Skírnir - 01.01.1976, Síða 275
SKÍRNIR
RITDÓMAR
273
og sagnfræði. Þessi stefna er sú að lýsa efninu innan £rá, þ. e. með hugsunum
og hugtökum þess tíma, þegar verkin urðu til. Steblin-Kamenskij árétti
þetta viðhorf í grein sinni í Mediaeval Scandinavia 8, 187—191 (1975) og í
þessari nýju bók beitir hann þessari aðferð á goðsagnir. Vafalaust verðá
margir, sem lesa þessa bók, á annarri skoðun um rnargt, en allir munu hafa
hag a£ að kynnast skoðunum og sjónarmiðum liöfundar og sjá þessi mál
rædd frá sjónarmiði samtima liðinnar tíðar.
Magnus Pétursson
SJÖ ERINDI UM HALLDÓR LAXNESS
Sveinn Skorri Höskuldsson sá um útgáfuna
Helgafell, Reykjavík 1973
í þessari bók birtast sjö þættir eftir jafnmarga liöfunda, fluttir í Ríkis-
útvarpið í árslok 1972 í tilefni af sjötugsafmæli Halldórs Laxness sama ár.
Um veruleg nýmæli er ekki að ræða, enda varla tilgangur þessa erindaflokks
að boða endurskoðun á verkum hans. En íslenzkum almenningi er hér boð-
inn samvizkusamlega unninn og traustur fróðleikur, sem gefur nokkurn veg-
inn alhliða mynd af skáldinu.
Sveinn Skorri Höskuldsson ríður á vaðið með „Sambúð skálds við þjóð
sína“. Þar segir meðal annars: „Við erum önnur þjóð nú en þegar fólk nam
rödd Halldórs Laxness fyrst.“ (11) Þetta er ómótmælanleg staðreynd. En um
það, að hverju leyti skáldið sem einstaklingur og rithöfundur hefur sett
mark sitt á þessa þróun, eða að hverju leyti hún hefði átt sér stað, meira
eða minna, einnig án hans, er ekki auðvelt að fullyrða neitt, af eðlilegum
ástæðum.
„Hvaða erindi taldi skáldið sig eiga við þjóð sína, og hvernig tók hún
undir það?“ (14) spyr Sveinn Skorri. Ritgerð hans er tilraun til að svara
þeim spurningum. Hann bendir réttilega á það markmið skáldsins „að
rnenna íslenzku þjóðina" (11) og ala upp í henni trú á sjálfri sér, á landinu
og framtíðarmöguleikum þess. Viðbrögð þjóðarinnar við skáldskap Halldórs
Laxness hafa sem kunnugt er verið með ýmsu móti og stundum skrýtin. Það
hefur verið sagt um höfund Sölku Völku og Sjálfstœðs fólks, að hann væri
að semja „níð um íslenzka þjóð og einkanlega íslenzka alþýðu í sveit og
við sjó“ (37). Og þessi stílsnillingur og meistari tungu sinnar hefur verið
„sakaður um að kunna illa íslenzkt mál og um, að hann misþyrmdi tung-
unni“ (23). Ef til vill fjallar Sveinn Skorri helzti mikið um hina ytri hlið
þessa grátbroslega þáttar í „sambúð skálds við þjóð sína“. Það hefði verið
forvitnilegra að fá að vita í staðinn meira um hvaða sérkenni „kiljönskunn-
ar“ hafa farið svo rækilega í taugarnar á löndum hans. Hvað felst eiginlega
í þeim „orðskrípum: skringilegum orðum og latmælum" (26), sem hafa verið
18