Skírnir - 01.09.1992, Page 8
Frá ritstjórum
SKÁLD SKlRNlS er nú Steinunn Sigurðardóttir og eru frumbirt þrjú ljóð
hennar. Einnig er í heftinu þýðing Steinunnar á ljóði eftir pólska skáldið
Adam Zagajewski.
Islensk þjóð nærist á menningu og fiskveiðum. Nú þegar þrengir að í
sjávarútvegi er brugðist við með því að vega að menningu og menntun,
ekki síst bókmenningu. Slík nauðhyggja vísar okkur á hnignunarbraut.
Á hinn bóginn vill Skírnir að þessu sinni minna á mikilvægi menningar-
legrar sýnar á atvinnulífið. Glíman við þorskinn, eins og Gunnlaugur
Scheving túlkar hana í mynd sinni „Fiskibátur 1958“, blasir við á kápu
ritsins. Björn Th. Björnsson fjallar um stöðu sjávarmynda Gunnlaugs í
íslenskri myndlist. Þá nálgast Atli Harðarson fiskveiðiumræðuna frá
óvenjulegum sjónarhóli í pistlinum „Hverjir eiga fiskinn?". Þetta er ein
af lykilspurningum um atvinnulíf og framtíðarskipan íslensks samfélags.
Einnig mætti spyrja hverju smæð okkar skipdr í því tilliti, eins og Mikael
M. Karlsson gerir í „Smáræðu", eða hvernig kenningar um þróun vinnu-
hátta, sem Ingi Rúnar Eðvarðsson fjallar um í ritgerð sinni, koma heim
og saman við íslenskar aðstæður. Margt er í deiglu í íslensku þjóðlífi og
samkvæmt Skírnismálum Sigurðar Líndals hafa menn enn ekki áttað sig
nógsamlega á því hvað stjórnskipuleg staða forseta lýðveldisins felur í sér.
Það eru einnig mikilvægar hræringar í heimi fræðanna og þar er spurt
grundvallarspurninga um hlutverk og stöðu hugvísinda. Davíð Erlings-
son fjallar um stöðu íslenskra mennta andspænis breyttum viðmiðum og
nýjum fræðilegum hugsunarhætti. Skírnismálin um hlutverk sagnfræð-
innar halda áfram í grein Más Jónssonar og þó að ritgerð Max Hork-
heimers sé orðin hálfrar aldar gömul, eru spurningar hans um hlutverk
heimspekinnar í samfélaginu enn brennandi. Að mati Eyjólfs Kjalars
Emilssonar eru kenningar Platons, sem fram voru settar fyrir hartnær
2400 árum, raunar brýnt umhugsunarefni í samtímaheimspeki.
Islendingar eru alvanir því að sækja á mið fornaldar sinnar til
skilnings á þjóðlegum arfi og veruleika. Til marks um þessa viðleitni eru
í þessu Skírnishefti greinar um bækur eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur,
Þóri Óskarsson og Véstein Ólason sem og ritgerðir eftir Guðrúnu Nor-
dal og Helga Þorláksson. Þær tvær ritgerðir bera hvor á sinn hátt vitni
um áhugamál sem nú setur nokkuð svip sinn á rannsóknir íslenskra forn-
bókmennta: tengslin og fjarlægðin milli tveggja megintímasviða hinnar
fornu menningar, hinnar svokölluðu „sögualdar" (for-ritunartímans) og
ritunartímans, hinnar róstusömu Sturlungaaldar.
Loks eru í heftinu fregnir af nokkrum nýlegum bókum.