Skírnir - 01.09.1992, Page 28
290
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
Sturla muni ekki reyna á þolrif karlmennsku sinnar fremur en í
Sauðafellsför. En þegar Þorvaldssynir fara í griðum um Dalina á
leið til Snorra Sturlusonar í Reykjaholti, ræðst Sturla að þeim og
upp hefst harður bardagi. Þorvaldssynir leita griða, en Sturla
þvertekur fyrir. Erpstaðabardagi er óvenjulegur á marga lund, en
þó sérstaklega vegna sérkennilegrar hegðunar Sturlu sjálfs. Hann
berst ekkert sjálfur. Höfundur tekur sérstaklega fram að hann sé
manna best hæfinn og lýsir því hvernig Sturla, í miðri grjóthríð-
inni, veltir steini í hendi sér, en lætur hann þó niður falla. Snorri
Þorvaldsson verður vitni að hiki Sturlu:
Hví sækir þér Sturla ekki að? Og ætla eg að Dala-Freyr sanni nú nafn
sitt og standi ekki nær (339:1232).
Hér er nafnið bersýnilega tengt hugleysi og skorti á karl-
mennsku. Þetta er í annað sinnið sem Sturla stendur eigi nær.
Hann sannar nú nafn sitt. Þrátt fyrir þessi frýjunarorð dregur
Sturla sig í hlé í bardaganum. Kannski gerir hann það einmitt
vegna þeirra, því hann hefur gert upp hug sinn. Hann hefur yfir-
höndina í bardaganum og ætlar ekki að hætta lífi sínu. Hann
hugsar einungis um að hefna þeirrar niðurlægingar, sem birtist
bæði í orðum Þorvaldssona og verkum. En hegðun hans er þrátt
fyrir þann ásetning undarleg. Hann spottar menn sína fyrir
óhöndugleika og leti í bardaga; skellir upp úr eina stundina, en er
áhyggjufullur aðra. Þegar Halldór á Kvennabrekku, fylgdarmað-
ur hans biður Þorvaldssonum griða, varpar hann fram einkenni-
legum kviðlingi:
„Trautt mun eg trúa þér
troll", kvað Höskollr (341:1232).
Halldór sem hafði reynst ráðagóður í bardaganum verður
hvumsa og svarar: „Fyrir hvað skal eg þetta hafa?“ „Fyrir það“,
sagði Sturla, „að ekki þarf griða að biðja því að engi munu fást.
Og sækið að fast.“ Sturla hefur gert upp hug sinn. Grimmd hans
gagnvart Þorvaldssonum verður enn skiljanlegri ef hún á ekki að-