Skírnir - 01.09.1992, Page 21
SKÍRNIR
FREYR FÍFLDUR
283
eddukvæðin inn í frásögn sína af goðunum í Gylfaginningu.
Hann lýsir Frey svo í Snorra-Eddu:
Freyr er hinn ágætazti af ásum; hann ræðr firir regni ok skini sólar, ok
þar með ávexti iarðar, ok á hann er gott at heita til árs ok friðar. Hann
ræðr ok fésælu manna.32
I Ynglingasögu lýsir Snorri Frey sem forföður Svíakonunga,
svokallaðra Ynglinga. Yngvi var annað nafn Freys. Freyr verður
konungur Svía eftir Njörð, föður sinn, giftur konungsdótturinni
Gerði Gymisdóttur. Snorri virðist í Ynglingasögu sameina sagnir
um Frey og Fróða, konung Dana, í eina sögn.33 Hann kallar ár-
sæld þá, sem ríkti á tíð Freys, Fróðafrið. Af þeim sökum getur
lýsingarorðið „fróður" stundum átt við Frey. I Svíþjóð ríkti ár og
friður á meðan Freyr lifði, og þremur árum betur, á meðan Svíar
gátu leynt dauða hans fyrir íbúum landsins.
Það er athyglisvert að huga lítillega að túlkun Snorra Sturlu-
sonar á goðsögum, þar sem við höfum efni eddukvæða til saman-
burðar. Frásögn Snorra um ágirnd Freys á þursadótturinni Gerði,
sem byggð er á Skírnismálum, er eina frásögnin í Snorra-Eddu
sem sérstaklega fjallar um frjósemisguðinn. Hún beinist einkum
að því að undirstrika hroka guðsins. Freyr kemur auga á hina
fögru Gerði, þegar hann gengur í óleyfi inn í Hliðskjálf, svo að
hann sér um heima alla. Snorri átelur ágirnd hans:
ok svá hefndi honum þat mikla mikillæti er hann hafði setz í þat helga
sæte, at hann gekk í braut fullr af harmi. Ok er hann kom heim, mælti
hann ekki, hvárki svaf hann né drakk, engi þorði ok krefia hann orða.34
Freyr geldur girnd sína dýru verði. Hann lætur af hendi
sverðið sem svo sárlega er saknað í Ragnarökum. Gangleri skilur
32 Gylfaginning. Snorri Sturluson. Edda. Gylfaginning og Prosafortellingene av
Skáldskaparmál, útg. Anne Holtsmark og Jón Helgason, Nordisk Filologi
Ser. A.I., Kobenhavn, 24. kafli.
33 Ynglinga saga, 10. kafli, sbr. Turville-Petre 1964:169-70.
34 Gylfaginning, 37. kafli.