Skírnir - 01.01.1976, Page 201
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR OG KVENFRELSI
199
Það sem þó mest einkennir vitund Jennýar er öryggisleysi.
Hún h'efur aldrei fengið að vera hún sjálf, — hvorki á vegum
foreldranna né síðan á vegum eiginmannsins: „Hvernig yrði
líf mitt án Ragnars? Hvað var ég sjálf? Ég hafði aldrei gert neitt
annað en vera konan hans“ (18). Það verður því átak fyrir hana
að þurfa að horfast í augu við sjálfa sig sem sjálfstæða mann-
eskju, og hún leitar lika hvað eftir annað á flótta, annaðhvort
í drykkju eða í svefnlyf. „Heimurinn á vart til betra bjargræði
handa vonsviknu fólki en Mogadon" (101).
Þótt þjóðfélagsleg staða Jennýar sé ekki mikið til umræðu,
má finna skýra vitund um hana, t.a.m. á hún ekki kost á ann-
arri vinnu í New York en e.k. vinnukonustarfi. En einnig má
segja að bókinni ljúki áður en vandamálin koma til sögunnar.
Staða einstæðrar móður er þó dregin upp í lýsingu Lilju, sem
hefur ekki efni á að leigja sér íbúð og hafa hjá sér börnin. Hún
er full af sektartilfinningu, sem er ein ástæðan til þess að hún
er svo áfjáð í að giftast.
Jenný vill vera hún sjálf, og hún vill líka öryggi. Milli þessa
skapast togstreita sem líklega er eitt höfuðvandamál nútíma-
kvenna. Öryggið finnur hún nefnilega ekki hjá sjálfri sér, held-
ur hjá karlmönnum. Eftir dauða eiginmannsins tekur við
„hversdagslegt öryggisleysi" (40). Þegar hún kemur til New
York til að liitta David og hann tekur ekki á móti henni fyllist
hún annars konar öryggisleysi: „Ég leit í kringum mig á sam-
ferðafólk mitt og fann skyndilega til vanmegnugrar reiði og
öfundsýki í garð þess. Það var svo mikið öryggi í svip þess, eins
og það vissi nákvæmlega hvað biði þess“ (67). Þegar svo David
svíkur hana, er hún jafnvel á því að fremja sjálfsmorð, ekki af
ástarsorg, heldur öryggisleysi. Þessi leit að öryggi og karlmönn-
um samræmist ekki leitinni að sjálfumleikanum. Þetta kemur
alls ekki fram í Útrás sem meðvitað vandamál, en má finna það
undirniðri í ýmsum hugleiðingum Jennýar: „Ég hélt dauða-
haldi um sterkbyggðan líkama hans, eins og ég gæti þannig
komið í veg fyrir, að nóttin yrði að degi og að þessir tveir lík-
amar yrðu aftur að tveimur ólíkum persónum, sem áttu ekkert
sameiginlegt, kannski ekki einu sinni einmanaleikann“ (209).
Öryggið er falskt: