Skírnir - 01.09.1992, Page 12
274
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
lyktar með því að Órækja, sonur Snorra, giftist Arnbjörgu, systur
Kolbeins. Órækja flytur þá til Vestfjarða þar sem hann ógnar
goðorði Sturlu. Beinar deilur Snorra og Sturlu eru þar með úr
sögunni, en víkingaháttalags Órækju á Vestfjörðum og eignaupp-
töku í goðorði Sturlu vestra hefnir Sturla með því að ráðast á
Snorra í Reykholti og síðar með því að hálfgelda Órækju.
Þessi útdráttur gefur nokkra hugmynd um deilu Sturlu og
Snorra, þó að stiklað sé á stóru í sögunni. Það efnisatriði sem
vekur forvitni og stingur í stúf við hefðbundin atriði valdadeilu á
skálmöld Sturlunga er nafnið sem Þorvaldssynir í þrígang velja
kristnum höfðingjanum Sturlu Sighvatssyni: Dala-Freyr. Það
viðurnefni er einstætt og kemur hvergi annars staðar fyrir í ís-
lenskri miðaldaheimild. Þetta er í eina skiptið sem íslenskur höfð-
ingi er kenndur við þetta heiðna goð.6 Þessi dularfulla endur-
vakning Freys á Sturlungaöld hlýtur því að verðskulda nánari
skýringu. Á þessum síðum ætla ég að leita róta þessarar nafngift-
ar, skoða hlutverk hennar og afleiðingu í þessari deilu Snorra og
Sturlu, og velta því fyrir mér hvernig Frey reiddi af í meðförum
kristinna rithöfunda í samanburði við Óðin. Þau ólíku viðhorf
sem birtast til þessara tveggja goða gefa okkur óvænta innsýn í
hugmyndaheim þrettándu aldar.
2
Árið 1229 þegar Sauðafellssför var farin voru margir mannsaldrar
liðnir frá því blótað hafði verið á Islandi. Engar heimildir eru til
um hvernig íslensk blót fóru fram í heiðni og við höfum enga
hugmynd um trúarlegt hlutverk goðanna fyrir kristnitökuna.7
Þessi allsherjarþögn um blótin í rituðum heimildum er vísbend-
6 Freyr með kenninafni er hinsvegar alþekkt kenning í fornum kveðskap um
karlmenn. Sjá t.d. Lexicon Poeticum. Antiqux Linguœ Septentrionalis. Ordbog
over det Norsk-Islandske Skjaldesprog. 1931, upprunaleg útg. Sveinbjörn Eg-
ilsson, 2. útg. Finnur Jónsson, S.L. Mollers Bogtrykkeri: Kabenhavn, sjá: Freyr.
7 Sjá m.a. Jakob Benediktsson. 1974, „Landnám og upphaf allsherjarríkis“, Saga
Islands 1, Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélagið: Reykjavík, 172-3 og
Jón Hnefil Aðalsteinsson. 1988, „Norræn trú“, íslensk þjóðmenning V, ritstj.
Frosti F. Jóhannsson, Bókaútgáfan Þjóðsaga: Reykjavík, 27-55.