Skírnir - 01.01.1976, Page 205
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR OG KVENFRELSI
203
Ástin er eini möguleikinn sem hún eygir til frelsunar og sjálf-
stæðis, þ.e. að fara frá einum manni til annars: „Ég hef fundið
sjálfa mig, — eða öllu heldur: fundið þann sem hefur gert mig
að sjálfstæðri veru, leyst úr læðingi þær tilfinningar sem ég hef
þurft að bæla niður“ (62).
Hún er fjárhagslega háð eiginmanninum, og gerir sér grein fyr-
ir því: „Ég er vanþakklát, lífsleið, fer á bak við manninn minn og
þigg þó úr lófa hans brauð og vatn og sement og bensín og revlon
og allt sem þarf“ (36). Hann lítur á hana sem sjálfsagðan hlut í
húsinu, rétt eins og stóra málverkið af rjúpum í vetrarsnjó eftir
Kjarval, „stolt og prýði hússins" (158), sem hann hafði „einhvern
tíma endur fyrir löngu keypt.. . þreyttist aldrei á að sýna
það gestum og lét alltaf fylgja hvað hann hafði gefið fyrir það“
(158). í augum eiginmanns og samfélags er hún ekki til nema
í afstöðu við hann. í væntanlegum alþingiskosningum er henni
ætlað að vera „konan bak við manninn" (26), með því takmarki
í lífinu að verða „þingmannsfrú" (21). En sjálf upplifir hún
stórt bil milli sjálfrar sín og þess hlutverks sem henni er ætlað:
Þó hélt ég áfram að brosa þegar þess var krafist af mér, brosti af þjóðfé-
lagslegum ástæðum, hagrænum ástæðum, — stéttvísu, sætu brosi sem fór
vel á mynd, þeirri mynd sem ég var. Ég brosti aldrei fyrir framan spegil-
inn. Bara framan í þjóðfélagið. Brosti aldrei í Þingholtunum. Bara framan
í umhverfið. Brosti aldrei nakin. Bara f mínu besta skarti (27).
Þetta misræmi milli hennar sjálfrar og hlutverksins kemur
einna greinilegast fram við kvennaársumræður gesta hennar á
nýársnótt. Hún hlustar eins og úr fjarska á innihaldslaust tal
þeirra án þess að taka þátt í því. „Er þetta ekki bara eittlivert
sölutrikk? Selja rneira af snyrtivörum, lia? Revlon og því?“ (29).
Aðrir eru uppi með þá skoðun að kvennaárið sé aðeins fyrir
konurnar í „þessurn vanþróuðu löndum. Þar sem konurnar eru
kúgaðar" (30), þær eigi nefnilega „langt í land, konurnar... í
þriðja heiminum, að ná þeim status sem þær hafa hér“ (31).
Hún hugsar um það eitt að brosa, bjóða snittur og þrauka
„þangað til ég fæ tækifæri til að lifa ... þangað til þessari leik-
sýningu er lokið og ég fæ tækifæri til að flýja ..(31).