Skírnir - 01.01.1976, Page 208
206
HELGA KRESS
SKIRNIR
inn . . . Ég lifði tvöföldu lífi, laug og sveik; allan tímann kvalin af ótta um
að allt kæmist upp, reyndi að halda öllu leyndu og trúði því aldrei að
þetta mundi endast. Einhvern daginn sæti ég við gluggann heima og tæki
til að nýju við að bródera postulaveggteppið og ætti ekkert eftir nema
leynilega minningu og dulinn sársauka (75).
Verkið vísar heldur ekki á neina leið fyrir hana út úr ógöng-
unum, og er þar kannski dálítið gamaldags í afstöðu sinni. Það
kemur heldur ekki nógu greinilega fram af hverju hún er svona
hrædd við að standa á eigin fótum. Skilgreiningin beinist meir
að afleiðingum en orsökum:
... það var ekki frelsi sem þú sóttist eftir, þvert á móti ertu hrædd við
frelsið...Nú viltu snúa heim,... hóa saman næsta saumaklúbb, taka svo
fram ryksuguna og ryksuga vandlega burt úr lífi þínu þennan leiðindaat-
burð. Taka aftur fram bróderíið þitt og halda áfram að bródera líf þitt
eftir þessu fyrirmyndarmunstri sem þér var fengið í hendur (141).
Lýsingu sögunnar á konunni sem fanga „samfélags og fjöl-
skyldu" (75) eru varla gerð nægileg skil. Það kemur fram, að
sögukona hefur verið gædd einhverjum listrænum hæfileikum
og að hún hefur stúdentspróf. En hvað það er sem hindrar hana
í að notfæra sér þetta, eftir að hún hefur gert sér grein fyrir
hugmyndafræði þess borgaralega þjóðfélags sem hún lifir í,
kemur ekki greinilega fram.
Fuglar og flug eru hvað eftir annað notuð sem tákn um stöðu
kvenna, bæði til að dýpka hugleiðingar sögukonu og gefa þeim
meiri vídd. Stöðu borgaralegra eiginkvenna er líkt við skraut-
fugla sem hafa alið allan sinn aldur í búri:
Dömurnar dreypa á sjerríinu. Eins og litlir kanarífuglar í búri sem stinga
gogginum rétt sem snöggvast í litla karið sitt og halda svo áfram að tísta.
Þetta er úrvalssjerrí... enda eru þetta úrvalsdömur og þær tísta hver upp
í aðra í fallegu búrunum sínum og viðra á sér fjaðrirnar og hoppa af einu
priki á annað, fram og aftur, aftur og fram. Hvað rnundi gerast ef þeim
yrði hleypt út úr búrunum sínum og út í garð þar sem þær gætu flögrað
af einni grein á aðra, af einu tré á annað, úr einum garði í annan, einni
götu í aðra, einu hverfi í annað, sest á svalahandrið hjá ókunnu fólki
eða lagt leið sína upp í sveit? Auðvitað yrði auglýst eftir þeim í útvarpinu
og einhver fyndi þær þar sem þær lægju afvelta einhverstaðar í skurði og
væru hættar að blaka fallegu vængjunum sínum og hárgreiðslan rokin út
í veður og vind (33).