Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 46

Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. maí 2014 Lesendabás Þessi vetur er búinn að vera hreint djöfullegur. Snjólaust var þó til Þorláksmessu, en þá gerði þriggja vikna samfelldan bleytuhríðarofsa og setti niður ógnarlegar fannir í allar hlíðar sem snúa móti suðri og suðvestri og hefur bætt á þær með jöfnu millibili til þessa. Kennileiti og landslag er því sokkið undir samfelldar snjóþiljur, víða jafnvel meiri en snjóflóðaveturinn 1995. Unglingur setti ég saman þessa vísu á snjóþungum vetri: Þessi ósköp ógna mér. Ofar brúnum kletta, hengjufirn við himin ber. Hvenær leysir þetta? Mikinn kulda mun leggja frá öllum þessum fannbreiðum í vor, þröngt verður um í úthaga fyrir fé frameftir sumri, berjaspretta verður engin og lyng, fjalldrapi og kjarr sem ekki kemur undan fyrr en í haust eða alls ekki hlýtur að drepast á stórum svæðum eins og gerðist 1995. Á móti þessum hrellingum kemur þó að allar líkur eru á óvenjuvænum dilkum því smjör mun drjúpa af hverju strái alveg fram á síðhaust. Á svona vetri er betra að vera eins og kötturinn með níu líf og þau ekki öll útrunnin. Í ísingarveðrum um hátíðarnar safnaðist – mér að óvörum – klakaklumpur við útiljós í burstakverk yfir dyrum og hrapaði svo niður þegar ég á útleið skellti hurðinni á eftir mér. Sleikti köggullinn á mér hnakkann og vinstri öxl og skall svo í svellið við hælana á mér. Úr honum kvarnaðist nokkuð, en ekki meira en svo, að hann á fjárvog reyndist rösk 18 kg. Bjargráðasjóður? En ógnirnar hér eru margskonar. Mikið af girðingum verða í klessu vegna ísingar og snjóþunga. Snjóflóð hafa skaðað þær líka. Öll tún fóru undir þykka svellahellu strax um jól og eru þar að stærstum hluta enn og þriðja kalvorið í röð blasir við. 2012 var mikið kal og heyfengur helmingur þess sem eðlilegt telst í meðalári. Samt náðum við ekki upp í skakkafallaþak Bjargráðasjóðs. Sama sagan á síðasta vori, tveir valinkunnir ráðunautar mátu kal 70–80% á sumum spildum, varla nokkrar óskemmdar. Veruleg fjárfækkun bæði árin. Nú kom Bjargráðasjóður til skjalanna í vetur með heilar 60.000.- . Sú stétt er nú aldeilis ekki á flæðiskeri stödd sem á sér slíkan bakhjarl þegar í harðbakkann slær. Ríkisrefir Í skoðanakönnun vantreysta 86–90% aðspurðra þingmönnum og virðing Alþingis er í takt við það. Titlatog eins og „háttvirtur“ og „hæstvirtur“ valda aulahrolli hjá öllu venjulegu fólki. Innflutningur þeirra „hæstvirtu“ á mink um 1930 olli óbætanlegu tjóni á lífríkinu og verndun vargs í þjóðgörðum, miðhálendinu og friðlöndum er af sama toga heimsku og skammsýni. Að tala um friðland í þessu samhengi er öfugmæli, því slíkt getur ekkert það svæði kallast ef vargi sem fjölgar sér óheft þar vegna nægs landrýmis og fæðuframboðs fær svigrúm til að gjöreyða öllu öðru sem lífsandann dregur. Þann 1. júlí næstkomandi eru 20 ár liðin síðan refurinn á Hornströndum var friðaður, án nokkurra áður gerðra rannsókna á dýra- og fuglalífi svæðisins, eða þess hvaða áhrif nokkurra hundraða refa viðbót árlega gæti haft á lífríki þessa 580 ferkílómetra útskaga og aðliggjandi byggðir. Helsti ráðgjafi ríkisvaldsins í aðdraganda þessa umhverfisslyss, Páll Hersteinsson prófessor, vildi meina að rebbi væri það átthagabundinn að útrás hans yrði lítil sem enginn. En við sem næst bjuggum urðum fljótt vör við norðanrefinn sem flæddi yfir okkur strax á haustnóttum og hreinsaði upp alla rjúpu eða flæmdi hana burt. Spruttu af þessu ritdeilur þar sem ég og fleiri véfengdu heimaþúfuspeki Páls og töldum okkur nú líka vita sitthvað um refi. Þótti Páli sinn vísindamannsheiður liggja undir skemmdum og fékk því ríkisstyrk 1998 til grenjatalningar, tófurannsókna og merkinga á yrðlingum nyrðra. Af því tilefni setti ég saman brag sem ég læt fljóta hér með: Refatryggð við heimahaga höfðu bændur rægt til baga. Vísindin því vildu sanna vit og gildi kenninganna. Spekinganna flokkur fríður ferðar ekki lengi bíður, og í blöðum séð ég hef, sóttist vel að merkja ref. Haustið kom með hríðar argar. Heldur varð þá fátt til bjargar. Ef friðland ekki fæðu gefur, til ferðar býr sig soltinn refur. Austur og suður heldur hjörðin. Hverfa að baki Drangaskörðin. Yfir jökul aðrir blína, ekki spara fætur sína. Djúpsins byggðir heilla hugann. Hér er fjölmörg matarsmugan. Lyftast vonglöð loðin stýri, litu við á Rauðamýri. Fjórir þeirra feigir hittu fantagóða refaskyttu. Svo í pósti sendir vini sjálfum Páli Hersteinssyni. „Vísindanna“ vöskum smið var þá heldur illa við. Skynsemi fyrir skaut því loku. „Skammirnar hafa villst í þoku.“ Heimaþúfukenningin hrakin Guðmundur Jakobsson frá Reykjarfirði nyrðri, nú búsettur í Bolungarvík var þungavigtarmaður í rannsóknarhópi Páls, þaulkunnugur á Hornströndum og grenstæðum þar og hefur glímt við rebba frá blautu barnsbeini. Ekki var þó pláss fyrir nafn hans á titilsíðu rannsóknarskýrslunnar, enda maðurinn án háskólamenntunar. Guðmundur lét mér í té helstu niðurstöður skýrslunnar sem fara hér á eftir. Heildarfjöldi þekktra grenstæða 170–180 eða 0,3 á hvern ferkílómetra. Setin greni 43–49. Meðalfjöldi yrðlinga á hverju greni 3,9–4,0. Fullorðin grendýr 86 – 96. Fjöldi gelddýra óljós. Ágiskaður fjöldi yrðinga 172–192. Fyrsti merkti refurinn var skotinn við Rauðamýri í nóvember um haustið, í mars náði ég radíóref og þeir voru einnig skotnir í Árneshreppi og allt vestur í Dýrafirði. Síðan sáust bæði merktir refir hér á Langadalsströnd og heyrðist í sendum þeirra sem voru með þeim útbúnaði. Að þeim upplýsingum fengnum var það niðurstaða skýrsluhöfunda að 62 – 156 ungrefir færu árlega burt. Heimaþúfukenning Páls var því orðin að rústum einum. Síðan fyrrnefnd rannsókn var gerð Hársbreidd ‒ pistill frá Skjaldfannarbónda við Ísafjarðardjúp Það er óhætt að segja að bærinn Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp standi undir nafni. Mikil snjóalög voru enn fyrir ofan og við bæinn þegar þessar myndir voru teknar þann 13. apríl síðastliðinn. Myndir / Jón Heimir Hreinsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.