Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. maí 2014
Aldarafmæli „föður grænu byltingarinnar”
– Minningarhátíð og ráðstefna haldin um dr. Norman Borlaug í Mexíkó
Sólveig Kristín Einarsdóttir býr í
Ástralíu með eiginmanni sínum,
Lindsay O'Brien hveitisérfræðingi.
Þau fóru í lok mars sl. til Ciudad
Obregón í Mexíkó til að vera
viðstödd ráðstefnu sem haldin var i
tilefni 100 ara afmælis dr. Norman
Borlaug, Nóbelsverðlaunahafa
í landbúnaðarvísindum.
Hugmyndir Borlaug um grænu
byltinguna hafa haft mikil áhrif
um heim allan en hafa samt á síðari
árum mætt talsverðri gagnrýni.
Sólveig sendi Bændablaðinu
eftirfarandi grein um ferðina sem
hér er birt í nokkuð styttri útgáfu,
en hún segir að ferðin hafi verið
afar áhugaverð.
Til Ciudad Obregón í Sonora-
héraði í Norður-Mexíkó
Að sumu leyti var það léttir að
yfirgefa sveitabæinn okkar í
norðvesturhluta New South Wales
í Ástralíu þar sem skelfilegur
þurrkur hafði ríkt á svæðinu í hálft
ár. Nautpeningur var allur á gjöf,
heybirgðir á þrotum og vatnsbólin
að þorna upp, hvergi grænt strá
svo langt sem augað eygði. Við
létum öðrum eftir að fóðra svangan
bústofninn og flugum burt. Ferðinni
var heitið til Ciudad Obregón á
ráðstefnu til heiðurs dr. Norman
Borlaug (1914-2009), manninum
sem fékk friðarverðlaun Nóbels
árið 1970 fyrir vísindastörf í þágu
landbúnaðarins.
Ferðin gekk nokkuð vel þótt
seinkun yrði á síðasta fluginu, frá
Mexíkóborg til Obregón. Það þýddi
að komið var svarta myrkur þegar
við lentum. Nú þegar ég horfi út um
hótelgluggann á City express á sjöttu
hæð sé ég framandi umhverfi; fjöll
hulin móðu í fjarska og hús byggð
í suðrænum stíl, alveg eins og í
teiknimyndasögunum. Engin háhýsi
nema e.t.v. þetta hótel og ein önnur
bygging. Pálmatré skarta á stangli,
limgerði og kaktusar á víð og dreif.
Hér býr um ein milljón manna og
borgin er sú önnur stærsta í Sonora-
fylki. Nafn hennar á rætur að rekja til
byltingarmannsins Álvaro Obregón,
sem fæddist í Huatabampo. Hann
varð forseti Mexíkó í byrjun 20.
aldar og boðaði akuryrkjubyltingu
í Yaqui-dalnum með því að kynna
nútíma tækni og búvísindi.
Verst er að tala ekki tungu
innfæddra því fæstir skilja enskuna.
Allt er á spænsku, matseðlar og
annað – einnig á hótelinu. Þetta
hótel er laust við allan lúxus en afar
notalegt. Starfsfólkið brosir og horfir
á mig því ég er ljósgráhærð og sker
mig úr. Bíð bara eftir að einhver
snerti mig til þess að ég færi því
gæfu!
Græna byltingin
Ráðstefnan (25.-28. mars 2014) er
haldin í tilefni þess að eitt hundrað ár
eru liðin síðan dr. Norman Borlaug
fæddist, en hann varð þekktur fyrir
óþreytandi starf sitt gegn hungri í
heiminum og „Grænu byltinguna“
svokölluðu. Var hann dyggilega
studdur af bændum í Yaqui-dalnum
þar sem vagga byltingarinnar er, en
hún hefur haft stórfengleg áhrif um
allan heim.
Sagan hefst þegar mexíkóska
ríkisstjórnin, að undirlagi Álvaro
Obregón, býður alþjóðlegum
rannsóknarhópi hingað um 1945 til
þess að bæta fæðutegundir eins og
hveiti, maís, kartöflur og baunir. Dr.
Norman E. Borlaug var í þessum
hópi. Á árunum eftir 1950 tekst
Norman að rækta hveititegund sem
þarf styttri tíma til að þroskast og
eykur uppskeruna. Þetta verður til
þess að Mexíkó verður sjálfri sér nóg
um hveitiframleiðslu. Þessi sigur
verður einnig til þess að CIMMYT
rannsóknarstöðin er sett á stofn
árið 1966 á um 400 hektara lands.
Á árunum 1966-1971 rækta Indland
og Pakistan nýju hveititegundirnar,
tvöfalda framleiðslu sína og koma
þannig í veg fyrir hungursneyð.
Græna byltingin var hafin.
Í dag eru hveititegundir frá
CIMMYT ræktaðar á meira en
60 milljón hekturum í tekjulágum
löndum. Margar hugmyndir Borlaugs
breiddust til annarra heimshluta,
m.a. Afríku. Milli 1983 og 1985
tvöfaldaðist uppskera á maís og
dúrru (sorghum) í þróuðum ríkjum
Afríku – árangur af frumkvæði hans.
Meira en tíu þúsund vísindamenn
alls staðar að úr heiminum hafa notið
góðs af þjálfun hjá CIMMYT. Margir
sem þar hafa lært, leiða nú almennar
eða einkarannsóknaráætlanir alls
staðar í heiminum. (Sjá nánar www.
cgiar.org).
Fjölmenn ráðstefna
Ráðstefnan er gríðarlega fjölmenn,
en á hana mættu rúmlega sex hundruð
manns. Hinn mikli áhugi fyrir
ráðstefnunni kom forsvarsmönnum
CIMMYT hins vegar nokkuð á
óvart. Fulltrúar koma alls staðar að
úr heiminum og ræður bærinn varla
við slíkan fjölda gesta á einu bretti.
Hótelin, 23 talsins, voru yfirfull, en
ráðstefnan stóð yfir dagana 25. til
28. mars.
Í Obregón er safn um Álvaro
Obregón og annað um sögu Yaqui-
indíánana. Stytta af dansandi indíána
með eftirlíkingu af dádýrshöfði
á höfðinu stendur á aðalgötunni.
Einu sinni á ári er haldin danshátíð
Yaqui-indíána en því miður ekki
meðan við vorum þar. Þá er
gróðrarstöð hér rétt hjá þar sem sjá
má ýmsar eyðimerkurplöntur og
fleira merkilegt. Þegar maður fer
út að ganga er eins gott að líta vel í
kringum sig því víða eru gangstéttar
ójafnar og svo er verið að vinna að
gatnagerð hér og þar. Fólk er ákaflega
brosmilt og vingjarnlegt. Nokkuð er
um fólk á reiðhjólum en enga hef
ég séð með hjálma. Ef maður ekur í
fjóra tíma í norður er maður kominn
til Bandaríkjanna; tíu tímar í suður
færa mann til Mexíkóborgar. Þetta er
víst kallaður Pan American Highway.
Við Lindsay snæddum kvöldverð
undir pálmatrjám með nokkrum
hveitikörlum. Þar voru þrír
Ástralir, einn Englendingur, þrír
Bandaríkjamenn,einn Mexíkani og
ein kerling frá Íslandi. Flestir fengu
sér New York-risasteikur, tveir
borðuðu risarækjur og kerlingin frá
Íslandi fékk sér ljómandi góðan fisk.
Við kvöddum snemma en karlarnir
stefndu á að fá sér margarítur á
góðum stað til þess að tala meira
um hveitirækt ásamt öllu því sem
henni tilheyrir.
Stytta af dr. Norman Borlaug
Við gengum að styttunni af dr. Norman
Borlaug. Þar stendur hann á akrinum
með hveitiplöntur í höndunum og
geislar sólarinnar, meitlaðir í stein,
skína að eilífu að baki hans. Frægur
mexíkanskur arkitekt hafði teiknað
og útfært. Einnig hefur hluta af ösku
Borlaugs verið komið þarna fyrir í
stóru keri með fallegri áletrun frá
fjölskyldunni. Við skoðuðum líka
margs konar innlenda kaktusa, suma
risastóra. Ætli ég fari ekki að rækta
bara kaktusa heima í garði í Narrabri
fyrst það rignir svona sjaldan. Hér er
úrkoman um það bil 200 mm yfir árið.
Eyðimerkursólin skein enn glatt
á miðvikudagsmorgni þann 26. mars
2014 þegar við tókum rútuna kl. átta
beint upp í háskóla, Universidad La
Salle Noroeste, Ciudad Obregón.
Ég var full eftirvæntingar því ég
var búin að fá áhuga á persónunni
og vísindamanninum dr. Norman
Borlaug, Nóbelsverðlaunahafa.
Mikið stóð til þennan dag.
Þetta er einkaháskóli, byggður
af forríkum fjölskyldum fyrir u.þ.b.
fimm árum og það kostar sitt að
stunda þarna nám. Ráðstefnusalurinn
var til dæmis byggður af ríkum
kjúklingabændum. Einkar glæsilegur
salur með öllum hugsanlegum
tækniútbúnaði og rúmar vel alla
gestina í sæti. Allt umhverfið utan
dyra minnir á freistandi auglýsingar
af sumarleyfisstöðum víða um
heim; gosbrunnar og rennandi vatn,
pálmatré og gróður. Salurinn fyllist
af fólki og þriggja daga dagskrá er
þar með hafin. Forstjóri CIMMYT
setur ráðstefnuna og rektor háskólans
biður fólk velkomið. Fyrsta daginn
er fjallað um Grænu byltinguna
þar sem ævi og starf Borlaugs er
miðpunkturinn, á morgun verður
rætt um: Hvers vegna hveiti skipti
máli fyrir heiminn og síðasta
daginn verður: Litið fram á veginn.
Sendiherrar Indlands og Ástralíu eru
viðstaddir setninguna.
Við hlýddum á Jeanie, dóttur
Borlaugs, flytja endurminningar úr
æsku sinni á myndbandi. Hún sagði
skemmtilega frá föður sínum og þeim
systkinunum sem ólust upp við tvo
menningarheima, þann mexíkóska
og þann spænska. Hún kvað föður
sinn aldrei hafa hætt að kenna og
það mikilvægasta sem hún lærði
af honum var að menntun er hið
veigamesta í lífinu.
„Það sem þú lærir getur enginn
tekið frá þér; þú getur misst
allar þínar eigur en menntunin
„blívur“ í höfðinu þínu“. Einnig
flutti indverskur samstarfsmaður
Borlaugs ræðu af myndbandi, en
hann var orðinn of gamall til að
ferðast. Þeir Borlaug höfðu hist
árið 1954 og var sá indverski þá að
vinna við kartöflurækt. Um svipað
leyti dóu um tíu milljónir manna
á Indlandi úr hungri. Sýndar voru
Sólveig Kr. Einarsdóttir, dr. S. Rajaram og dr. L. O´Brien.
Minnisvarðinn um dr. Norman Borlaug á CIMMYT-rannsóknarstöðinni.
Dansatriði sýnt fyrir ráðstefnugesti.
Universidad La Salle Noreste.Dr. Jesse Dubin, dr. Perry Gustafson og dr. John Snape.
Fræg mynd af dr. Norman Borlaug úr
tímaritinu LIFE.