Skírnir - 01.01.1976, Page 98
96 KRISTJÁN ALBERTSSON SKIRNIR
bjarnar, þess vinar sem Egill dáði og unni mest allra manna.
Honum hafi fundist hann hafa brotið boðorð Hávamála:
Vin sínum
skal maðr vinr vesa,
þeim ok þess vin.
Egill hafi viljað komast „í sátt við Arinbjörn — og konung —
og sjálfan sig“, og því farið hættuför sína til Jórvíkur. Hér er
þá ráð fyrir því gert að Egill hafi farið til Englands til að sættast
við Eirík, en hitt sé aukaatriði hvort hann hafi ort Höfnðlausn
„að einhverju leyti í Jórvík, sem líklegast er, eða áður“.
Hallvard Lie telur, að þegar Egill hafi frétt um landflótta
Eiríks og Gunnhildar, hafi hann sannfærst um að sér væri um
að kenna — seiður sinn hafi hrifið. En jafnframt hafi hann tekið
að óttast hefnd af hálfu Gunnhildar, sem hann vissi rammgöldr-
ótta. Honum hafi fundist að nú ætti hún næsta leik á borði, gæti
flæmt hann úr landi og þangað sem hefnd hennar næði til hans.
Þessi ótti hafi orðið því óbærilegri því lengur sem hann bjó
um sig, og verið sú „ógleði" sem sagan talar um. Loks hafi hann
kosið að hætta sér á fund Eiríks og Gunnhildar, reyna að losna
við hugsýki sína með einu djörfu tiltæki, fremur en að lifa við
þessa „nagende utrygghetsfölelse".
Pétur Benediktsson ritar:
Frásögnin af níðstönginni er óyggjandi i aðalatriðum. Þá má fara nærri
um það hvort ekki hefur stundum borið á góma milli þeirra Eiríks og
Arinbjarnar hersis hvílíkur bagi konungi væri að álögum hins skapþunga
skálds. Hafi Eiríkur ekki séð það sjálfur að fyrra bragði hefur Arinbjörn
vissulega bent honum á hvílík nauðsyn honum — konungi — væri að sætt-
ast við Egil og fá álögunum hrundið. En sóma konungs varð að sjálfsögðu
að gæta. Egill varð að færa honum höfuð sitt og taka um fót honum, en
flytja honum drápu síðan. Og að sjálfsögðu varð Egill að leika það að hann
kæmi af fúsum vilja, óumsamið, en í fullu trausti á drengskap konungs.
Eg fæ ekki séð að neitt í þessum tilgátum eigi neina stoð í frá-
sögn Egils sögu af Jórvíkurför. Þó má láta sér sumt af þessu til
hugar koma, ef svo er talið að ekkert verði ráðið af sögunni um
ástæðu Egils til þeirrar farar — ástæðu sem hann hafi þagað um
við menn sína á Humrubökkum, og alla tíð síðan farið dult með.
En mætti teljast líklegt að sá snillingur sem skóp þetta eitt