Skírnir - 01.01.1976, Page 84
82 VÉSTEINN ÓLASON SKIRNIR
til samræmis við yrkisefnin. Það er Háttalykill sá sem eignaður
hefur verið Lofti ríka og vel má vera eftir hann. Þar er meðal
annars þessi vísa sem mjög er í anda þeirra ljóða margra sem
skáld kváðu fyrrum þegar dagur fór í hönd og þeir urðu að skilj-
ast við hina heittelskuðu:
Kyssunst, kæran, vissa,
kcmr ein stund, sú er meinar,
sjáu við aldrei síðan
sól af einum hóli;
meinendr eru mundar
mínir frændr og þínir;
öllum gangi þeim illa,
sem okkur vilja skilja.3"
Sagnaþulir hafa stundum verið að bera sig að lesa ástarsögu
Lofts og Kristínar Oddsdóttur, barnsmóður hans, úr kvæðinu,
en hitt er líklegra, og reyndar auðséð, að þar er ekki verið að
segja sögu heldur æfa sig að fjalla um ástina í bundnu máli á
þann hátt sem sæmdi ríkum mönnum og kurteisum á tímum
lénsherra.
Auk ástakvæða hefur á miðöld borist hingað kveðskapartíska
sem mörg dæmi má finna um erlendis: heimsósómar eða kvört-
unarljóð. Islensk dæmi frá miðöld eru Heimsósómi Skáld-Sveins,
þar sem kvartað er yfir hnignun siðanna almennt, og Ellikvæði
Jóns Hallssonar, þar sem eru raunatölur gamals manns. Þessi
kvæði eru þó engar daufar eftirlíkingar eins og brunakvæðum
hættir til að verða, en af því að þau drógu á eftir sér alllangan
slóða í íslenskum kveðskap næstu alda er vert að gefa erlendum
rótum þeirra gaum. Með því að margir heimsósómar flytja fé-
lagslegt efni og gagnrýna höfðingja og valdsmenn hárðlega fyrir
rangindi liefur oft verið reynt að finna sérstök söguleg tilefni
slíkra kvæða og er einatt hægt að benda á margt sem gæti hafa
orðið skáldunum að yrkisefni. En einhæfni þeirra er þó
svo mikil að bókmenntaleg tíska hlýtur að eiga verulegan ef
ekki mestan þátt í tilurð þeirra. Segja má að efnið gangi í for-
múlum á milli skálda. Hér verður þó reyndar að undanskilja
Heimsósóma Skáld-Sveins sem er bragð- og þróttmeira kvæði en
önnur sem ég hef séð úr þessari grein þótt hann beri ótvíræð
merki hennar.