Skírnir - 01.01.1976, Page 157
SKÍRNIR
LÝÐVELDI OG HERSTOÐVAR
155
frá kosningunum 1942. Uppskera sósíalista varð rýr, því fylgis-
aukning þeirra nam aðeins einum af hundraði. Nýsköpunar-
stjórnin hafði hins vegar hlotið ótvírætt umboð kjósenda og Ól-
afur Thors var ráðinn í áframhaldandi samvinnu við sósíalista.
Dreyfus varaði stjórn sína við þeim hættum, er stöfuðu af nýrri
stjórnarmyndun:
.. . kommúnistar lýsa því yfir, að það sé skilyrði þeirra fyrir nýjum stjórnar-
sáttmála, að í honum verði ákvæði um synjun herstöðvaleigu ... og tafar-
lausa kröfu [til bandaríkjastjórnar] um brottflutning bandarískra hermanna.
Sendiráðið treystir ekki Ólafi Thors til þess að halda þessu ákvæði utan
stjórnarsáttmálans. Rannsókn á sögu herstöðvamálsins leiddí það áþreifan-
lega í ljós, að Ólafur hefur aldrei unnið í okkar þágu, þvert á móti hefur
hann ævinlega látið persónulega og pólitíska hagsmuni sína sitja í fyrir-
rúmi .... engin samtök, sem einhvers mega sín í íslenskum stjórnmálum, eru
því fylgjandi að leigja erlendum ríkjum herstöðvar.... Ólafi yrði engin
pólitísk hætta búin innanlands með þvi að ganga að skilyrði kommúnista.50
Stuttu eftir kosningar lagði Ólafur fram fyrirspurn um af-
stöðu bandaríkjastjórnar til hugsanlegrar beiðni um brottflutn-
ing hersins. Taldi Ólafur að slík beiðni gæti orðið „afar affara-
sæl“ fyrir stjórnarsamstarfið. Ef til hennar kæmi, bæri banda-
ríkjastjórn að leggja fram áðurnefnda lagaskilgreiningu á her-
verndarsamningnum og gera grein fyrir afnotaþörf bandaríkja-
hers af Keflavíkurflugvelli. Síðan „ættu samningar að nást á
þeim grundvelli, er bróðir hans hefði kunngert honum". Banda-
ríkjamenn voru sannfærðir um, að ótti þeirra væri orðinn að
veruleika. Forsætisráðherra hefði gengið að skilmálum sósíalista
fyrir stjórnarmyndun. Ef Ólafur fengi frjálsar hendur til að
krefjast brottflutnings hersins, væri hann vís til að neita að láta
á móti nokkur hernaðarréttindi. Bandaríkin yrðu auðmýkt í
ásýn umheimsins líkt og Sovétríkin í íransmálinu. Dreyfus kom
þeim skilaboðum til forsætisráðherra, að James Byrnes utan-
ríkisráðherra hefði „gjörsamlega blöskrað" [„greatly shockcd"]
uppástungan urn, að íslendingar beiddust brottflutnings setu-
liðsins. Sagðist Dreyfus jafnframt vilja fyrirbyggja slíkt frum-
hlaup með því að gera forsætisráðherra nokkra grein fyrir hinni
nýju tillögu bandaríkjastjórnar. Þar sem kosningar voru að baki,
féllst forsætisráðherra loksins á að taka tillöguna (endurskoðaða
af bandaríska sendiráðinu) til athugunar.51