Skírnir - 01.01.1976, Side 124
122
ÞÓRIR ÓLAFSSON
SKÍRNIR
vel afmarkaðar og þær gleymast ekki. Umhverfinu er vel lýst,
það verður heillandi og lifandi." Þarna er það fyrst og fremst
stíllinn, sem gefur sögunni ágæti sitt.
Sóknarkonan sagði hins vegar: „Persónan (Salka Valka) höfðar
til mín, hún er athyglisverð, hún er tákn fyrir þrautseigju þjóð-
arinnar, líf og fórnfýsi fólksins í landinu.“ Hún sér efnið fyrst
og fremst í samhengi við hið daglega líf íslendinga, lýsing á
lífsbaráttu fólksins er það, sem gerir söguna góða í hennar
augum.
Hér er um tvenns konar skilning að ræða. Ekki þannig að
annar skilningurinn lýsi meiri þroska en hinn, einungis það að
persónan Salka Valka stendur verkakonunni nær en hinni, sem
fengið hefur sína skólun í því hvernig meta skuli bókmenntir.
8. Niðurlag
Hlutverk þessarar könnunar var að athuga hvort kenningar
um það, að félagslegir þættir ráði miklu um lestrarvenjur, ætti
við íslenskar aðstæður.
Til þess að kanna þetta voru ólíkir lesendahópar valdir,
tveir hópar kvenna með mjög ólíka og mislanga skólagöngu að
baki og lestrarvenjur þeirra kannaðar lítillega. Þættir, sem varða
bókaöflun, tíðni bóklestrar, tegundir lesinna bóka, notkun á
bókmenntum til umræðu, notagildi og upplifun efnisins eru
með mjög ólíku sniði hjá þessum tveimur hópum eins og fram
hefur komið. Með svo ólíku sniði að vart getur talist að hóp-
arnir eigi nema lítið eitt sameiginlegt á þessu sviði.
Hóparnir hafa mjög ólíka aðstöðu til þess að afla sér bóka
og ólíka þjálfun í því að nota sér bókmenntir. Sóknarkonurnar
eru nær algerlega háðar innlendri bókaútgáfu og bókasöfnum,
þær hafa hlotið litla eða enga tilsögn í lestri bókmennta á
stuttri skólagöngu. B.H.M.-konurnar geta nýtt sér mikið magn
ódýrra erlendra bóka, auk þess sem þær vegna tilsagnar og um-
gengni við bókmenntasinnað fólk geta nýtt sér mun fjölbreyti-
legri bókmenntir en Sóknarkonurnar.
Sú breyta, sem mestu veldur um þennan mun á hópunum, er
tvímælalaust sú ólíka menntun, sem þeir hafa að baki. Menntun
er félagslegt fyrirbæri, sem setur mark sitt mjög áberandi á