Skírnir - 01.09.1992, Síða 36
298
HELGI ÞORLÁKSSON
SKÍRNIR
4. Átti fjölda barna með allmörgum konum.
5. Talinn mikill hermaður.
Varðandi veldi Snorra goða er það sérkennilegast að hann
skyldi flytjast brott frá Helgafelli og setjast að í Sælingsdalstungu
og skipta þannig á bústöðum við Guðrúnu Ósvífursdóttur. Verð-
ur varla efast um að frá þessu sé rétt hermt í heimildum en óljóst
er hvernig á þessu stóð. I Eyrbyggju er þetta nefnt eins og það
hafi verið alkunnugt en engin eiginleg skýring gefin á því. I sög-
unni er þó gert ráð fyrir að veldi Snorra hafi verið með mesta
móti eftir að hann var sestur að í Tungu og hann hafi þá þegar
verið orðinn héraðshöfðingi á Snæfellsnesi, ýmist búinn að yfir-
buga keppinauta sína eða gera þá að bandamönnum.6 Og hann
virðist ráða öllu einn á Þórsnesþingi skömmu áður en hann flyst
í Tungu.7 Samkvæmt Eyrbyggju virðist Snorri setjast að í Tungu
til að glíma við nýja andstæðinga, þá Þorstein Kuggason og Þor-
gils Hölluson, og færa út veldi sitt. I Laxdælu er hins vegar allt
annar skilningur á flutningi Snorra í Tungu, þar er litið á þetta
sem greiða við Guðrúnu Ósvífursdóttur og talið hafa verið
heppilegt fyrir Snorra því að hann hafi þá átt deilur miklar við
Eyrbyggja.8
Sigfús Blöndal skildi Eyrbyggju þannig að Snorri hefði verið
orðinn öðrum höfðingjum voldugri á Snæfellsnesi þegar hann
hafði bústaðaskiptin og því flust í Tungu til að færa út kvíarnar í
pólitískum skilningi.9 Sigfús virðist miða við að Snorri hafi verið
að stofna eins konar héraðsríki að hætti manna á 13. öld og hafi
stefnt að því að bæta Dölum við ríki sitt. Laxdœla bendir þó til að
í munnmælum hafi verið gert ráð fyrir að veldi Snorra hafi ekki
6 Helgi Skúli Kjartansson, Fjöldi goðorða samkvœmt Grágás. (Félag áhuga-
manna um réttarsögu. Erindi og greinar 26,1989), bls. 34-5.
7 ÍF IV, bls. 156-7.
8 Laxdcela saga. Útg. Einar Ól. Sveinsson. (íslenzk fornrit V, 1934), bls. 169.
[Nefnt IF V hér á eftir]. Sé tímatal rétt, sbr. bls. lv-lvi, hefur Snorri sest að í
Tungu eftir að Víga-Styr, tengdafaðir hans, bandamaður og nágranni, var fall-
inn og hefur þá kannski verið verra að verjast Eyrbyggjum heima á Þórsnesi.
9 Sigfús Blöndal, „Goden Snorri Thorgrímsson. Et 900-Aars Minde“. Dansk-is-
landsk Samfund. Árbog (1931), bls. 80-81. Sigfús giskar líka á að Snorri hafi
verið að flýja heiðnar trúarhugmyndir sem tengdar hafi verið Helgafelli.