Bændablaðið - 08.05.2014, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. maí 2014
Lesendabás
Náttúruleg stærð markaða
Ég hef tvisvar sinnum verið á
fundum með erlendum aðilum
undanfarinn ár þar sem ég
hef verið spurður þessarar
spurningar; Hver er náttúruleg
stærð þessa markaðar? Í fyrsta
skipti sem ég fékk þessa spurningu
stóð ég á gati, ég vissi ekki hvað
þessi erlendi viðskiptamaður átti
við.
Náttúruleg stærð markaða er
áætluð stærð markaðs sem er tilbúinn
að kaupa tiltekna vöru. Erlendis er
búið fyrir lögnu að kortleggja hversu
margir hafa efni á að kaupa dýran bíl
út frá sölutölum síðustu ár og mat
á breytingum á efnahagsástandi.
Markaðurinn með dýrar vörur
breytist lítið milli ára nema í
kreppum, þannig að ef fyrirtæki ætlar
að koma með nýjar vörur markaðinn
þá áætlar viðkomandi eftir rannsóknir
hversu margir kaupa bíl að þessum
verðflokki með tilteknum gæðum.
Viðkomandi þarf síðan að finna
leiðir til að markaðssetja sig, finna
dreifileiðir áður en hann byrjar að
gera rekstraráætlanir um hvort það
borgar sig að fara inn á markaðinn.
Ef Excel-líkanið skilar ekki réttri
niðurstöðu er engin ástæða til að
fara lengra.
Í báðum þessum tilfellum eftir að
ég var búinn að leggja í vinnu við
að greina markaðinn, meta kostnað
af því að fara inn á markaðinn og
gera grófa arðsemisútreikningana,
misstu viðkomandi aðilar áhugann.
Annar vegna þess að markaðurinn
fyrir vörurnar var að hans mati
of lítill til að borgaði sig að halda
áfram vinnunni. Í hinu tilfellinu taldi
viðkomandi að markaðurinn væri
nægilega stór en fyrirtækið sem ég
var að vinna fyrir var of lítið.
Ástæðan fyrir þessari vangaveltum
er mikill áhugi Bændasamtakanna
á að vera með lífræna ræktun. Það
er mikill áhugi á lífrænni ræktun í
Evrópu og í Bandaríkjunum og hann
er að byrja hér. Við eigum eitt gott
fyrirtæki sem er í mjólkuriðnaði sem
sinnir þessum hluta markaðarins og
þessum markaði þarf að sinna. Í
garðyrkju eru nokkrir aðilar og sama
í lambakjöti.
Litrófið í íslenskum landbúnaði
er mjög fábreytt. Við erum með
vistvænan landbúnað, þar sem lítið
er notað af lyfjum, tilbúinn áburður
er notaður mjög lítið miðað við
önnur lönd og Matís fylgist með
búunum. Tún ehf. fylgist með
lífrænum landbúnaði þar sem ekki
má nota lyf, enginn tilbúinn áburður
né fóðurbætir.
Venjulegur Landbúnaður sem er
stundaður hér er mun heilbrigðari
en víðast hvar í veröldinni. Því er
munurinn á þessum vöruflokkum í
raun afar lítill miðað við breiddina í
framleiðslunni víða erlendis. Vísa ég
á heimildarmyndir eins og Food. Inc
sem er ömurleg lýsing á bandarískum
landbúnaði. Forsaga myndarinnar er
sú að leikstjóri myndarinnar missti
stálpað barn sitt vegna eitrunar í
kjöti.
Neytandi sem ætlar að velja sér
vörur velur eftir gæðum og verði. Hér
á landi er gæðamunurinn afar lítill,
sem dæmi hafa Íslendingar verið að
selja lambakjöt inn á verslanakeðjur
í Bandaríkjunum þar sem vörurnar
eru svo heilbrigðar. Ég fann engar
tölur í fljótu bragði um hversu stór
þessi lífræni markaður er erlendis, en
líklega er hann ekki meiri en 1-3%
af heildarmarkaðnum.
Verðin á lífrænum vörum úti
eru há enda dýrt að framleiða
vörur sem eru lífrænar. Tæknin við
að framleiða mjólk, kjöt og aðrar
landbúnaðarvörur er orðinn það
mikill að framleiðslukostnaður
lækkar sífellt en gæðin sömuleiðis.
Hægt er að færa rök fyrir því að
kostnaðinum við framleiðsluna
sé kominn yfir í aðra þætti
samfélagsins eins og kostnað við
heilbrigðisþjónustu. Fyrir þetta eru
sumir neytendur tilbúir að greiða en
ekki allir. Flestir neytendur hafa ekki
áhuga á þessu, aðrir fá ekki réttar
upplýsingar eða þá hitt hafa ekki efni
á að kaupa þessar vörur.
Þetta lögmál er líka hér á landi.
Það er borgað umfram fyrir mjólk
sem er lífræn en kostnaðurinn og er
það eiginlega skilyrði fyrir því að
þessi framleiðsla sé við líði. Miðað
við umfjöllun um lífrænan markað
sem ég fann er lífrænn landbúnaður
um það bil 1% af heildarmarkaði
með landbúnaðarvörur. Þar af er
lífræn mjólk og kjötvara um það bil
0,5% af heildar framleiðsluverðmæti
íslensk landbúnaðar. Það verður
einhver vöxtur í þessum markaði en
ekki mikill og mun minna í magni en
í hefðbundnum landbúnaði. Aðkoma
inn á markaðinn er líka erfið, þar sem
salan er svo lítill vilja stórmarkaðir
ekki vera með mikla áherslu á lífrænar
vörur. Neytendur á Íslandi sjá ekki
mikinn mun á lífrænum vörum og
öðrum enda erfitt að halda því fram
að íslenskar landbúnaðarvörur séu
framleiddar með lágum gæðum.
Ímynd landbúnaðar eru líka að varan
sé hrein sem hún er. Gott dæmi um
þetta er verðbil á milli íslenskra og
erlendrar grænmetis í verslunum.
Íslensku vörurnar eru alltaf töluvert
dýrari.
Það sem mér finnst merkilegt er
að Bændasamtökin eru að leggja nú
um stundir mikla áherslu á lífræna
ræktun sem mun aldrei vera annað
en pínulítill hluti af markaði með
landbúnaðarvörum. Í viðtali við
í hádegisfréttum Bylgjuna hinn
14. apríl sagði Eiríkur Blöndal að
markaður með lífræna vörur væri
vaxandi og hann hvatti bændur til að
snúa sér að framleiðslu á lífrænum
afurðum. Ég spyr; til hvers?
Hver er náttúruleg stærð þessa
markaðar? Er meiri arðsemi í því
að framleiða lífræna mjólk eða
kjötvörur? Mig grunar að þessar
tölur séu ekki til, og með þessari
umræðu eru Bændasamtökin að
búa til einhverja draumsýn hjá
einhverjum um að lífrænar afurðir
geti bætt afkomu þeirra. Ég tel
líklegt að ávinningurinn af lífrænni
framleiðslu sé minni en hefðbundinni
framleiðslu.
Markaður með lífærnar
landbúnaðarvörur verður alltaf
mun minni hlutfallslega hér en í
Bandaríkjunum og víðar í Evrópu.
Ástæðan er sú að okkar landbúnaður
nota mun minna af lyfjum, áburði
og öðru því sem fólk sem sækist
eftir lífrænum vörum vill forðast og
sérstaða lífræns vara minni.
Hliðaráhrif á þessu brölti
Bændasamtakanna eru að smám
saman fara neytendur að bera
kosti lífræns landbúnaðar saman
við hefðbundinn landbúnað. Þetta
er sérstaklega hættulegt þar sem
munurinn er í raun ekki mikill miðað
við aðrar þjóðir. Neytendur gætu með
tímanum farið að bera saman lífrænar
vörur hér og erlendis og að sama skapi
hefðbundinn landbúnað hérlendis
og erlendis sem notar mun meira
af áburði, lyfjum og er orðinn mun
meiri iðnaðarframleiðsla. Þá myndu
falla niður ein rök í umræðunni um
innflutning á landbúnaðarvörum.
En út frá augum rekstrar er ekki
hægt að ná upp mikilli hagkvæmni
í lífrænni ræktun, einfaldlega vegna
þess að afkastageta verður eitthvað
minni og eins að það er ekki pláss
fyrir marga framleiðendur. Ef
Bændasamtökin telja að þetta sé
hagkvæmt er eðlilegt að sýna fram
á hagkvæmni þess.
En umfram allt, við eigum að vera
stolt af þeim sem framleiða lífrænar
vörur. Lítill hluti markaðarins kallar
eftir þeim en Bændasamtökin
verða að stíga varlega til jarðar í
umfjöllun sinni til að skemma ekki
fyrir hefðbundnum landbúnaði.
Hefðbundinn landbúnaður með
sínar venjulegu dreifileiðir er það
sem Bændasamtökin eiga að leggja
höfuðáherslu á.
Þessi grein fer á bloggið burekstur.
blog.is hjá mér þar sem hægt er að
gera athugasemdir. Ég er líka búinn
að bæta við greinum um skatta og
búrekstur.
Jón Þór Helgason
Á vormánuðum 2013 heyrði ég
af manni á Ísafirði, Henrý, sem
sótti um leyfi til síns bæjarfélags
að taka að sér, í sjálfboðavinnu,
spildu í nágrenni við heimili
hans. Spilda þessi var í órækt
en bauð upp á annað. Hann
fékk leyfið, hreinsaði til, setti
upp bekk og borð, gróðursetti
og nú er þetta „áningarstaður“
gangandi vegfarenda.
Ég fór þá að hugsa hvort ég
gæti gert það sama fyrir Lækinn
í Hafnarfirði og fuglalífið þar
en ég er faðir fjögurra barna og
hef iðulega í gegnum árin farið
þangað með börnin. Sendi erindi á
Framkvæmdasvið bæjarins og fékk
leyfið. Verkefnið fékk vinnuheitið,
og facebókarsíðuna, Project Henry.
Ég leitaði til nokkurra aðila eftir
styrk vegna efniskaupa og Byko
og Lífland brugðust vel við þeirri
beiðni. Ég byrjaði á því að fara út í
hólmana sem eru milli Hörðuvalla
og Austurgötu, hreinsaði þar til,
sáði grasfræjum og setti áburð. Rak
niður staura og strengdi grænt girni
á milli til að mynda „loftvörn“ og
sett nýtt hey í húsin. Fylgdist ég svo
með og sá að girnið var að virka
því mávurinn var ekki að setjast
í hólmana, heyið féll í grýttan
jarðveg því það leið ekki nema
dagur þá voru þær búnar að moka
því út úr húsunum. Svo tók við bið.
Maí og júní. Fljótlega áttuðum við
okkur á því að „stíflur“ sem stýra
vatnshæðinni, ofan við Hverfisgötu
og svo Austurgötu voru þröskuldar
fyrir unga sem væru komnir niður
fyrir. Settum við því steina við
þær til að mynda þrep þannig að
ungarnir kæmust til baka og sáum
að það virkaði. Ef ungi fór niður
fyrir þessar stíflur, áður en þrepin
komu, þá gerðist það að öndin og
hinir ungarnir fóru á eftir. Eftir að
þrepin komu þá snéru ungarnir
aftur upp á Læk.
Ég kom að jafnaði við tvisvar
á dag til að fylgjast með og var
farinn að veita mávi athygli sem
settist á stóra hólmann, með trénu,
og gekk inn á hann miðjan. Sá
var að þessu í nokkra daga. Ég
hafði nokkrum sinnum farið út í
hólmana til að kíkja inn í húsin og
skoða hvort einhver myndi verpa
þar. 8. júní fann ég eggjaskurn
við stóra hólmann og er ljóst að
gæs hefur verpt inn í einu húsinu
en mávurinn hefur eyðilagt það
fyrir henni. Þá setti ég mig í
samband við Framkvæmdasviðið
til að kanna með meindýraeyði og
í framhaldi var ég í sambandi við
hann Konráð hjá Firringu og áttum
við gott samstarf það sem eftir lifið
sumars. Þó var ekki um að ræða
að verið væri að eyða „vargfugli“
í stórum stíl heldur fylgdumst við
með og fundum út þá sem voru
atkvæðamestir og lögðum áherslu
á að þeir myndu ekki ná að kenna
öðrum þá list. Það er þannig með
vargfuglinn að hann er klár og svo
er hann ekki vargur í allra augum
heldur nær hann að skemmta
sumum þeim sem koma á þetta
svæði.
Þann 18. júní var ég vakinn
með símtali frá áhyggjufullum
íbúa Norðurbæjar sem hafði
séð önd með 10 unga á leið frá
Viðistaðatúni. Þetta var hún Elín
Sigurðardóttir sundkona. Hún sagði
að ég yrði að bregðast skjótt við því
hún var sjálf tímabundin. Ég brást
skjótt við og fann hana og fuglana
á Langeyrarvegi. Öndin hafði þá
farið með ungana í gegnum garða
og meðfram húsum. Elín hafði
þurft að hafa sig alla við að halda
köttum frá sem einnig sýndu þessu
ferðalagi áhuga. Ég fylgdi öndinni
síðan niður Vesturbrautina, beint
yfir Vesturgötuna og meðfram
Norðurbakkablokkunum. Öndin
fór rakleiðis að hafnarbakkanum
og stökk í sjóinn en ungarnir stóðu
á bakkanum og vissu ekki hvað
þeir ættu að gera. Öndin kallaði
og kallaði á þá úr sjónum og varð
ég að vera með „sýnikennslu“ fyrir
þá. Allir komust þeir í sjóinn og er
ekki ólíklegt að innan klukkutíma
hafi einhverjir þeirra verið orðnir
fæða fyrir einhvern. En svona er
bara náttúran.
Þann 19. júní frétti ég síðan
af önd með unga niður undir
Strandgötu og fór ég strax að leita.
Þegar ég kom að Lækjargötunni
þá horfði ég á eftir ketti með
unga í kjaftinum fara í átt að
Austurgötunni og á læknum þar,
niður undir Strandgötu, var önd
með 1 unga en ég hafði séð mynd
frá því fyrr um daginn þar sem hún
var með þá nokkra.
Það var síðan ekki fyrr en 23.
Júlí að það fór að bera á ungum
í einhverju magni á Læknum
og voru flestir þeirra ofan við
Reykdalsstíflu og upp í gegnum
Setbergshverfið. Það virðist vera
að endurnar skiptast í 2 flokka.
Þær sem fara sem fyrst til sjávar og
svo hinar sem halda til á Læknum.
Eftir einhverja daga áttuðum við
okkur á því að þær sem fóru beint
til sjávar, þ.e. niður Lækinn að
Strandgötu, voru ekki að skila sér
í sjóinn með ungana. Eftir smá
rannsóknarvinnu kom í ljós að
ungar og því miður í tugatali voru
að fara í ræsið við Strandgötu og
þaðan áttu þeir ekki möguleika að
komast lifandi. Hæðarmunurinn
er rúmur metri og því vonlaust
fyrir þá að komast til baka og því
drukknuðu þeir þar. Settum við því
planka með hæl þar niður. Þarna
gætir vel sjávarfalla og vatnsborðið
því breytilegt. Plankinn virkar sem
„neyðarútgangur“ fyrir ungana en
að öllum líkindum áttuðum við
okkur á þessu of seint en þetta er
þó eitthvað sem kemur að gagni í
framtíðinni. Framkvæmdasviðið
ætlar að skoða betri útfærslu á
þessu fyrir komandi sumar.
Þegar líða fór að hausti fór ég í
það að telja og voru ungarnir sem
halda til á Læknum á bilinu 12-18
stykki og voru þeir komnir það vel
á legg að þeir hafa átt möguleika að
lifa af. Nokkrir þeirra héldu til að
tjörninni við Reykdalsstíflu, á bak
við Frímúrarahúsið. Þar fór að bera
á vængbrotnum fuglum og eftir
að hafa orðið vitni að árás kattar
á fuglana þar þá kom skýringin.
Þegar verið var að gefa fuglinum
á bakkanum þá laumaðist kötturinn
aftan að og stökk á fullvaxna fugla.
Þar sem þetta tókst með
ágætum þá leitaði ég eftir því að
fá áframhaldandi leyfi til að sinna
þessu verkefni og er það komið
frá Framkvæmdasviði bæjarins.
Ég sótti einnig um að fá að sjá um
tjörnina og hólmann á Víðistaðatúni
og var orðið við því. Þar mun ég
einnig setja niður staura og band
en það verður þó ekki hærra en
fótstallur listaverksins sem er í
hólmanum. Ég mun einnig lækka
staurana í hólmunum á Læknum.
Einnig mun ég í samstarfi við
Vatnsveituna skoða uppsetningu
á hreiðrum út á Læknum en það
skýrist betur á næstu vikum. Fyrir
framan Lækjargötu 32-34 er eyri
sem væri gaman að laga til og bæta
aðstöðu varpfugls. Eitt af því sem
þarf að gera þar er að hindra aðgang
katta. Það mál er einnig í skoðun.
Ég hef sinnt þessu ásamt 11
ára dóttur minni og höfum við
haft mikla ánægju af. Ef þið hafið
ábendingar til okkar eða aðfinnslu
þá er velkomið að senda tölvupóst
á fylkisson@islandia.is
Guðmundur Fylkisson,
Vaktavinnandi lögreglumaður,
ættaður frá Ísafirði en búsettur
í Hafnarfirði frá 1998.
„Project Henry“