en 5
sentímetra niður. Plantan er yfirleitt
ár að jafna sig eftir niðursetningu
áður en hún fer að blómstra.
Brúska/Austurlandal i l ja
(Hosta). Harðgerð, fjölær jurt sem
vex upp af stuttum jarðstöngli.
Kemur seint upp og nær 35 til 40
sentímetra hæð. Ræktuð vegna
breiðra blaðanna sem eru græn eða
blágræn með gulum eða hvítum lit,
slétt, bylgjótt eða hrukkótt. Blómin
lítil, ljósbleik og ljósblá, í hangandi
klösum á löngum blómstöngli. Þrífst
best í hálfskugga, í rökum jarðvegi
og þarf mikið vatn en gerir annars
litlar kröfur. Kýs að standa lengi á
sama stað. Góð í ker. Brúskur eru
ætar og kallast ,urui’ í Japan þar sem
þær eru eftirsóttar í ýmsa rétti.
Heimkynni í Japan og
Norðaustur-Asíu.
Dalía (Dahlia × pinnata). Dalíur
eru að öllum líkindum vinsælustu
jurtir í heimi sem ræktaðar eru sem
vorlaukar. Þær eru gullfalleg blóm
og til í fjölda afbrigða. Blómlögun
og blómlitir eru fjölbreyttir.
Upprunalega koma dalíur frá
Mexíkó þar sem þær vaxa villtar.
Dalíur urðu snemma vinsælar til
ræktunar og mikið um kynbætur
og blöndun innan tegunda
Rótarhálsinn á að standa upp
úr moldinni og þess þarf að gæta
að moldin sé rök en ekki of blaut.
Yfirleitt þarf að binda stærri dalíur
upp eftir að þær eru settar út.
Rótarhnýðin þola ekki frost og
geymast best í þurrum sandi við 2
til 7 ºC.
Freyslilja/fresía (Freesia). Þrátt
fyrir að fresíur séu best þekktar sem
afskorin blóm eru þær vinsælar
sem vorlaukar erlendis. Fresíur
eru upprunnar í Suður-Afríku
og hér henta þær ágætlega sem
garðskálaplöntur og spariblóm sem
tekið er út á verönd í allra bestu
veðrum. Freysliljur verða allt að
50 sentímetrar á hæð og blómin í
mörgum litum, hvít, gul, kremuð,
blá, rauð, bleik og appelsínugul.
Laukana á að geyma á þurrum
stað við 25 til 30 ºC. Þeir geymast
þó yfirleitt illa og því ráðlegt að
kaupa nýja á hverju vori.
Gladíóla (Gladiolus). Gladíólur
eru upprunnar í Suður-Afríku en
tegundir í ræktun eru nær eingöngu
blendingar og henta best sem
garðskálaplöntur og spariblóm í
garðinn. Gladíólur eru yfirleitt um
metri á hæð og þurfa stuðning.
Blómin í klasa og til í mörgum
litum.
Vökvið sparlega þar til plantan
er komin upp en eftir það á moldin
að vera rök. Það tekur að minnsta
kosti þrjá og hálfan mánuð fyrir
plöntuna að blómstra. Gladíólur
eru viðkvæmar fyrir kulda og
þola ekkert nema besta staðinn í
garðinum.
Hnýðin geymast best í þurrum
bréfpoka á svölum stað við 6 til 10
ºC.
Lilja (Lilium). Upprunnar í Asíu
og Norður-Ameríku. Yfirleitt um
metri á hæð og geta þurft stuðning.
Ræktunarafbrigði skipta þúsundum
og þegar vel tekst til blómstra liljur
stórum og litríkum blómum. Dafna
best í frjósamri mold með góðu
frárennsli, enda rotna laukarnir ef
þeir standa í bleytu.
Snotra/anemóna/skógarsóley
(Anemone). Vex af hnýði og getur
orðið 20 til 40 sentímetra há.
Snotrur eru fáanlegar í nokkrum
litum, bláar, rauðar, hvítar og gular.
Gott er að leggja hnýðin í bleyti í
2 til 3 tíma áður en þau eru sett í
mold. Gætið þess að brumin snúi
upp þegar hnýðið er sett í moldina.
Heimkynni snotra eru í Evrópu
og Kína. Þær eru viðkvæmar en
dafna best í rökum og frjósömum
jarðvegi. Hnýðin geymast best á
þurrum stað við 10 til 13 ºC.
Strútalilja (Crocosmia).
Hnýðisplanta sem verður 50 til
100 sentímetra há og er upprunnin
í Afríku. Blómin eru gul, rauð
og tvílit, stilklaus en standa þétt
saman og oft tugur saman á grein.
Strútalilja er viðkvæm og þarf
besta staðinn í garðinum, sól, skjól
og næringarríkan jarðveg. Hentar í
ker eða gróðurskála.
Sóllilja (Alstroemeria).
Upprunnin í Suður-Ameríku. Til er
fjöldi afbrigða sem eru frá nokkrum
sentímetrum upp í einn og hálfan
metra á hæð. Myndar jarðstöngul.
Blómin stór og til í mörgum litum og
yfirleitt marglit. Þrífast best í skjóli
og næringarríkum moldarjarðvegi.
Henta vel í ker og geta lifað veturinn
af á góðum stað.
Síðsumar
og haustblómstrandi laukar
Gladíólur eru viðkvæmar fyrir kulda og þola ekkert nema besta staðinn
í garðinum.
Strútalilja verður 50 til 100 sentímetra há og er upprunnin í Afríku.
Flokkun dalía
Dalíur geta náð allt að 1,5 metra á hæð
og blómin verið yfir 30 sentímetrar í
þvermál. Þegar dalíur eru merktar með
tölum, til dæmis 10/110, segir fyrri talan
til um þvermál blómsins en sú seinni
hæð plöntunnar. Flokkun dalía er með
þrennum hætti: Hæð, þvermáli blómsins
eða lögun blómsins, sem er algengasta
flokkunaraðferðin.
Þvermál blóma:
Risi: Yfir 25 sentímetra.
Stór: 20 til 25 sentímetrar.
Millistærð: 15 til 20 sentímetrar.
Lítil: 10 til 15 sentímetrar.
Dvergur: Minni en 10 sentímetrar.
Hæð stönguls:
Há: 120 sentímetrar og hærri.
Millihæð: 90 til 120 sentímetrar.
Lág: 60 til 90 sentímetrar.
Dvergvaxin: Lægri en 30 sentímetrar.
Beð dalía: 30 til 60 sentímetrar.
Lögun blómsins:
1. Einkrýnd. Lögun eins og hjá
upprunalegum dalíum.
2. Anemónu-löguð. Langar
pípukrónur sem mynda hnapp.
3. Kragakrýnd. Tungukrónurnar
minnka þegar innar dregur og
mynda stóra körfu.
4. Hálfofkrýndar. Tungukrónurnar í
tveimur eða fleiri röðum. Lítillega
bylgjaðar.
5. Skrautdalíur. Ofkrýnd og stór blóm,
allt að 30 sentímetrar í þvermál.
6. Boltadalíur eða hnattdalíur. Kúptar
eða hnöttóttar körfur.
7. Kúlu- eða hnattdalíur. Litlar kúptar
eða hnöttóttar körfur.
8. Kaktusdalíur. Tungukrónan löng
og oddmjó og jaðrarnir vefjast inn
á við.
9. Hálfkaktusdalíur. Millistig milli
kaktus- og skrautdalíu.
10. Blandaðar dalíur. Gerðir sem falla
ekki að hinum flokkunum.
11. Dvergdalíur. Smávaxnar og með
smáum körfum.
Bolta- eða hnattdalíur hafa kúptar
eða hnöttóttar körfur.