Skírnir - 01.01.1976, Side 206
204
HELGA KRESS
SKÍRNIR
í þessum kafla um kvennaárið er greinilega verið að hæðast
að þeim sem ekki þykjast þurfa að taka það til sín, því sjónar-
miði að í íslenskri borgarastétt séu konur ekki kúgaðar. En sam-
tímis er einnig verið að gera lítið úr kvennaárinu sem slíku,
nreð útúrsnúningum sem þessum: „Átti ég að leggja mig fram
sem góð móðir, góð eiginkona, þægilegt viðhald, áhugasamur
félagi í systrafélaginu? .. .“ (29). Sams konar tvískinnungs gætir
einnig gagnvart kvenfrelsisbaráttunni, sem er bæði látin eiga rétt
á sér og eiga það ekki. Gagnrýni á borgaralega hugmyndafræði
um stöðu kvenna er alls staðar að finna í bókinni, t.a.m. í lýs-
ingunni á frúnum í kvenfélaginu Hlekknum, sbr. einnig nafn
félagsins, og í ræðu sögukonu á framboðsfundinum í Háskóla-
bíó. En samhliða þessari gagnrýni gætir neikvæðrar afstöðu til
þeirra sem opinberlega vinna gegn kúgun kvenna. Þannig eru
t.a.m. báðir aðilar sýndir í háðsljósi í eftirfarandi tilvitnun, sem
þó óneitanlega hefur mikið til síns máls hvað varðar stjórnmála-
flokkana. Það er forsætisráðherrann sem talar:
Hinir flokkarnir hafa allir haft upp á einhverjum kvenpersónum sem getið
hafa sér frægðarorð á sviði hafréttarfræði, í jarðeldavísindum, lögspeki, skáld-
skap og öðrum karlmannsverkum og ætla sér að fiska atkvæði út á þær.
En okkar spesíalistar segja að fólk treysti ekki svona kvenfólki. Það lítur
bara á það sem kvenfólk sem er að reyna að breyta sér í karlmenn ... það
sé miklu vænlegra til árangurs að geta auglýst upp frambjóðanda sem á
fyrirmynclarkonu" (69).
Skv. Feilnótu í fimmtu sinfóníunni liafa konur ekkert að
sækja til kvennabaráttunnar. Leiðin til frelsunar þeirra liggur
ekki um hana frekar en um ástina, en er helst að finna hjá unga
fólkinu, sem „gerir uppreisn gegn yfirvöldunum og lítilsvirðir
hefðbundið gildismat" (155). Þessi trú á yngri kynslóðinni er
svipuð og lrjá Vésteini Lúðvíkssyni í Eftirþönkum Jóhönnu, en
þó frábrugðin í því grundvallaratriði, að leiðin sem Feilnóta í
fimmtu sinfóníunni sýnir, liggur ekki gegnum frjálsar ástir,
heldur er fólgin í menntun og e.k. stjórnleysi.
Fulltrúar ungu kynslóðarinnar og frelsisins eru dóttirin Dóra
og hippið Sandra með indíánaband um ennið. Það eru þær sem
hvor á sinn hátt ljúka upp augum sögukonu: